27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2418)

40. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Það fer ekki mikið fyrir þessari till., sem við hv. 5. landsk. flytjum viðvíkjandi úthlutun gjaldeyrisleyfa, en ég býst við, að svo framarlega sem till. nær samþykki d. og yrði framkvæmd af ríkisstj., þá myndi af því hljótast allveruleg bót á högum manna hér á landi, sérstaklega hvað verzlun og sjávarútgerð snertir.

Ég vil þess vegna óska þess, að d. ræði þessa till. og athugi hana rækilega. Við höfum ekki sett þetta fram í frv.formi vegna þess, að við vitum, að hægt er með því að breyta starfsreglum gjaldeyrisnefndar að gera nægilega mikið í þessu máli til þess, að gott hljótist af. Ég býst við, að allir hv. þm. séu sammála um, að gjaldeyrishöftin eins og þau nú eru séu nauðsyn, að vísu ill nauðsyn. Ég býst við, að menn séu líka sammála um, að hægt sé að beita þeim nokkuð öðruvísi, og aðalatriðið hlýtur að vera það, að hægt sé að beita gjaldeyrislögunum þannig, að sem minnst dýrtíð hljótist af þeim.

Það hefir verið svo undanfarið, að dýrtíð hefir farið jafnt og þétt vaxandi hér á landi. Það er m. a. vegna þess, hvernig gjaldeyrisleyfum hefir verið úthlutað. Þessi till. gengur út á það, að haga svo þeirri úthlutun, að dýrtíðin vaxi sem minnst, en samkeppnin sem mest, og að meiri möguleikar verði fyrir sem flesta til þess að fá vörurnar beinna og ódýrar en nú.

Tillagan felur í sér tvo liði, og snertir annar nauðsynjar almennings, en hinn vörur til atvinnurekstrar, svo sem til útgerðar og iðnaðar.

Fyrst vil ég ræða um, hverju hér er lagt til að breyta í verzlun með almennar nauðsynjar. Hingað til hefir verið beitt tveim reglum við úthlutun gjaldeyrisleyfa. Annað er höfðatölureglan, að veita innflutning miðað við þann fjölda heimila, sem stendur bak við verzlunina. Þetta hefir verið gert við neytendafélögin. Hinsvegar hefir þeirri reglu verið beitt við einkaverzlanir, að láta þær fá innflutning í beinu hlutfalli við það, sem þær hafa flutt inn áður. Ég er fyllilega samþykkur fyrri reglunni. En hin aðferðin og sú skoðun, að taka eigi mest tillit til þess, hverjar vörur innflytjandinn hefir tengið og getað selt fyrir 4–5 árum, nær varla nokkurri átt. Það er einmitt reglan, sem hefir orðið til þess að auka mjög dýrtíðina. Nokkrar heildverzlanir hafa fengið nálega allan innflutninginn á mörgum vörutegundum. Gjaldeyrisleyfin hafa jafngilt einkaleyfi fyrir þær. Þetta er gefið mál, enda öllum ljóst um sumar vörur. En þessi einokun getur færzt yfir flestar nauðsynjar. Það vona ég sé skiljanlegt, ef þess er gætt, að neytendasamtökin fá ekki innflutt nema rétt handa sér; hinu ráða heildsalar yfir. Það hefir vissulega komizt á raunveruleg einokun fyrir stórverzlanirnar. Þær nota þessa aðstöðu. Kjörin, sem þær veita smásölum, hafa versnað, verðið hækkað meir en erlendis, lánskjörin gerð örðugri. Smásalar hafa mátt þakka fyrir að geta fengið nokkrar vörur. Einokunin kemst með þessu lagi á það stig, að öll samkeppni er svo að segja drepin niður.

Þetta á sérstaklega við um smásala í Reykjavík. Kaupmenn úti um land, sem selja beint til neytenda, hafa fremur getað fengið vörurnar beint frá útlöndum heldur en smákaupmenn hér, þar sem mest er fjölmennið og þarfirnar. Ég veit, að sterk hreyfing hefir verið meðal smásala fyrir því að losna undan þessari einokun og órétti og að fara fram á það við Alþingi, að þeim yrði sjálfum veittur réttur til innflutnings. Það er þeim, eins og gefur að skilja, lífsnauðsyn í samkeppninni við neytendasamtökin, sem fá vörurnar án milligöngu heildsalanna.

Ég vil gefa hv. þdm. nokkra mynd af því, til hvers einkarétti á innflutningi er beitt. „Normal“álagning heildsala var áður 3–5% í beinni sölu, en í „lager“-sölu 8–12%. En álagning heildsalanna er nú að meðaltali 21%. Á hinn bóginn er álagning smásala 19%. Áður var heildsalaálagningin aðeins lítið brot af verðinu og miklu minni en hjá smásölum. Það hefir snúizt við. Smásöluálagningin er líkt og áður, undir 20%, en heildsöluálagningin hefir margfaldazt úr 5–10% upp í 21% að meðaltali. Það þýðir, að mennirnir, sem vinna allt verkið við dreifing vörunnar, vigta úr pokum, mæla, pakka inn, afgreiða o. s. frv., fá minna en 20%, en þeir, sem lítið eða ekkert vinna nema að hafa yfirumsjón með innflutningi vörunnar, fá yfir 20%. Enda er það svo, samkv. upplýsingum skipulagsnefndar atvinnumála, að árstekjur matvörukaupmanna í Reykjavík hafa verið að meðaltali 3300 kr. En meðallaun heildsala voru á sama tíma 16 þús. kr.

Ég vonast þess vegna til þess, að hv. þm. sjái, að hér er verið að beita eina stétt órétti í þágu annarar — og það tiltölulega mjög fárra manna hér í Reykjavík.

Þess vegna var það algerlega réttmætt, þegar matvörukaupmenn samþykktu í félagi sínu hér í bænum eindregna áskorun um það fyrst og fremst, að verzlun með matvöru yrði gefin frjáls, — eða í öðru lagi til vara, að gjaldeyrisleyfin yrðu veitt beint til smásala, en ekki heildsala, –vitanlega til þess, að smásalar gætu siðan keypt vörurnar erlendis með eigin samtökum. Þessi áskorun var lögð fram á verzlunarþingi síðast.

Og sama sjónarmið verður uppi, ef athuguð er sú hliðin, sem að neytendunum snýr. Það er engan veginn rétt, að þeir þurfi að sæta verri kjörum, sem verzla við kaupmenn, heldur en þeir, sem eru í kaupfélögum. Neytendafélögin hafa líka sinna hagsmuna að gæta í þessu efni. Þau óska ekki eftir því að hafa sérstaka lagavernd. Þau vilja gjarnan, að verzlunin sé sem frjálsust, því að þau sigra í frjálsri samkeppni. Það væri ekki heilbrigt að skapa þeim sérstök réttindi um innflutning. En ef kaupfélög og kaupmenn standa jafnt að vígi, verður afleiðingin, að báðir aðiljar keppa saman að því að selja ódýrt.

Það er sannað, að álagning og gróði stórkaupmanna eru óeðlilega há. Í frjálsri samkeppni, eða ef þeir færu aðeins með gjaldeyrisleyfin í umboði smásala, ætti öll þeirra viðleitni að stefna að því að fá sem ódýrastar og beztar vörur, í stað þess að fá nú nokkurskonar einkaleyfi til að útvega vöru, sem smásalar verða síðan að sjá um að koma út fyrir hvaða verð sem er. Ég tel vísvitandi stuðlað að þeirri verzlunarkúgun með því fyrirkomulagi, sem er á úthlutun gjaldeyrisleyfa.

Með þessari þáltill. er farið fram á meira réttlæti og það, að hægt verði að rýra dýrtíðina í landinu. Og mér finnst engir geta kvartað um, að þeir yrðu sviptir rétti sínum með þessu. Því að það getur ekki verið meiningin að leyfa 10–20 mönnum slík sérréttindi, leyfa þeim að okra á öllum almenningi. Mér skilst ekki annað en að þeir, sem að gjaldeyrislöggjöf og veiting leyfanna hafa staðið, óski einmitt þess, að sem minnst dýrtið hljótist af.

Ég vil henda hv. þm. á, að hér er ekki um neinar smáræðis upphæðir að tala. Í skýrslum skipulagsnefndar atvinnumála er árlegur kostnaður við það að selja landsmönnum ca. 50 millj. kr. innflutning talinn yfir 20 millj. kr. Það samsvarar rúmlega 40% álagningu á vörurnar eftir að þær eru komnar í höfn. Það samsvarar nákvæmlega því, sem ég gat um áðan, að heildsalar leggja 21% á vöruna og smásalar 19%. Ef hægt væri að minnka meðalálagning í heildsölu niður í 10%, mundi það þýða 5 milljónir, sem væru sparaðar fyrir alþýðuna í landinu. — Þetta kemur líka heim við það, að skipulagsnefnd atvinnumála hefir reiknað út hreinan gróða heildsalanna á árinu 1934 og talizt svo til, að hann væri um 5 millj. kr.

Það er þess vegna í engum vafa, að bak við þessa till. stendur vilji smásalanna, eins og m. a. sést af samþykktinni í félagi matvörukaupmanna. Ég veit hinsvegar, að heildsalar munu gera allt, sem þeir geta, til að hindra framgang hennar. Ég vona, að Alþingi meti meir hagsmuni almennings og fjölmennrar stéttar smásala heldur en örfárra manna.

Þá sný ég mér að siðara hluta till., þar sem ræðir um vörur til atvinnurekstrar. Það hefir að mínu áliti ekki minni þjóðhagslega þýðingu, ef smáútvegsmenn til dæmis gætu sjálfir fengið gjaldeyrisleyfi fyrir útgerðarvörum. Samkv. þeim reglum, sem ég hefi talað um, hefir innflutningur þeirra nauðsynja verið veittur þeim, sem önnuðust þann innflutning fyrir 4–5 árum. Með því móti hefir þessi innflutningur, eins og allir vita, haldizt í höndum örfárra heildsala. Álagning þeirra hefir verið frá tæpum 24% hjá kolaverzlunum upp í rúm 53%, eins og t. d. hjá olíufélögunum. Nauðsynlegustu útgerðarvörur, sem óhugsandi er, að framleiða megi innanlands, voru fluttar inn fyrir 8,8 millj. kr. árið 1933, en það er síðasta árið. sem handbærar skýrslur eru fyrir um það efni. Þetta þýðir m. ö. o., að hringarnir hafa tekið álagning sína af a. m. k. þeirri upphæð það ár og síðan. Sú álagning nemur bersýnilega fast að því 2½ millj. kr. á ári. Mikið af því er annaðhvort hreinn gróði eða peningar, sem fara í óþarfa kostnað við verzlunina; á því er enginn efi. — Nú hefir það verið upplýst hér í þinginu, að allt tap sjávarútvegsins væri upp undir tvær millj. kr. Ég vil vekja athygli á því, að álagning hringanna á útgerðarvörur hér á landi er meiri en nemur öllu því tapi. Í þessum skatti til hringanna felst allt það tap, sem útgerðarmenn reikna, að hafi orðið á rekstrinum hjá sér. — Það virðist ekki fjarri lagi, að álagning hringanna á sjávarúfvegsvörur gæti minnkað um helming. En til þess þyrfti annaðhvort harðvítuga samkeppni eða almenn samtök útgerðarmanna um að kaupa inn útgerðarvörurnar, og þeir yrðu þá að fá leyfin til þess. Ef álagning hringanna minnkaði um heiming, mundi það þýða 1¼ millj. kr., sem beinlínis rynni til sjávarútvegsins og yrði til þess að bæta úr tapi, bæta kjör manna og auka kaupgreiðslur.

Nú mundi einhver segja, að þetta sé „utopia“, að hægt sé að minnka þannig þann skatt, sem veiting gjaldeyrisleyfanna leggur á þjóðina. En það er ekki. Ég skal taka dæmi. Það er sú verðlækkun, sem heftir átt sér stað á benzíni. Þegar ríkið hækkaði tollinn á benzíni um 4 aura á lítra, tókst að hindra það, að hringarnir hækkuðu verðið sem því nam. Um leið og tækifærið gafst til að taka þarna upp baráttu við hringana, reyndist mögulegt að spara þjóðinni upphæð, sem nemur 400 þús. kr. á ári, á þessari einu vörutegund. Þegar það sýnir sig, að þetta er hægt, væri þá fjarstæða að gera ráð fyrir, að lækkunin öll á olíu, kolum, salti o. fl. gæti numið 1¼ milljón? — Ég held, að með þessari þáltill., sem ekki kostar svo mikið sem lagabreyting, megi spara þá upphæð.

Ég skil ekki í öðru en að smáútvegsmönnum ætti að vera fært að koma þessu fyrir ekki verr en t. d. bilstjórum. Ég skil ekki annað en neytendasamtökin ættu að vera fær um annað eins afrek og það var að lækka benzínið. Ég fæ ekki skilið annað en hægt sé með þessu að tryggja smáútvegsmönnum stórlækkun á öllum vörum. Ég tala ekki um þetta út í bláinn. Ég veit um olíuna, sem kostar 21 aura í Vestmannaeyjum nú, að það er hægt að fá hana fyrir 12 aura til landsins. Þessi leið til að styðja útgerðina þýðir ekki milljónaútgjöld fyrir ríkissjóðinn, — ekki eyris útgjöld —, heldur aðeins það, að veita ekki nokkrum hringum hér á Íslandi einkaréttindi til að selja vörur til smáútvegsmanna. Mér finnst satt að segja ekki farið fram á sérstaklega mikið. Með þessu er alis ekki verið að banna hringunum að verzla með þessar vörur hér á landi, heldur þýðir það einungis, að þeir verða að láta sér nægja sömu álagning og sömu skilyrði og aðrir menn — nema að því leyti, að þeir hafa fjármagn sitt við að styðjast. Aðalatriðið aðeins þetta, að smáútvegsmönnum sé leyft að ná rétti sinum í frjálsri samkeppni.

Ég ætla ekki að fara langt út í þetta mál að því er snertir iðnaðarmenn og smáiðnrekendur; það væri eins umfangsmikið í sjálfu sér eins og útgerðarmálin. Það hefir sýnt sig glöggt, að oft hafa einstakir hringar sölsað undir sig allan innflutning á einhverju því hráefni, sem þurfti til ákveðinnar iðnaðarframleiðslu, og okrað á því. Það kemur auðvitað niður á framleiðendum og síðan á neytendum í hækkuðu vöruverði.

Ég vonast til þess, að allir þingflokkar sjái sér fært að ljá þessari till. lið. Ég býst sérstaklega við, að Alþfl. og Rommfl. séu sammála um nauðsyn þessara umbóta. Ég vonast einnig til þess, að þeir fulltrúar Framsfl., sem telja sig sérstaklega fulltrúa samvinnuhreyfingarinnar, verði till. fylgjandi. Það getur ekki verið tilætlunin fyrir þeim að vilja skapa sambandi neytendasamtakanna nein sérstök lagaleg réttindi, sem öðrum eigi að neita um. — Við viljum verja þau samtök, munu þeir segja, fyrir hverskonar órétti, eins og tvöfalda skattinum, en við viljum ekki, að smákaupmenn geti sagt, að þeir séu misrétti beittir okkur í hag og að það sé lítill vandi fyrir kaupfélögin að selja ódýrt, þar sem þau séu óháð heildsölum og fái leyfin beint; — nei, þeir verða líka að fá leyfin beint. — Ég vona ennfremur, að fulltrúar Sjálfstfl. geti verið með þessari till. um að ryðja burt höftum, sem lögð hafa verið á frjálsa samkeppni. Mér finnst. að þeir geti ekki verið með því að setja einokun á innflutning til hagsbóta fyrir 10–20 menn hér í Reykjavík, en móti rétti fjölmennra stétta, sem þeir sjálfstæðismenn telja sig sérstaklega fulltrúa fyrir, verzlunarmannanna og smáútgerðarmannanna. Mér finnst, að þeir, sem telja sig fulltrúa verzlunarstéttarinnar, þ. e. a. s. sjálfstæðismenn, ættu hér að taka afstöðu með smákaupmönnunum og samþ. kröfur þeirra um, að gjaldeyrisleyfin verði þeim úthlutuð. Og ég vil ennfremur vænta þess hvað Sjálfstfl. snertir, sem talið hefir sig verndara smáútvegsmannanna, að hann taki undir með þessari till. um, að þeir geti fengið gjaldeyrisleyfi fyrir þeim vörum, sem þeir þurfa til útgerðarinnar, svo sem olíu, salti og kolum.

Ég vil þá að síðustu minna hv. þm. á það, að samþykkt þessarar till. og framkvæmd hennar gæti þýtt um 5 millj. kr. sparnað fyrir hinn íslenzka þjóðarbúskap og a. m. k. 1½ millj. kr. fyrir útgerðina, og það án þess, að þetta kosti ríkissjóð einn einasta eyri.

Ég vonast þess vegna til, að þessi till. verði rædd og athuguð ýtarlega, þar sem um hana er aðeins ein umr. Ég mun þó, ef till. kemur fram um það, vera því hlynntur, að málinu sé vísað til n., í trausti þess, að þm. rannsaki, hvaða afleiðingar það mundi hafa, ef þessum reglum, sem við stingum upp á, væri framfylgt, og þegar þeir hafa rannsakað það, taki afstöðu með till. og samþ. hana.