19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2401)

6. mál, Þjóðabandalagið

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Því fer fjarri, að ég telji það óeðlilegt, að menn breyti afstöðu með breyttum tímum. Ég vil meira að segja lýsa ánægju minni yfir hinni breyttu afstöðu hv. flm. í þessu máli, og láta þá ósk í ljós, að afstaða hans til mála yfirleitt mætti breytast í sömu átt.

Hv. þm. sagði, að stórkostlegar breytingar hefðu orðið á heiminum síðan 1930, — í fyrri ræðu sinni nefndi hv. þm. tímabilið frá 1918, að Ísland fékk sjálfstæði sitt. Ég játa það, að allmiklar breytingar hafa orðið á Þjóðabandalaginu, svo sem sú, er hv. þm. drap á, að þá var Þýzkaland lýðræðisríki og meðlimur bandalagsins, en er nú ekki lengur meðlimur þess. En ég fæ enn ekki skilið ástæðurnar fyrir því, að Ísland ætti frekar að ganga í Þjóðabandalagið nú en þá. Einmitt það, að Þýzkaland var þá meðlimur Þjóðabandalagsins, jók mjög styrk þess og gerði það hæfara til þess að framkvæma hlutverk sitt, verndun friðarins og verndun smáþjóðanna. Þessir möguleikar hafa stórum minnkað við það, að Þýzkaland er ekki lengur meðlimur Þjóðabandalagsins og hefir snúizt á móti því. Þjóðabandalagið er veikara fyrir bragðið og getur síður veitt smáþjóðunum það öryggi, sem það átti að veita. Mér heyrðist líka á ræðu hv. flm„ að hann jafnvel búist við því, að þau réttindi, sem við öðlumst við inngöngu í Þjóðabandalagið, yrðu ekki nema pappírsréttindi.

Í þriðja lagi sagði hann, að það væri skylda okkar að styðja að því, að alþjóðaréttur myndaðist og yrði raunverulegur í heiminum. — Í seinni ræðunni sagði hann bara, að við yrðum að styðja Þjóðabandalagið. — Ég er honum sammála um þetta. Enginn gengur þess dulinn. að Þjóðabandalagið er nákvæmlega jafnsterkt — eða veikt —. hvort sem við erum í því eða ekki. Því verðum við að meta það, hvort okkur beri að ganga í Þjóðabandalagið, eingöngu eftir því, hvaða öryggi það getur veitt okkur. Og þetta hefir breytzt siðan 1930 að því leyti, að nú er minna öryggis að vænta af Þjóðabandalaginu en þá. Ég var þá eindregið með inngöngu í Þjóðabandalagið. En nú myndi ég leggja til, að ákvörðun um þetta yrði frestað þar sem endurskoðun stendur til á sáttmála Þjóðabandalagsins.