20.10.1937
Neðri deild: 6. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2406)

6. mál, Þjóðabandalagið

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Það er aðeins tvennt í sambandi við ræðu hæstv. atvmrh., sem ég vildi minnast á. Í fyrsta lagi þetta: Það, sem ég tók fram í minni ræðu, var, að hæstv. ráðh. hefði lýst því yfir, að hann væri minna með því nú heldur en 1930 að ganga í Þjóðabandalagið. Ég skil það svo, að þetta sé skoðun hæstv. ríkisstj. um leið og þess vegna liggi þarna fyrir yfirlýsing um, að það sé fjær heldur en áður, að ríkisstj. muni mæla með því. — Og í öðru lagi: Í minni till. felst, að ríkisstj. sé falið að láta rannsaka þetta atriði og leggja niðurstöðurnar fyrir þ. 1938. En eftir því, sem mér heyrist, mundi þetta þýða, ef till. yrði vísað til stj., að málið gæti e. t. v. legið eins lengi í salti og það er búið að liggja siðan það fyrst kom fram, 1931. Hv. síðasti ræðum. taldi, að þetta væri hægt að athuga eftir að Þjóðabandalagið væri búið að sýna sig. Út frá þessu sjónarmiði og þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. gaf, var það, að ég áleit heppilegra, eftir að vera búinn að halda mína seinni ræðu, að þessi till. yrði samþ., en ekki vísað til stj.

Viðvíkjandi hv. þm. Snæf., þá skildi ég ekki eitt af því, sem hann beindi til mín sérstaklega, en meiningin var víst sú, að et verkalýðurinn yrði sterkur hér á landi, væri spursmál, hvort Ísland gæti tekið í sínar hendur öll sín mál 1943.

Og hvað „réttarvitund þjóðanna og mannkynsins í heild“ snertir, sem væri okkar eina vörn, eins og hv. þm. Snæf. komst að orði, þá hélt ég, að mín ræða hefði gengið út á að sýna, hve stopult væri að treysta á það eingöngu.