29.10.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2445)

19. mál, Bolungavíkurhöfn

*Emil Jónsson:

Ég get ekki látið þessa till. fara svo til 2. umr., að ég segi ekki nokkur orð um grg. hennar og framsöguræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann reynir í grg. að leiða rök að því, að óhöpp þau og misfellur, sem orðið hafa við byggingu hafnarmannvirkjanna í Bolungavík, hafi verið því að kenna, að hreppsbúar hafi orðið að hlíta forsjá vitamálaskrifstofunnar, og í framsöguræðu sinni sagði hv. þm., að hreppsbúar hefðu reynt að komast hjá þessari forsjá, en ekki tekizt það. Ég sé á fylgiskjali till., að útgjöldin hafa orðið mest á árunum 1935–1936, eða 200000 krónur. En það fé fór einvörðungu til þess að styrkja steinnökkvann, sem settur var niður á árinu 1927, þvert ofan í till. skrifstofunnar, sem hv. frsm. sagði, að hefði verið einvöld um allar framkvæmdirnar. En þar með er einnig að mestu leyti fallin sú ástæða hv. flm. fyrir því, að ríkissjóði beri einum að standa straum af fullkomnun hafnarmannvirkjanna.

Hv. flm. sagði ennfremur, að víkin hefði aldrei verið mæld. Þetta er ekki rétt. Það er til gömul mæling af víkinni. En fullkomna mælingu vantar. Þær mælingar, sem gerðar hafa verið, hafa þó verið næg undirstaða þess verks, sem unnið er. Og viðbótarmælingar þær, sem hv. þm. N.Ísf. hefir látið framkvæma þar í sumar, eru ágæf viðbót við þær, er fyrir voru.

Mér hefir þegar verið falið af atvinnumálaráðuneytinu að gera tillögur um hafnarbætur í Bolungavík, og mun það verða gert mjög bráðlega.