23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Thor Thors:

Hér mun vera á ferðinni eitt af málum þeim, sem innifalin eru í hinum nýja sáttmála stjórnarflokkanna. Og ekki er því að neita, að ýms af ákvæðum frv. horfa til bóta, enda eru tekin í það ýms þau atriði, sem sjálfstæðismenn hafa barizt fyrir á undanförnum árum. Hitt er einkennilegt, að það skuli vera haldið áfram að leggja þessi mál undir ákveðna nefnd, sem kunn er alþjóð af aðgerðum hennar undanfarið, fiskimálanefnd. Valdamesti maður þessarar nefndar hefir verið hv. 3. þm. Reykv., Héðinn Valdimarsson. Þessi nefnd hefir fengið til umráða, þann tíma sem hún hefir starfað, eina millj. kr., og ef litið er á þessa fjárfúlgu, þá munu flestir sammála um það, að hún hafi farið til lítils fyrir sjávarútveginn í landinu. Þessi nefnd hefir verið mjög dýr í rekstri. –Hv. þm. Ísaf. upplýsti það, að hún kostaði 60 þús. kr. árlega. Ég held, að lítil ástæða sé fyrir stjórn þá, er nú situr, að hrósa sér af þessari nefnd og gerðum hennar. Um rækjuverksmiðjuna á Ísafirði er það að segja, að það mál var komið á góðan rekspöl áður en fiskimálanefnd kom til. Það sanna er, að nokkrir sjálfstæðism. í Reykjavík höfðu þá þegar undirbúið þetta mál, en þeir fengu hv. þm. Ísaf. í lið með sér. En svo var þessu máli snúið svo, sem bæjarsjóður Ísafjarðar hefði beitt sér fyrir því.

Þá hælir fiskimálan. sér af að hafa beitt sér fyrir hraðfrystimálunum. En þau mál voru komin á rekspöl áður en n. kom til. Hún gerði það eitt, að lána nokkurt fé til að koma upp hraðfrystihúsum, og er það lofsvert út af fyrir sig, en það fé hefir þó verið tekið af sjávarútvegsmönnum sjálfum með ½% skattinum til fiskimálasjóðs.

Þá hafa verið talin þau bjargráð, er fiskimálan. hafi beitt sér fyrir um útflutning harðfiskjar. Þessi útflutningur var nú ekki meiri en það, að 1935 var fluttur út harðfiskur fyrir 117 þús. kr. og 1936 fyrir 315 þús. kr. Geta það varla talizt mikil bjargráð, þó að þetta hafi verið flutt út.

Þá eru karfaveiðarnar. Í skýrslu, sem komið hefir frá n., er sagt, að n. hafi lagt fram 5600 kr. til að styrkja karfaveiðar. Þetta getur því ekki hafa valdið þeim karfaveiðum og útflutningi, sent átt hefir sér stað í ár, heldur hitt, að á Patreksfirði var stofnuð ný og fullkomin karfaveriesmiðja og að þaðan stunda nú tveir togarar karfaveiðar allt árið. En það voru einstaklingar, sem stóðu fyrir þessum framkvæmdum, og útflutningsmagnið kemur að mestu leyti frá þessari einu stöð.

Þessi n. hefir sætt mikilli gagnrýni af hálfu útvegsmanna. Ég minni á, að á aðalfundi sölusambandsins í apríl 1936 var samþ. með nær öllum atkv. ályktun þess efnis, að n. hefði verið til óþurftar og að því beri að leggja hana niður. Innan stjórnarflokkanna voru líka uppi margar raddir um það, að n. bæri að hætta störfum. En hinir síðustu samningar þeirra virðast hafa gert breytingu á þessu, og virðist nú eiga að endurreisa n. Það á að veita henni fé með ½% útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Í dag var um það talað hér, að nú ætti að létta útflutningsgjaldinu af saltfiskinum, en þó á auðsjáanlega enn að halda í þetta ½% gjald. Auk þess á að greiða til n. 400 þús. kr. árlega úr ríkissjóði.

Eftir frv. að dæma, virðist svo sem n. eigi að verða nokkurskonar banki fyrir sjávarútveginn. Um það verkefni, sem n. er ætlað að leysa af hendi, er margt gott að segja, eins og það, að koma á fót niðursuðuverksmiðjum og styrkja slík fyrirtæki. Slíka starfsemi höfum við sjálfstæðismenn alltaf viljað styrkja. Er viðurkennd af öllum flekkum nauðsyn á slíku. Við sjálfstæðismenn erum því mótfallnir, að fiskimálan. hafi þetta með höndum, eða ráði því, hverjir takist slíkt á hendur. Ég minni á, að á aðalfundi sölusambandsins í haust var samþ. með öllum atkv., að sölusambandið skyldi beita sér fyrir því að koma upp niðursuðuverksmiðju, og var stjórn semlagsins heimilað að taka að láni varasjóð þess, sem mun vera 90 þús. kr., til að standast verksmiðjubygginguna í byrjun. Í tilefni af þessu hefir samlagið skrifað Alþingi bréf, þar sem sótt er um styrk til þessa fyrirtækis. Er bréf þetta undirritað af allri stjórninni, þ. á. m. Magnúsi Sigurðssyni bankastjóra Landsbankans, Helga Guðmundssyni bankastjóra Útvegsbankans, Jóni Árnasyni forstjóra S. Í. S. og Jónasi Guðmundssyni flokksbróður hv. þm. Ísaf. Er í ráði að festa sérstakan kunnáttumann til að leiðbeina félaginu í þessum málum.

Í 1. lið 5. gr. frv. er talað um það, að ríkisstj. skuli heimilt að veita styrk úr fiskimálasjóði til að styrkja niðursuðuverksmiðjur eða koma á fót slíkum verksmiðjum. Ég hefði talið heppilegra að takmarka þetta við fyrirtæki af þessu tægi, sem þegar eru til, og svo það fyrirtæki, sem sjávarútvegsmenn ætla nú að koma á fót og standa straum af að miklu leyti.

Um það, sem 2. gr. fjallar um, að beita sér fyrir kaupum á hraðfrystitækjum og stofnun

hraðfrystihúsa, er gott eitt að segja, og munu allir vera þeim atriðum sammála.

Þá er 3. gr. Þar segir svo: „Að styrkja félög sjómanna, verkamanna og annara til að kaupa í tilraunaskyni togara með nýtízku vinnslutækjum, og má styrkur nema allt að 25% — tuttugu og fimm af hundraði — af kostnaðarverði, enda leggi eigendur fram 15–20% — fimmtán til tuttugu af hundraði — af verðinu“.

Þessi krafa um byggingu nýtízku togara er gamall kunningi. Menn muna, að Alþfl. heimtaði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1934 10 nýtízku togara og lofaði, að þeir skyldu koma, ef hann fengi meiri hluta. Það tókst þó svo vel til þá, að völd hans voru hindruð. En þótt aukning fiskiflotans sé mikið hugðarefni okkar allra, má þó ljóst vera, hversu dýr fyrirtæki þessir 10 nýtízku togarar hefðu orðið á þessum árum. Allir vita, að hver einasti togari hér á landi hefir verið rekinn með tapi þessi síðustu ár.

Það næsta, sem heyrzt hefir í þessu togaramáli, var það, að í apríl síðastl. var borið fram frv. um byggingu 6 togara. Hæstv. atvmrh. lýsti þá yfir því, að þetta frv. væri svo mikils vert fyrir Alþfl., að hann gæti ekki látið sér nægja minna en allt það, sem þar var farið fram á. Að öðrum kosti væri samvinnunni við Framsókn slitið. Síðan fóru fram kosningar með þeim árangri, sem okkur er kunnur. Hæstv. þáv. atvmrh. er enn í ráðherrastöðu, en er nú orðinn svo lítilþægur, að hann lætur sér nægja 2 togara. Má ræða það nánar seinna, hvernig Alþfl. hefir í seinni tíð lagt stund á að semja sig frá sínum fyrri hugsjónum.

En svo að aftur sé vikið að frv. því, sem hér liggur fyrir, þá kemur ekki fram í því hvernig rekstri þessara togara eigi að vera háttað. Á að reka þá með samvinnusniði, eftir stefnu Framsfl., eða á þetta að vera bæjarrekstur, eias og Alþfl. hefir barizt fyrir. Þetta var eitt af hinum miklu ágreiningsatriðum milli stjórnarflokkanna, og væri gaman að fá það upplýst, hvort hafi orðið ofan á.

Annars er ekki ljóst eftir frv., hve marga togara á að byggja, en hv. þm. Ísaf. telur þá eiga að vera 2. Hann taldi kostnaðinn mundu verða um 1½ millj. kr., og mun það láta nærri. Ég hefi talið, að hvort skip myndi kosta um 700 þús. kr. Styrkurinn til hvors skips yrði 175 þús. kr., eða alls 350 þús. kr., og yrði þá lítið eftir af tekjum fiskimálasjóðs, þar sem allar tekjur hans eru um ½ millj. kr.

Það væri æskilegt, út af fyrir sig, að fjölga veiðiskipunum, en undanfarið hafa flestir einstaklingar í þjóðfélaginu verið þess ómegnugir, en hinir, sem átt hafa fé í sjóði, hafa ekki viljað leggja það í slík fyrirtæki, þar sem tjón hefir orðið á útgerðinni. — Nú er sýnilegt, að ekkert verður úr þessari togarabyggingu, nema hér komi framlög á móti. Þau eiga að vera 105–145 þús. kr. Hverjir eru það í þessu þjóðfélagi, sem geta lagt fram þetta fé eða vilja leggja það fram? Ég hefi ekki trú á því, að hinir ríku menn Alþýðuflokksins fari að taka fé úr sparisjóðsbókum sínum til að leggja það hér fram. Og það mun leitun á þeim sjómönnum eða verkamönnum, sem undanfarin kreppuár hafa safnað svo í kornhlöður, að þeir geti lagt þetta fram.

Mér fannst hv. þm. Ísaf. gera sér vonir um, að þetta gæti. gengið nokkuð fljótt fyrir sig. Það er auðvitað hægt að kaupa 2 togara á skömmum tíma, en hann talaði um, að það ætti að byggja þá að nýju. Hann ætti þó að vita, að erfitt er að fá skip byggð um þessar mundir, því að skipasmíðastöðvar hafa yfirleitt lofað vinnu sinni langt fram í tímann, og verðið á skipum er auk þess mjög hátt, vegna vígbúnaðarins í heiminum. Það er líka atriði, sem líta ber á, hvenær ráðast eigi í að láta byggja ný skip. Á að gera það meðan verðið er hæst, eða bíða heldur og sjá, hvort verðið lækkar ekki? En ef byggja ætti tvö ný skip, gæti orðið nokkur frestur á því. Í fyrsta lagi er ekki víst, að það tækist fljótlega að fá samninga við skipasmiðastöðvar, og í öðru lagi tekur það langan tíma að smíða skip. Er mikill vafi á því, að þessi skip yrðu til á næsta ári.

Annars er þetta tal um nýtízku togara meira en lítið hlægilegt, því að þótt nokkrar framfarir hafi orðið á þessu sviði, hefir þar þó ekki farið fram nein bylting, svo að hægt sé að tala um gamla togara sem ónýta. Ef togarinn Jón forseti, sem smíðaður var í Englandi 1907, fyrstur íslenzkra togara, kæmi nýsmíðaður hingað nú, gæti hann talizt gott skip.

Annars væri æskilegt að fá að vita, hvernig rekstri þessa fyrirtækis á að vera háttað. Það er vitað, að á undanförnum árum hafa verið miklir erfiðleikar á togaraútgerðinni, og eru til þess þrjár ástæður: Í fyrsta lagi það, hvernig ríkisvaldið hefir búið að þessari atvinnugrein. Eru sífelldir skattar á hana lagðir, og nú, þegar sósíalistar segjast ætla að aflétta útflutningsgjaldi af saltfiski, á samtímis að leggja á nýja tolla, sem bitna hart á útvegi landsmanna. Í öðru lagi eru þær kröfur, sem verkalýðsfélögin hafa gert til útvegsins og orsakað hafa það, hvernig komið er. Í þriðja lagi er svo hinn hrörnandi saltfisksmarkaður, sem veldur því, að einstaklingar vilja nú ekki leggja fé sitt í útgerð. Það er að vísu gott og blessað að lofa 2 togurum, en það væri betra, ef ríkisvaldið vildi létta byrðunum af útveginum. Eins er gott eitt um það að segja, að vilja efla sérstakan sjóð til að styrkja útgerðina, hvort sem það er fiskimálasjóður eða einhver annar. Slíkur sjóður má gjarnan vera í höndum atvmrh., og má hann hafa íhlutun um það, hverjir njóta lána úr honum. En hitt er ófært, að fiskimálan., sem hefir ekkert samband við framleiðendur, hafi þetta mikla vald. Ábyrgðin á úthlutun fjárins má vera í höndum atvmrh., en það á að renna beint til framleiðenda. Þar er fiskimálan. óþarfur milliliður. Upphaflega mun ekki hafa verið ætlazt til, að n. þessi væri atvinnurekandi eða útflytjandi í þessu þjóðfélagi. Þetta hefir þó orðið. N. hefir látið meira til sín taka um útflutning en ráð var fyrir gert.

En ég hygg, að allar nýjungar séu ekki betur settar í höndum neinna annara en þeirra, sem sjálfir eiga sína framtíð undir því, hvernig tekst um framkvæmdir.

Ég vænti þess, að við athugun í n. sé þetta frv. þannig sniðið, að það sé betur tryggt en enn er samkv. orðalagi frv., að ríkisvaldið og framleiðendur hinsvegar séu aðalaðiljar málsins.