23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

Sigurður Kristjánsson:

Þetta mál er ekki alveg nýtt hér á Alþingi, þar sem það hefir verið borið fram 4–5 sinnum af mér og fleirum, án þess að hljóta áheyrn stjórnarflokkanna, og þá sízt flm. frv. Hv. frsm., sagði, að ástæðan til frv. væri sú, að mörg undanfarin ár hefðu fiskveiðarnar verið reknar með tapi. Var svo að heyra, að hann hefði fyrst orðið þessa var nú, en mér og fleirum, sem haft hafa vilja á að kynna sér þessi mál, hefir skilizt þetta fyrir löngu. Okkur hefir skilizt, að útgerðin hafi verið rekin með tapi a. m. k. 7 undanfarin ár. Annars má segja, að batnandi manni sé bezt að lifa, og sízt ber að kvarta yfir því, að þetta skuli nú vera komið inn í höfuð hv. frsm., þótt leiðin hafi orðið löng og örðug. Annars er dálítið einkennilegt, hvernig þetta frv. ber að. Það eru 4 vikur síðan fyrir nefnd þú, sem hv. þm. Ísaf. er formaður í, kom frv. h. u. b. samhljóða þessu, sem hann hefði aðeins þurft að gjalda við jákvæði sitt, ef hann hefði þá haft þann skilning á sjávarútvegnum, sem hann segist nú vera búinn að öðlast. En það, hve hann og sumir aðrir hafa áttað sig á skömmum tíma, gerir það ólíklegt — ásamt ýmsu fleiru, að þetta frv. sé flutt vegna málefnisins sjálfs.

Ýmsar misfellur á frv. bera vott um það, að það sé borið fram í einhverju fáti. Fyrst er það, að frv. gerir ekki ráð fyrir, að útflutningsgjald falli niður af öðrum fiski en þeim, sem aflaður er í salt. En þá er ísfiskurinn allur eftir, og það er öllum kunnugt, sem til útgerðar þekkja, að síðastl. ár hefir orðið allverulegt tap á því að gera út skip á ísfisk. Auk þess stendur svo sérstaklega á með skattgreiðslu af þessum fiski, að hann kemur sjaldnast í íslenzka landhelgi áður en hann er seldur. En það virðist nokkuð hæpið að leggja útflutningsgjald á vöru, sem aldrei hefir komið til landsins. Og mér er óskiljanlegt, hvers vegna þessi fiskur á að vera réttminni en saltfiskur, nema ef það væri vegna þess, að arðvænlegri væri að veiða hann. En reynslan hefir sýnt, að svo er alls ekki. Ég hefi að vísu ekki gögn í höndum til að sanna þetta nú, en ég býst við, að flestir hafi lesið um sölur togaranna, þegar þeir hafa, eftir 3.–4. vikna útivist, selt afla sinn fyrir 690–700 £, þegar 1200–1400 £ hefir þurft til þess að útgerðin borgaði sig þennan tíma.

Munurinn á þessa frv. og frv. hv. þm. G.-K. og okkar fleiri er í raun og veru sá einn, að ekki á að undanskilja ísfiskinn samkv. þessu frv. Í okkar frv. voru aðeins undanskildar síldarafurðir, bein o. þ. h. Hefði því virzt langeðlilegast að láta það frv. ganga í gegn, ekki sízt vegna þess, að það kom svo snemma fram, að það var lagt fram 18. okt. og sent til nefndar þann 25. s. m.

Það þýðir ekkert að ætla að fara að rugla menn í því með þessu frv., að Sjálfstæðismenn hafa ávallt verið öruggustu stuðningsmenn sjávarútvegsins. Tilgangurinn með þessu frv. er því sá einn, að þreyta nú á síðustu stundu kapphlaup við sjálfstæðismenn. En klunnalega er þó á stað farið, þar sem þessum háu herrum hefir sézt yfir útflutningsgjaldið af ísfiskinum. — Ég geri ráð fyrir, að málið komi fyrir nefnd og sé því ekki ástæðu til að fara nánar út í það nú. Ég skal játa það, að ég tel þá, hugarfarsbreytingu til bóta, sem kemur fram í frv., enda þótt það gangi ekki nógu langt, þ. e. að létta útflutningsgjaldi af öllum fiski.