17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1938

Sigurður E. Hlíðar:

Á þskj. 427 flyt ég tvær smávægilegar brtt., sem ég vildi leyfa mér að fara örfáum orðum um.

Það er þá fyrst till. til breyt. við 14. gr. B. XVIII, 4, um sundkennslu o. fl. Þann lið hafði fjvn. hækkað úr 5 þús. kr. upp í 10 þús. kr., án þess að séð verði, til hvers það ætti sérstaklega að notast. En fyrir n. lá beiðni frá Akureyrarkaupstað um 5 þús. kr. til sundlaugarinnar þar, sem ekki hefir fundið náð fyrir augum n. Þess vegna datt mér í hug, að kannske væri hægt að rétta mál mitt með því að fara fram á það, að 5 þús. kr. af þessum 10 þús. kr., sem áætlaðar eru til sundlauga, mætti verja til sundlaugarinnar á Akureyri. Brtt. hljóðar því svo, að aftan við liðinn komi aths.: „Þar af til sundlaugarinnar á Akureyri 5 þús. kr.,“ M. ö. o., þetta raskar ekki neitt niðurstöðutölu n., og er því ekki hægt að segja, að fram á mikið sé farið. Eins og mörgum hv. þm. mun vera kunnugt, þá er sundlaug á Akureyri, sem nú er fullger og talin er bezta sundlaug á landinu. Hún hefir nú kostað um 100 þús. kr., og á síðasta ári voru lagðar fram 20 þús. kr. til endurbóta á henni, steypa botninn og nýja rás og gera við hitaveituna. Og var það sérstaklega með tilliti til þess, að Akureyringar þóttust hafa hálfgert loforð frá Alþ. um að fá 5 þús. kr. styrk á þessu ári til laugarinnar, að ráðizt var í þessa endurbót einmitt á síðasta ári, en upp í stofnkostnaðinn, tæpar 100 þús. kr., hafa Akureyringar aðeins fengið 10 þús. kr. Nú hefir mér verið sagt af mönnum, sem standa nærri fjvn., að hún hafi undanfarin ár verið að hugsa um að veita lauginni 30 þús. kr. styrk, sem skipt væri niður á 6 ár, og svo ekki meira. Það er því ekki freklega til mælzt með minni brtt., þar sem hún fer ekki fram á neina röskun á fjárhagsáætluninni, heldur aðeins að mega nota 5 þús. kr. af þessum 10 þús. kr., sem ætlaðar eru til sundlauga.

Þá er hin brtt. mín við 14. gr. B. XXI. um að þær 600 kr., sem ætlaðar eru til Geirs Þormars, verði hækkaðar upp í 900 kr. Þetta er eina fjárhækkunin, sem ég fer fram á. Geir Þormar hefir undanfarið haft 600 kr. styrk úr ríkissjóði til þess að halda uppi námskeiðum í tréskurði. Hann er bláfátækur barnamaður og hefir ekkert annað fast heldur en þetta, auk þess sem hann smíðar dálítið, en markaðurinn er nú takmarkaður á Akureyri, svo að ég veit, að hans afkoma er mjög léleg. En þó er það eitt sérstaklega, sem mælir með þessari brtt. minni, sem sé það, að öðrum manni á fjárl., Guðmundi Mosdal á Ísafirði, sem hefir samskonar menntun og svipaða aðstöðu, en þó það betri, að hann hefir fastakennslu við skóla á Ísafirði, er ætlaður 900 kr. styrkur. — Mér finnst því öll sanngirni mæla með þessari brtt. minni og vonast því til, að fjvn. sjái sér fært að mæla með henni.

Ég þarf svo ekki að orðlengja frekar um þessar brtt. mínar, en ég vona, að þær nái fram að ganga, þar sem þær raska ekki niðurstöðu fjárl. að neinu verulegu leyti, eða aðeins um einar 300 kr.