08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

53. mál, lestrarfélög og kennslukvikmyndir

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Menntmn. er öll sammála um að mæla með þessu frv. með þeim brtt., sem n. flytur við það, þess efnis, að frv. nái einnig til skólakvikmynda. Það er svo, að notkun skólakvikmynda er mjög að fara í vöxt á síðari árum, og er aðalástæðan sú, að í flestum löndum er nú farið að nota 16 mm. mjófilmur. Er það mjög mikils virði, að allar þessar nýju mjófilmur eru af sömu stærð og hæfa því fyrir samskonar tæki. Það er og þýðingarmikið atriði, að þessar nýju mjófilmur eru ekki eldfimar sem hinar breiðari filmur, er áður voru notaðar, og því ekki nothæfar í skólum. Norðurlöndin öll eru búin að koma í notkun hjá sér þessum skólakvikmyndum. Það er ekki nema vel til fallið, að hinar almennu skemmtanir, eða þeir, sem þær sækja, styrki þessa þjóðhollu starfsemi, lestrarfélögin og skólakvikmyndirnar. Skattur þessi á eftir till. n. að nema 12% af skemmtanaskatti, — ekki 12% af því sem almenningur greiðir, heldur 12% af skemmtanaskattinum, sem er 18% af aðgangseyri af skemmtunum. — Hv. þm. N.-Þ. flytur brtt. um, að í stað 12% skatts komi 15%. Ég fyrir mitt leyti get alveg fallizt á þessa till. og hygg, að svo muni vera með meðnm. mína. 15% álag á 18% nemur ekki nema rúmum 2 aurum á hverja krónu af því, sem menn greiða fyrir skemmtanir, svo þetta er ekki hátt gjald, og vil ég vænta, að það nái samþykki.