18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1938

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti ! Ég vildi gera smávegis athugasemd við brtt. á þskj. 422. Þar er farið fram á að hækka á 13. gr. b. 2. úr 76 þús. kr. upp í 80 þús. kr. — Hv. frsm. n. skýrði þessa hækkun á þá leið, að þarna ætti að veita 3000 kr. til flóabáts á Skagafirði. Er ætlazt til, að sá bátur taki nokkurn hluta af þeim ferðum, . sem Norðurlandsbáturinn hefir haft undanfarin ár. En Norðurlandsbáturinn hefir gengið milli Selvíkur í Skaga og til Skála á Langanesi. Undanfarin ár hefir hann haft til þess 13 þús. kr. styrk. En félagið, sem heldur bátnum úti, hefir borið sig upp undan því, að fjárhagur þess væri svo lélegur, að það sæi sér ekki fært að halda ferðunum áfram með sama styrk. Samvinnunefnd samgöngumálanna hefir litið svo á, að með því að taka Skagafjörð undan sé félagið vel haldið með sínar 13 þús. kr., og það þótt „rútan“ sé um leið lengd til Seyðisfjarðar. Nú virðist mér það liggja í augum uppi, að það er ekki létt á félaginu með því að losa það við ferðirnar milli Siglufjarðar og Selvíkur og taka svo kaflann frá Skálum á Langanesi til Seyðisfjarðar í staðinn. Ég get ekki unað við þessa afgreiðslu málsins og mun flytja brtt. þar að lútandi.

Þá vil ég minnast á brtt., sem ég á á þskj. 428, um styrk til Leikfélags Akureyrar. Leikfélagið sótti um 3000 kr. styrk, en umsókn þess hefir ekki fundið náð fyrir augum hv. fjvn. Ég hefi leyft mér að leggja til, að styrkurinn til leikfélagsins verði hækkaður upp í 1500 kr. Leikfélag Akureyrar er gömul stofnun, hefir starfað yfir 20 ár, og hefir notið 500–1000 kr. styrks frá Alþ. árlega. En starfsemin er alltaf rekin með halla. Samt hefir leikfélagið viðað að sér góðum kröftum og tekið sér erfið viðfangsefni. Mér finnst till mín um styrk til félagsins sanngjörn, ef athugað er til samanburðar, að Leikfélag Reykjavíkur fær alltaf ríflegan styrk.

Á sama þskj. hefi ég borið fram brtt. um að hækka styrk til Braga Steingrímssonar dýralæknis upp í 2400 kr. Bragi Steingrímsson er ágætur dýralæknir með próf frá Hannover, og er hann eini lærði dýralæknirinn hér á landi, sem ekki hefir fasta stöðu, og á hann því skiljanlega erfiðara með að hafa ofan af fyrir sér. Tvö undanfarin ár hefir hann fengið leyfi til að skoða kjöt á Blönduósi, en nú hefir honum verið tilkynnt, að fyrir það verði tekið. Mér finnst því ekki hægt að skoða það sem neina ósanngirni, þó að farið sé fram á 2400 kr. styrk til hans.

Á sama þskj. flyt ég brtt. merkta XXXIII, um að greiða Steingrími Jónssyni, fyrrv. bæjarfógeta á 4kureyri, 6000 kr. uppbót á skrifstofukostnaði. Tilmæli um þetta sama hafa áður verið borin fram hér á Alþ., en ekki sinnt. Hafa þó verið lögð fram full skilríki fyrir því, að Steingrímur Jónsson hefir orðið að leggja fram úr eigin vasa stórfé til skrifstofuhalds, og er það því fyllsta sanngirniskrafa, að honum verði endurgreiddur nokkur hluti þess.

Þá á ég brtt. við 15. gr., og er hún um styrk til Jóns Norðfjörðs leikara upp í námskostnað hans erlendis, 700 kr. Jón Norðfjörð er landskunnur sem efnilegur leikari, og stundaði hann nám í fyrra á konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn og einnig í Svíþjóð, og fékk ágæt meðmæli frá kennurum sínum. Leiknámið stundaði Jón Norðfjörð í 10 mánuði og hafði til þess dálítinn styrk frá forsætisráðherra Dana. og mun hann einnig hafa farið með hálfgerð loforð frá flokksmönnum sínum hér, jafnaðarmönnum, um að þeir útveguðu honum þingstyrk. Ég vona því, að vel verði tekið undir þetta hér. Það er í raun og veru eðlilegra, að hann fengi einhverja úrlausn, þar sem hann hefir lokið þessu námi með ágætis meðmælum frá þeim, sem honum hafa kennt, heldur en þó tekin væri upp ný fjárbeiðni til manna, sem vilja leggja af stað í slíka leiðangra.

Að síðustu vil ég leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir, að hún hefir séð sér fært að taka upp ábyrgð fyrir Akureyrarkaupstað vegna tunnusmíði. Þessi ábyrgðarheimild hefir verið í fjárl. undanfarið, og þó að Akureyri þurfi ekki á þessari ábyrgð að halda sem stendur, þá óskar bærinn eftir því að geta haft hana ef nauðsyn krefur. Vegna þess að tunnusmíðin er stórfelld atvinnubótavinna og framleiðsla, sem ekki má trufla undir neinum kringumstæðum, þá óskaði ég eftir því og færði það í tal við hæstv. fjmrh., hvort ekki væri hægt að taka upp þessa heimild, og ég sé hér á þskj. 437, að hv. fjvn. hefir orðið við þessum tilmælum, og er ég henni mjög þakklátur fyrir.