15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvmrh. hefir tekið fram mest af því, sem ég vildi minnast á. Þó vil ég enn taka fram nokkur atriði. Hv. þm. Vestm. blandaði saman tveim atriðum, sem hvort er síns eðlis. Annað er tilraunastarfsemin um það að breyta til um atvinnuvegina, en hitt, hvernig hjálpa eigi þeim, sem standa sérstaklega að þorskveiðum, selja saltan og hertan þorsk. Þessi tvö atriði eru ekki sama eðlis. Þess má þó geta, að tilraunir þær, sem hið opinbera hefir gert fyrir atbeina fiskimálan. og með öðrum hætti, voru upp teknar af því, að sýnilegt var, hve erfiðlega gekk fyrir sjávarútveginum. Hv. þm. getur ekki neitað, að það hafa verið teknir upp nýir hættir um verkun fiskjar, og sumt í nokkuð stórum stíl. Hv. þm. Vestm. veit það bezt, að ein af þessum ráðstöfunum var að rýmka um dragnótaveiðina, sem hann manna bezt barðist fyrir. En í sambandi við það var óhjákvæmilegt, að til væru frystihús, sem tækju á móti þessum afla og byggju um hann, svo að hann væri seljanlegur á erlendum markaði. Þetta hefir verið gert. Það er í rauninni enn á tilraunastigi, en ég verð að segja það, að þessar tilraunir eru svo líklegar til gagns í framtíðinni, að ég álít sjálfsagt að halda þeim áfram.

Hv. þm. Vestm. minntist á, að þetta hefði verið gert í gegnum rándýra nefnd. Þeim er ekki vel við fiskimálanefnd, sjálfstæðismönnunum. Ég ætla þó, að þeirra menn starfi í þessari n. og hafi sín áhrif á ákvarðanir hennar, svo að þeir eru alls ekki afskiptir um það, hvað þar fer fram, þó að þeir séu á móti þeim framlögum, sem veitt eru til n. og vildu kannske, að hún væri ekki til. En þeir starfa þarna og hafa þar sín áhrif, og ég hefi ekki heyrt getið um það, að sjálfstæðismenn í n. hafi neina sérstöðu þar. Hefði verið í það vitnað, ef svo væri.

Hv. þm. Vestm. sagði, að úthlutun þessa fjár hefði eins getað farið fram í gegnum ráðuneytið eins og að hafa þessa n. til að ráðstafa því. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að það hefði verið rétt að hafa það þannig, og ég álít, að það séu komin fram rök fyrir því, að þetta hefði ekki verið rétt. Þá álítur vitanlega hv. þm., að þessu fé hefði átt að úthluta eins og vant er að úthluta fé úr einhverjum sjóði, og að umsóknir manna hefðu verið teknar til greina og fénu hent sitt á hvað til þeirra, sem sóttu, útgerðarmann sjálfra, og ekkert eftirlit haft með því, hvernig það væri notað. En það er munur á þessari aðferð og þeirri aðferð, sem fiskimálan. hefir haft. Hún hefir fylgzt með þeim nýjungum, sem gerðar hafa verið, og kynnt sér rækilega þær stofnanir, sem hún hefir styrkt. Og frumkvæðið að því, að reynt yrði að koma á fót niðursuðuverksmiðju, kom frá fiskimálánefnd. Hún hefir meira að segja orðið að fara út fyrir þann venjulega útgerðarmannahóp, til þess að fá menn til að taka upp eins einfaldan hlut og herðing fiskjar, til þess að létta á saltfisksmarkaðinum. Þegar um þetta var að ræða, fengust útgerðarmennirnir ekki til að gera það, sem að áliti hv. þm. Vestm. áttu að fá styrkinn. Og það var annað og meira en að það þyrfti að fá staurana og flytja þá til landsins; það varð að fara út fyrir hóp þeirra venjulegu útgerðarmanna, sem þykjast hafa í kollinum allt það vit, sem til er um útgerðarmál, og finna menn, sem vildu taka að sér að hafa framkvæmd í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að herðing fiskjar hefir verið til frá aldaöðli hér á landi. Skreið var um tíma aðalgjaldeyrir landsmanna, sem út var fluttur. Og meginhlutinn af þeim fiski, sem landsmenn hafa borðað fram á þennan tíma, hefir verið hertur eða siginn. Það er eins og þessir nýtízku útgerðarmenn viti það ekki og séu ófáanlegir til að herða fisk.

Fiskimálanefnd hefir unnið að því að koma á karfaveiðum. Útgerðarmenn gáfu fyrirskipun um, að þessum fiski skyldi hent. Og það var ekki fyrr en fiskimálanefnd beinlínis keypti þá til að hirða þennan fisk, að þeir tóku það upp. Það var langt stímabrak við að fá þá til að setja út botnvörpu á karfamiðum.

Það geta vitanlega verið áraskipti að því, hvað veiðist af karfanum, en mér er sagt, að stofninn sé mjög sterkur og mikið til af honum, og hefir einn af okkar kunnugustu mönnum í þessum greinum skýrt svo frá.

Þetta hefði verið um megn fyrir ráðuneytið að hafa með höndum og engin regla verið um framkvæmd þessara mála. Það gæti vel hafa setið allt í sama horfinu, þrátt fyrir styrkveitingarnar. Venjulegir útgerðarmenn hafa ekki haft annað fyrir augum en að veiða þorsk, til þess að salta og þurrka á þann venjulega hátt, sem tíðkazt hefir undanfarið.

Hv. þm. sagði það réttilega, að útgerðin væri illa stödd. En eftir þeim gögnum að dæma, sem útgerðarmenn hafa lagt fram um hag útgerðarinnar, virðist líta svo út, að það sé óhugsandi, að nokkur útgerð geti orðið frá Íslandi næstu ár, a. m. k. ekki til að veiða fisk í salt, svo gífurlegt er tapið, ef það á að vera 4 millj. á togarana, og ég man ekki hvað margar millj. á vélbátana. Og hver mundi treystast til að leggja fé til þess? Ég held, sem betur fer, að þeir hafi málað með þeim dekkstu litum, sem þeir hafa fundið. Það er frekar hægt að selja fisk nú. Það er ekki heldur rétt að taka út úr verstu aflaárin síðustu 10–15 ár. Það á að taka meðaltal af einhverjum vissum árafjölda og láta þar vera í bæði góð og vond ár. Á annan hátt er ekki hægt að reikna þetta.

Hæstv. ráðh. svaraði þeim atriðum í ræðu hv. þm., þar sem hann talaði um það, hversu mikið skarð það væri í fé fiskimálasjóðs, að leggja í að kaupa togara, og hann hefir sýnt fram á, að það er ekki eins mikið og hv. þm. vildi vera láta.

Ég skal að lokum geta þess, að það er náttúrlega ekki rétt, að það hafi ekkert verið gert fyrir útveginn. Fyrir ráðstafanir Alþingis hefir verið velt millj. skuldum af bátaútvegnum, með framlögum úr ríkissjóði eða lántökum ríkissjóðs. Millj. kr. af skuldum útgerðarmanna hafa verið strikaðar út, bæði hjá bönkunum og öðrum, og mun þetta hafa komið að verulegu haldi, einkanlega hjá þeim, sem voru heppnir á síðustu síldarvertíð. En það er rétt, að það hefir ekki verið veitt fé til stærri útgerðarinnar, vegna þess að þar er um þær gífurlegu fjárhæðir að ræða, að mönnum hefir hrosið hugur við þeim kröfum; sem útgerðarmenn hafa gert. Og í sjálfu sér er það alveg gagnslaust að efla fiskveiðasjóð, ef flotinn er í því ástandi, sem hv. þm. vildi vera láta í sinni ræðu.

Ég vil svo að lokum geta þess, að ég tel það eina þá merkilegustu nýjung í þessu frv., að gera þessa tilraun með togarana. En af því að hæstv. ráðh. hefir fært fyrir því svo skýr og mikil rök, læt ég mér nægja að vísa til þess, sem hann hefir sagt. Ég mun greiða atkv. á móti þessari till., og ég tel það illa farið, að hv. þm. Vestm. skuli vera þess sinnis, að vilja fella svo merkilegan lið niður úr þessu frv. og ekki styðja að því, að þær tilraunir geti farið fram, sem ætlazt er til með frv.