24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

21. mál, bændaskólar

Jónas Jónsson:

Það er að vísu að bera í bakkafullan lækinn að lýsa yfir fylgi við brtt. hv. 10. landsk., því að hún hefir mikið fylgi. Ég ætla samt að gera það, ekki af því, að ákvæði frv. sé ekki rétt eftir venjulegum reglum, á sama hátt eins og t. d. stýrimannaskólinn heimtar, að menn hafi verið á sjó vissan tíma áður en þeir verða nemendur. Þess vegna er það í rauninni alveg eðlilegt, að það verði höfð sú aðalregla í framkvæmdinni, að það séu aðallega menn, sem eru vanir sveitavinnu, sem koma í bændaskólana, en af því að okkar þjóðfélag er ekki eins aðgreint og hjá stærri þjóðunum, þá er rétt að gera þessa undantekningu, sem hv. 10. landsk. mælir með. Annars ætla ég að nota tækifærið til þess að benda á það, sem er aðalþýðing þessa frv., en það er sú breyt. á bændaskólunum að innleiða vinnuskyldu a. m. k. allt sumarið fyrir nemendur. Það er ákaflega undarlegt, að það mun hafa liðið meira en 30 ár svo, að þetta ákvæði hefir vantað, og það er svo mikil yfirsjón í okkar skólamálum, að það er fagnaðarefni, ef Alþingi tekst nú að gera þessa breyt. Ég hefi stundum, þegar ég hefi verið að gera mér skiljanlegt, hversu fjarstætt form bændaskólanna hefir verið, bent á það, að kennslan þar í rúmlega 30 ár hefir verið svipuð fyrir bændaefnin eins og ef ungum stúlkum í húsmæðraskólum væru fengnar bækur um það, hvernig þær ættu að sjóða mat, hvernig þær ættu að vefa og hvernig þær ættu að prjóna. Það finna allir, hvað þetta er ákaflega heimskulegt, og það er rétt að segja það því kvenfólki til hróss, sem hefir átt þátt í að koma upp húsmæðraskólunum, að þeir eru miklu fremri en bændaskólarnir hafa verið, enda hefir enginn hörgull verið á því að fá ungar stúlkur til þess að koma í húsmæðraskóla, þó að kennslan sé þar öll með vinnusniði. Og sú breyt., sem hér er gerð á bændaskólunum, er nokkuð í þessa átt. Það er eðlilegt og upprunalegt. Ég held, að það væri ekki illa til fallið að bókfesta þetta í Alþt. eins og part af eftirmælum eftir þetta 30 ára tímabil bóklegrar menntunar í bændaskólunum. Einn af þekktustu búfræðingum landsins, sem nú er í Rvík, hefir sagt mér, að þegar hann gekk í bændaskóla fyrir 15–20 árum, þá hafi eina kennslan í plægingu verið sú, að einn. dag um vetur í lausamjöll hafi verið tekinn út plógur og settur í snjóinn, og hafi sumir strákarnir dregið plóginn með þar til gerðum taugum, en aðrir haldið til skiptis um handföngin. Ég vona, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, geri algerð endalok á þessu tímabili, sem mér finnst vera svo sorglegur þáttur í okkar búnaðarsögu. Ég vil því skjóta því til hæstv. landbrh., að það væri vel við eigandi, að í væntanlega reglugerð, ef þetta gengur fram, sem mér sýnist horfur á, yrði bætt kennslu — og það er hægt eftir frv. eins og það er —, 1 stundar vinnu á dag í allsk. smiði, járnsmiði, trésmiði og aktýgjasmiði, og svo steinsteypu, sem hægt er að kenna í húsi að vetri til. Ég hefi talað um þetta við skólastj. á Hvanneyri og hann segir, að hann vildi ekkert fremur en það, en hann bendir á það, sem er eftirtektarvert með þennan stærsta búnaðarskóla landsins, að hann hefir ekkert verkstæði, og hefir ekki haft, þannig að það er ekki hægt að hafa þar neina smíðakennslu. Ég geri ráð fyrir, að í sambandi við þessa breyt., sem nú stendur til að Alþingi geri á búnaðarskólunum, verði að taka margt fleira til greina. Það verður að gera þá að fullkomnum fyrirmyndarheimilum, bæði að því er snertir kennslu og öll vinnubrögð. Þetta verður töluvert erfitt, og ég get tekið það fram því til sönnunar, að eins og kunnugt er, þá er Hvanneyri ágæt jörð til þess að hafa þar kúabú, og það leit út fyrir, að fyrrv. skólastjóra, sem var athafnamaður, ætlaði að takast að fá þar sérstakt kyn af nautgripum, fallegt og gott. Hann lagði mikla stund á þetta og fekk upp á síðkastið til þess dýran og góðan húsakost, en þetta mislukkaðist, þrátt fyrir allt. Kýrnar á Hvanneyri mjólkuðu ekki nema 1600 lítra á ári hver, síðustu árin hjá Halldóri, og hann játaði, að tilraunin hefði misheppnazt, þannig, að ef einhver hefði komið þangað og viljað fá kynbótadýr, sem óhætt væri að flytja í annan landsfjórðung, þá varð bæði fyrrv. og núv. skólastjóri að segja, að þessi stærsta tilraun, sem hefir verið gerð á Íslandi til þess að fá fyrirmyndar kúakyn, hafi misheppnazt og það verði að byrja á nýjan leik. Ég vil ennfremur benda á það í sambandi við mistökin á þessari kennslu, og það hafði ekki minnsta þýðingu fyrir skólana á meðan þeir voru aðeins bóklegir skólar, að piltum var aldrei veitt kennsla í því að hirða kýr, svo menn, sem hafa stór bú og vilja fá góða fjósamenn, verða að fá þá frá öðrum löndum. Við stöndum svo langt að baki öðrum þjóðum í þessu efni, að ótrúlegt má þykja. Það, sem er eitt af fyrstu verkefnum, sérstaklega fyrir Hvanneyri, sem liggur betur við, og náttúrlega báða bændaskólana, er að einbeita kröftum sínum að því að gera þá að verklegum skólum, þar sem bændaefnin geta fengið verklega kennslu í því, sem máli skiptir fyrir bændur. Ég vil skjóta því til hæstv. ráðh., að það verður áreiðanlega að fórna mjög miklu af tilgangslausri bóklegri kennslu, sem að verulegu leyti hefir svifið út í loftið, þegar menn hafa t. d. algerlega óvanir og óundirbúnir orðið að hafa talsvert þungar bækur, oft á útlendum málum, í sérgreinum náttúrufræðinnar, og þetta hefir átt að vera undirstaðan undir íslenzkum búskap. Ég geri ráð fyrir að það væri bezt, bæði fyrir hæstv. ríkisstj. og forráðamenn bændaskólanna, að taka húsmæðraskólana sér til fyrirmyndar í þessu efni, vegna þess að kvenfólkið hefir stefnt beint að markinu í þessum efnum. Ég vænti þess svo, að um leið og þessi sanngjarna undanþága verður gerð fyrir kaupstaðina, verði þetta frv. samþ., og á því verði byggð reglugerð um framkvæmdir, sem verði íslenzkum landbúnaði til þeirrar viðreisnar, sem hann þarf með í þessu efni og hingað til hefir stórlega vantað í sambandi við þessar skólastofnanir.