20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

53. mál, lestrarfélög og kennslukvikmyndir

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Menntmn. er sammála um aðalatriði frv. og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm. hefir þó áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. við fjárhagsatriði frv., og hefir þegar gert það, og mun hann að sjálfsögðu mæla fyrir þeirri breyt.

Ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða það, að því muni enginn neita, að hin mesta nauðsyn sé á að efla lestrarfélög og bókasöfn bæði í sveitum landsins og kauptúnum. Eins og nú háttar til hér á landi, þá eru bækur mjög dýrar, svo að almenningur getur yfirleitt ekki veitt sér þær. Og svo framarlega sem lestrarfélög og minni bókasöfn geta ekki aflað sér þess helzta, sem út er gefið á hverju ári, þá fer mikill hluti þjóðarinnar á mis við þá bókmenntagerð, sem til er í landinu.

Ég hygg þess vegna, að frv. sé réttilega fram borið. Að vísu getur verið, að ekki takizt að gera jafnmikið með því og til er ætlazt, en það er þó a. m. k. spor í rétta átt.

Að tilhlutun fræðslumálastjórnarinnar mun svo sú breyt. hafa verið gerð, að lítið eitt af skattinum, sem í þessu skyni á að innheimta með skemmtanaskattinum, verði varið til þess að styrkja kennslukvikmyndir, sem ganga eiga milli skólanna. N. féllst á þetta hér í d., þó að það minnki vitanlega tekjur bókasafnanna. Þessar kvikmyndir eru áreiðanlega mjög nauðsynlegar, og þess vegna var afráðið að mæla með frv. óbreyttu.

Út frá þessu sjónarmiði hygg ég, að ekki sé rétt að fylgja þeirri breyt., sem einn nm. ber fram, því að fyrir utan það, að þetta verður ekki ýkjamikil fúlga handa öllum bókasöfnunum, þá er hættulegt að breyta frv. nú í kvöld, þar eð það gæti orðið til þess, að það dagaði uppi.

Ég fyrir mitt leyti legg því til, að frv. verði samþ. óbreytt og að frekar verði gripið til þess eftir eitt eða tvö ár að endurbæta það, ef í ljós hafa komið einhverjir ágallar, sem menn nú í fljótu bragði sjá ekki fyrir.