16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

*Jón Baldvinsson:

Það má vera, að hæstv. ráðh. hafi rétt fyrir sér í því, að þótt till. mín yrði samþ., mætti smátt og smátt tína til allar tegundir brauða, sem seldar eru í brauðgerðarhúsum, og láta heimildina ná yfir þær. Það má vera, að þetta verði gert, þegar einhver reynsla er fengin. En mál þetta er á tilraunastigi enn sem komið er, og jafnvel eftir að lögin ganga í gildi. Fyrst verður að fá reynslu af því, hvernig tekst með framleiðslu þurrmjólkurinnar hér og að hve miklu leyti er hægt að blanda henni í brauð. Ég vil leggja áherzlu á, að kostnaðurinn við þessar tilraunir fari ekki fram úr hófi, svo að brauðverðið þurfi ekki að hækka. Mér þætti því heppilegast, að stj. notaði fyrst aðeins nokkurn hluta heimildarinnar, sem henni er gefin með frv. Við að nota þurrmjólk í brauð yrði auðvitað dregið úr nýmjólkurnotkuninni í brauðið. Er þá óvíst, hver hagnaður mjólkurseljendum yrði að þessari breytingu, ef sú yrði útkoman, að ekki yrði notað meira mjólkurmagn í brauð en áður. Sífellt er verið að kvarta yfir því, að ekki sé hægt að koma út öllum mjólkurafurðunum, og þó er nú ástandið svo hér í bænum, að ekkert smjör er fáanlegt og orðið hefir að hætta við að blanda smjörlíkið smjöri, eins og lög mæla fyrir. Ég minnist á þetta í sambandi við það, að ég álít rétt að fara varlega í sakirnar með þá heimild, sem hér á að veita hæstv. ráðh.