18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2475)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

*Finnur Jónsson:

Hv. þm. V.-Sk. hefir notað sér það, að ég var búinn að tala tvisvar, og rutt úr sér ásökunum um óskyld mál í því trausti, að mér ynnist ekki tími til að svara þeim öllum í einni aths. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í þann hluta af ræðu hv. þm., sem hann byggði á sögusögnum annara um mál, er hann sjálfur ber ekkert skynbragð á, — auk þess sem hann tekur sér í munn allar slúðursögur íhaldsblaðanna og færir þær til verri vegar.

Um síldarverksmiðjur ríkisins er það að segja. að ég hefi, ásamt meðstjórnendum mínum, orðið að standa á stöðugum verði um fjárhag þeirra fyrir sjálfstæðismönnum. Hv. þm. G.-K., form. Sjálfstfl., flutti till. árið 1936 um síldarverð, er hann krafðist, að síldarverksmiðjur ríkisins greiddu þá sjómönnum og útgerðarmönnum. Hann sagði, að þetta verð gæti verið allt að 8 krónum á mál. Hann stofnaði til síldarverkfalls og gerði allt, sem hann gat, til þess að koma þessum ríkisfyrirtækjum á kné með óhóflegum kröfum um síldarverð. Og nú kemur bændadeild Sjálfstfl. fram með till. um að skattleggja þessi fyrirtæki til hagsbóta bændum. Og þegar ég og meðstjórnendur mínir standa á móti þessum kröfum, er okkur borið á brýn, að við viljum eyðileggja fyrirtækið. Ég vil mótmæla því sem gersamlega tilhæfulausu, að við nokkurt það starf í verksmiðjunum, sem áður hafi unnið við þrír menn, vinni nú 15 manns. Mönnum hefir ekki verið fjölgað við ríkisverksmiðjurnar síðustu tvö árin umfram bað, sem nauðsynlegt er vegna aukinna afkasta þeirra. — Hv. þm. V.-Sk. sagði, að síldveiðarnar væru sá uppgripaatvinnuvegur, að hann ætti að geta staðið undir óþurrkahjálp til bænda. En veit hv. þm. ekki, að flest þau skip, sem stunduðu síldveiðarnar í sumar, hafa stundað þorskveiðar undanfarin ár. þegar þorskvertiðin hefir með öllu brugðizt? Sá gróði, sem fékkst á síldinni í sumar, fer víða til þess að borga töpin af þorskvertíðum undanfarinna ára.

Þegar svona tillögur koma fram, er full þörf á að benda á það, að þær eru eingöngu bornar fram í auglýsingaskyni. Við afgreiðslu þessarar till. verður það svo, að bændadeild Sjálfstfl. verður með henni. en sjávarútvegsdeildin á móti. Þetta er skrumauglýsing, en ekkert alvörumál.