11.12.1937
Neðri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

13. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen) :

Landbn. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með tveimur breyt., sem eru tvær nýjar gr., er bæta skal í frv., eins og nál. 298 ber með sér, og miðar fyrri gr. að því að veita landbrh. heimild til að veita undanþágu frá l. þegar brýn nauðsyn ber til. Þessi undanþága er miðuð við það ástand, sem nú er á fjársýkissvæðinu, er gæti orðið þess valdandi, að böðun hefði hættu í för með sér. Í gildandi l. er engin slík undanþáguheimild til, og þess vegna er sjálfsagt, er breyta á l., að taka slíka heimild inn í þau, svo ekki þurfi að fella niður böðun þvert ofan í lagáákvæði. Hin gr., sem meiri hl. vill bæta í frv., er um það, að l. öðlist þegar gildi. Meiri hl. landbn. hefir borið sig saman við fim. frv. í hv. Ed. og er vitað, að þeir fallast á þær fyrir sitt leyti. Annars vil ég segja það, að eins og gengið er frá frv. eru teknar upp í það allar öryggisráðstafanir, sem nauðsynlegar eru gagnvart sauðfjárböðunum, hvort sem. um er að ræða þrifabaðanir eða útrýmingarbaðanir. Það eru tekin upp í frv. ákvæði um eftirlit með böðun á hverjum stað, og svo vel frá því gengið sem kostur er á. Ennfremur er það tryggt, að sæmileg aðstaða sé þar, sem böðunin fer fram, bæði um sundker og önnur nauðsynleg skilyrði. Eftir samþykkt þessa frv. eru gildandi l. um þetta efni vitanlega óþörf, þar sem þetta frv., hefir inni að halda öll nauðsynleg varúðar- og öryggisákvæði í svokölluðum l. um útrýmingu fjárkláða. Þess vegna vil ég vænta þess, að gott samkomulag geti orðið um að samþ. þessa löggjöf, sem áreiðanlega er svo vönduð að frágangi sem kostur er á.