09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Emil Jónsson:

Ég hafði ekki hugsað mér að lengja umr. Ég er að vísu meðflm. að brtt. meiri hl. landbn. og fylgi þeim því vitanlega. En það er búið að gera svo rækilega grein fyrir þeim, að ég tel míg ekki þurfa neinu við að bæta. Sömuleiðis hefir málið verið rætt á við og dreif, eins og þörf gerist. En hv. 2. þm. Reykvíkinga gaf mér tilefni til andsvara, þegar hann lýsti eftir því, hvort nokkur Alþýðuflokksmaður tæki til máls um þetta. Við 2. umr. lýsti ég nákvæmlega afstöðu minni til málsins, og hefði hv. þm. vel mátt heyra það. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. En ég skal minnast á aðalatriðin og sérstaklega þau, sem snerta mjólkurverð.

Það er sá höfuðmunur á því að samþ. ótakmarkað verðjöfnunargjald nú, hjá því sem var á síðasta þingi, að nú er með sérstökum ráðstöfunum skapaður möguleiki til þess að auka markaðsmöguleikana stórkostlega — með stofnun mjólkurvinnslustöðva og vinnslu þurrmjólkur. Bæði aukin nýting á næringarefnum undanrennunnar og sá léttir, sem þetta getur skapað á markaðinum fyrir mjólkurvörur, ættu að leiða til þess, að hægt verði að miðla meiri verðuppbótum heldur en hægt var áður.

En um mjólkurverðið má annars segja, að mjólkurskipulagið hefir einmitt orðið til þess, að hægt var að lækka taxta útsöluverðsins, lækka dreifingarkostnaðinn, afnema milliliða gróða, hækka verð til framleiðenda, og það, sem líka er peningavirði: bæta vörugæðin með fullkominni gerilsneyðing og heilbrigðiseftirliti. — Ég tel þess vegna mjólkurskipulagið fela í sér þá beztu möguleika, sem fyrir hendi eru, til þess að ná lágu vöruverði án þess að lækka verð til framleiðenda. Hagnaðurinn næst með því fyrst og fremst að lækka dreifingarkostnaðinn. Ég get vel skilið, að hv. 2. þm. Reykv. taki það sárt, að sá skattur lækki, sem fer til dreifingar og milliliða. Sá skattur rann í vasa hans umbjóðenda og skjólstæðinga. Honum svíður það, að Mjólkurfélag Reykjavíkur getur ekki haft sama arð af mjólkinni og áður og ýmsir í skjóli þess. En það fer ákaflega illa í munni þessa hv. þm. að hallmæla öðrum fyrir að lækka ekki mjólkina. Það er játað, að verðinu var einmitt haldið uppi af honum og hans skjólstæðingum, sem þurftu að græða á því. Og manni verður að spyrja: Hvenær hefir hann og flokkur hans yfirleitt beitt sér fyrir að lækka vöruverð? Hvenær hefir þeim flokki eiginlega skilizt það, að verð á nauðsynjum væri of hátt? Þeir hafa aldrei á það minnzt fyrr en milliliðirnir voru greinilega komnir úr sögunni. Nú fara þeir fyrst að tala um hátt mjólkurverð, þegar búið er að fara niður dreifingarkostnaðinn. Þeir tala um raftækjaeinkasöluna, að hún selji fyrir of hátt verð; ekki af því, að verðið sé hærra en það hefði verið í frjálsri sölu, því það er alveg öfugt, heldur af því, að þarna er milliliðagróðinn horfinn. Í hvert einasta skipti, sem þeir tala um lágt vöruverð, en það er nú reyndar ekki oft, sem það kemur fyrir, en þá er það fyrir að milliliðagróðinn er horfinn. Annars finnst mér það fara ákaflega illa í munni hv. þm. að vera að tala um of hátt vöruverð.

Við Alþfl.-menn teljum það alveg víst, að með skipulagi og góðri samvinnu milli framleiðenda og neytenda í þessu máli muni nást lækkun á verðinu til hagsbóta fyrir báða aðilja.

Ég skal ekki fara langt út í önnur atriði í ræðu hans. Hann var að tala um, að rafmagnið hjá rafmagnsveitu Rvíkur hefði lækkað núna úr 50 au. niður í 6 au. Þetta er ekki rétt hjá honum. Lækkunin er úr 50 au. í 40 au. á ljósarafmagni. 6 au. rafmagnið er önnur tegund rafmagns, sem ekki hefir áður verið í notkun.

Í skýrslum skipulagsn. er sýnt greinilega, hvað átti er við með verzlunarhagnaðinum í landinu, og sýnt glögglega fram á, að það nær ekki nokkurri átt, hve hann er hár. Það, sem þar er sagt, heyrir alls ekki undir þjóðlygi, enda var því ekki hnekkt af hv. þm.

Um mjólkurduftið fór hann hörðum og óviðurkvæmilegum orðum, sérstaklega þegar þess er gætt, að aðalefnið úr frv. mínu um mjólkurduftið í fyrra hafa flokksmenn hv. þm. tekið upp í brtt. sínar við þetta frv. Hv. þm. sagði, að það ætti að selja mjólkurduftið á 1 kr. kílóið, en ég efast um, að hann hafi kynnt sér þetta mál nógu vel til að geta talað um það. Ég skal til að upplýsa hann betur um það mál lesa fyrir hann kafla úr grg. við frv. mitt í fyrra, sem samin er af dr. Jóni Vestdal, og er það kafli úr bréfi frá honum á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hefi reiknað út, að ef í það rúgmjöl, sem notað er í rúgbrauð, væri blandað 1% af undanrennudufti, þyrfti mesta hækkun á einu rúgbrauði, sem er 1,5 kg., að vera 1,3 aurar, en ef látið væri í það 5% af undanrennudufti, 6,6 aurar. Ef í það hveiti; sem notað er í hveitibrauð, væri blandað 1% af undanrennudufti, þyrfti mesta hækkun að vera 0,5 aurar, og með 5% undanrennudufti 2,6 aurar. Mestu hækkun, sem þyrfti að verða á ýmsu kaffibrauði, hefi ég ekki getað reiknað út, þar sem ég þekki ekki þyngd þess og samsetningu, en hækkun á því er þó ekki nema lítið brot af hækkun hveitibrauða.

Til þess að þessar vörur hækkuðu ekki svo mikið í verði, að neytendur yrðu að nokkru verulegu leyti varir við það, mundi ég telja heppilegast að blanda í allt rúgmjöl, sem notað væri í brauð, 1% af undanrennudufti og í allt hveiti, sem notað væri í brauð og kaffibrauð, 5% af undanrennudufti. Mesta hækkun, sem þyrfti að verða á þessum vörum, væri með því móti svo lítilfjörleg, að neytendur mundu verða vart varir við hana“.

Þannig varð samkomulag milli Bakarameistarafélagins og Alþýðubrauðgerðarinnar um það, að brauðverðið þyrfti ekkert að hækka, þó ákvæði frv. yrðu samþ., svo hv. þm. má reikna kílóið af mjólkurduftinu svo hátt eða lágt sem honum sýnist; það hefir engin áhrif á brauðverðið til neytenda, og það er aðalatriðið. En þó ekki sé blandað nema 1% af mjólkurdufti í rúgbrauð og 5% í hveitibrauð, þá þarf 2,1 millj. lítra af undanrennu í það duft, og ég verð að segja, að það er verulega mikið mjólkurmagn, sem létt er af mjólkurbúunum á þennan hátt, því smjörframleiðsluna eru engin vandræði með, því það er alltaf fremur smjörskortur en hitt, að það sé of mikið. Ég tel þess vegna svo mikla bót að þurrmjólkurframleiðslunni, sem hægt verður að selja á erlendum markaði, að viðhorfið sé nú allt annað til þessa máls en var í fyrra. Þess vegna er afstaða mín og okkar Alþfl.-manna til þessa máls allt önnur nú en hún var þá. Þegar svo þar við bætist, að milliliðagróðinn er alveg útilokaður, þá er ekki að undra, þó við viljum halda áfram að styðja þessa stofnun, sem við vorum með að koma á fót og studdum gegn hinum harðvítugu og illvígu árásum frá flokki þessa hv. þm. Ég tel svo hv. þm. fyllilega svarað með þessu.

Ég hefði gjarnan viljað ræða brtt. meiri hl. landbn., en hv. þm. Mér., frsm. n., hefir skýrt þær svo vel, að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær skýringar.

Þá var hv. þm. Reykv. að segja ýms spakmæli, sem Framsfl. hefði fundið upp; hann talaði um svokallaðan „tvöfaldan skatt“ og hann talaði um „sama verð á sömu vöru á sama stað“. Ég skal ekki um það segja, hvort þetta eru spakmæli eða hve rétt þau eru, en Framsfl. hefir fundið eitt spakmæli, sem form. flokksins, Tryggvi Þórhallsson, sagði fyrstur fyrir nokkrum árum, og það er þetta: Allt er betra en íhaldið. Þetta er spakmæli. Og það, að ég veit, að hvaða skipulag sem er er betra en það, sem íhaldið vill hafa, þá fylgi ég því skipulagi, sem þetta frv. felur í sér, langtum fremur en að láta íhaldið ráða, því ég hefi enga trú á því, að íhaldið leysi þetta mál til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.