08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Nefndin hefir orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég skal þó geta þess, að einn nm., hv. þm. Borgf., var ekki á fundi, þegar málið var afgr., og að hv. þm. A.-Húnv. áskildi sér rétt til að bera fram brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. En hann var samþykkur frv. í aðalatriðum.

Ég skal ekki fara út í að skýra efni frv. Það var flutt hér á þinginu í fyrra, en dagaði þá uppi. Nú er það flutt óbreytt að öðru leyti en því, að í þessu frv. er ríkisstj. heimilað að veita byggingarstyrk til þurrmjólkurvinnslustöðvar eftir sömu reglum og gilda á hverjum tíma um styrk til mjólkurbúa. Þetta ætti að vera til þess að örva menn til að byggja mjólkurvinnslustöðvar og að hægt yrði sem fyrst að fara að nota mikla mjólk til þessarar framleiðslu. Ég gat þess við umr. um mjólkurlögin í gær, að það liti nokkuð öðruvísi út fyrir okkur alþýðuflokksmönnum að leyfa ótakmarkað verðjöfnunargjald, þegar tryggt væri, að þetta frv. yrði samþ., heldur en ef það yrði ekki samþ.

Því að nú skapast með þurrmjólkurvinnslunni möguleikar til að notfæra sér vel þann hluta mjólkurinnar, sem lítið hefir fengizt fyrir áður, — undanrennuna, sem mikið af verðjöfnunargjaldinu hefir gengið til að verðuppbæta. Og við hagnað framleiðenda bætist aukin hollusta í fæði manna í kaupstöðunum, þar sem þeir fengju úr þurrkaðri undanrennunni einmitt ýmis nauðsynleg steinefni og næringarefni. Og með því væri mjög mikið unnið.

Til hv. þdm. hefir verið útbýtt frv. og grg. frá því í fyrra, þar sem sýnt er hversu mikils má af þessari framleiðslu vænta. — Þar sem n. hefir orðið sammála um frv., vona ég, að hv. deild veiti því skjóta og góða afgreiðslu.