03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

1. mál, fjárlög 1939

Vilmundur Jónsson:

Verður það er varir og það er ekki varir. Við eldhúsumræður í gærkveldi er ég, óbreyttur og afskiptalítill maður, fyrir litla verðleika gerður að þeirri höfuðpersónu í hinum pólitísku viðskiptum, að margur mætti ætla, að ég væri fjórði ráðh., er standa þyrfti á báðar hendur reikning ráðsmennsku minnar. Vænti ég, að mér fyrirgefist, að ég beri að nokkru hönd fyrir höfuð mér, þó að óvenjulegt sé við eldhúsumræður, að slíks gerist þörf fyrir óbreytta þingmenn. Ég, sem er í engu pólitísku félagi og sæki enga pólitíska fundi nema hér á hv. Alþ.. — og fæ nóg af — á að vera svo tilþrifamikill í því félagslífi, eftir því sem hv. Snæf. segist frá, að tillögum rigni þar niður, sem við mitt nafn eru kenndar, og er helzt að heyra sem ég hafi myndað einhvern sérstakan tillöguskóla. Sérstaklega vildi hann telja mér til ámælis einhverja till., sem borin hefði verið upp og felld við lítinn orðstír í Sjómannafélagi Reykjavíkur í sambandi við hina alvarlegu kaupdeilu sjómanna á togaraflotanum í byrjun síðustu vertíðar. Mundi hér ekki fara æði mikið á milli mála? Það var till. frá hv. 3. þm. Reykv., væntanlega studd af félögum hans, kommúnistunum, sem fékk ein 11 atkv. á hinum umtalaða sjómannafélagsfundi, þar sem saman voru komnir mörg hundruð félagsmanna. Aftur get ég, að vísu aldrei þessu vant, ekki af mér svarið þá greiðasemi — en ekki slettirekuskap, sem er óbyggð, er ég reyni að forðast —, að undir mig var borin till., er ég átti nokkurn þátt í að orða og hugði vandlega að orðalaginu — till., er síðan var borin upp og samþ. með yfirgnæfandi atkvæðafjölda á hinum sama sjómannafélagsfundi. Það var sú ályktun — það voru þau orð, sem sjómennirnir kusu að hafa fyrir sér gagnvart hinni uppkveðnu, lögskipuðu og af þeim lítt þokkuðu og varhugaverðu gerð, er þeir í þetta sinn lögðu út á vetrarvertíðina til þess, eins og oft áður, að ger, sitt til þess að hjarga landinu frá fjárhagslegu hruni. En það er um þessa ályktun sjómannafélagsins að segja, að hún hefir síðar verið hér til umr. á hv. AIþ. oftar en í eitt sinn. Hún hefir sérstaklega verið rakin og nákvæmlega sundurliðuð og dæmd af hæstv. forsrh., og niðurstaðan orðið sú, að ekki er um að villast, að sjómennirnir hafa á þessu krítiska augnabliki hitt á að segja nákvæmlega það, sem þeir þurftu að segja, til þess að gera sinn hlut sem beztan, eftir því sem komið var, og án þess að verða hankaðir á einu orði. Þessi niðurstaða er því merkilegri og eftirtektarverðari fyrir það, að hún er niðurstaða sjálfs dómsmálaráðh., áður lögreglustjóra og reynds dómara, og nú opinbers ákæranda. Að því leyti sem ég átti lítinn þátt í að orða þessa till. tek ég ekki við ámæli fyrir, nema úr þeirri átt, þaðan sem mér er í þessu sambandi last kærar, en lof, en það er frá hv. þm. Snæf. og þeim, sem hann er málsvari fyrir. En verkamönnum vil ég segja það, ef þeir hafa ekki vitað það áður, að bækslagangur á félagsfundum er ekki einhlítur. Með slíkum hvalablæstri eru sjaldan samdar fumlausar, vel grundaðar till., og mundu þær sumar, sem nú upp á síðkastið hafa verið bornar upp og samþ. í verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík bera því órækt vitni nú þegar og þó sennilega hálfu betur, þegar frá liður. Teldi ég mönnum eins og mér og hv. 3. þm. Reykv., Hv. sæmra, að svo miklu leyti sem við höfum vilja á að leggja samtökum alþýðunnar eitthvert lið, að gjalda henni fósturlaunin og langa skólagöngu með því að aðstoða hana við að hugsa ráð sín sem rækilegast heldur en að eiga þátt í, og ef til vill upptök að, ærslum og uppþotum, sem aldrei skortir lið né stólfætur til — að minnsta kosti ekki meðan heill pólitískur flokkur í landinu hefir slíkt fyrir sína sérgrein.

Á þessum eldhúsdegi taldi hv. 3. þm. Reykv. sig hafa meiri ástæðu til að lýsa afstöðu sinni til mín en hæstv. stj., og er mér nú flest borið á brýn, svo sjúklegan viðbjóð, sem ég hefi á öllu tildri, er ég á að vera í útvegunum um metorðaglingur og titla handa vinum mínum. Slíkt gæti ég, og þó tæplega, látið hengja á óvini mína, og sízt þá, sem eru þeir afreksmenn, að þessháttar guli gyllir þá ekki. Þessu líkt er að bendla mig við það, að ég hafi haft áhuga á því, að sr. Sigurður Einarsson fengi dósentsstöðu við guðfræðideild Háskólans. Þessa líka dýrðar og virðingarstöðu! Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að það sé allt of mikill íburður fyrir guðfræðideildina að fá henni annan eins hæfileikamann og sr. Sigurð Einarsson, og mátti minna duga. Hitt kann hv. 3. þm. Reykv. að hafa merkt á mér í okkar hóp, við fleiri tækifæri en eitt, og rekur vel líklega til þess, hversu ópólitískur ég í rauninni sé, að ég hefi sennilega of barnalega tilfinningu fyrir því, að rétt sé haft við í leik, til þess að vera að hans mati gjaldgengur í pólitík. Jafnvel í svo pólitískt þýðingarlausu máli, eins og var val eins kennara að hinni ómerkilegu guðfræðideild, verð ég að játa, að ég hafði ríka tilfinningu fyrir því, er sr. Birni Magnússyni hafði verið dæmdur sigurinn í keppninni, að ekki mætti begðast, að hann hlyti embættið og mætti einskis í missa fyrir tortryggni, sem eðlilegt var, að upp kæmi í sambandi við dóminn. En þegar rök hnigu að hinn, og síðar sannaðist til fullnustu, að ekki aðeins var sr. Sigurður Einarsson hinn rétti sigurvegari, heldur hafði hann verið beittur hinni fáheyrðustu hlutdrægni og réttnefndum níðingsbrögðum í sambandi við samkeppnisprófið, hafði ég jafnríka tilfinningu fyrir því, að honum bæri embættið, sem um hafði verið keppt. Svo barnalegur er maður á fullorðinsaldri og í miðri pólitíkinni.

Hv. 3. þm. Reykv. vill nú verja sína fyrri afstöðu til vinnulöggjafarmálsins með því, að frv. það, er farið var yfir á sambandsstjórnarfundi, að mér og honum viðstöddum, og hann hafði engar athugasemdir við að gera, hafi verið annað frv. en það, sem fyrir Alþ. var lagt og nú hefir verið afgr. til hv. Ed. Þetta er léleg vörn. Ýms uppköst eru til af frv., þar sem kröfur Alþfl. voru settar fram til undirbúnings samkomulagi við Framsfl., svo og kröfur Framsfl. til undirbúnings samkomulagi við Alþfl. Þegar málið var til athugunar í sambandsstjórn, var störfum n.. sem að undirbúningi frv. hafði unnið, að verða lokið. Aðalhöfundur frv. af hálfu Alþfl., Guðmundur Guðmundsson lögfræðingur, hafði fyrir sér eitt undirbúningshandritið að frv., las það gr. fyrir gr. og gat þess jafnharðan um hver atriði hann vænti samkomulags við Framsfl. og hver alls ekki. Samkvæmt því samkomulagi, er Guðmundur Guðmundsson skýrði nákvæmlega frá á þessum fundi, var gengið frá frv. því, sem n. skilaði af sér og birt er í nál. hennar, og þó er það frv. aðgengilegra, því að á síðustu stundu unnu alþýðuflokksmennirnir í n. fulltrúa Framsfl. til samkomulags um nokkur þýðingarmikil atriði, auk þess sem við meðferð málsins í Nd. hafa enn fengizt mikilsverðar lagfæringar á frv. Það var þetta væntanlega samkomulag við Framsfl. um vinnulöggjöf, sem gekk í engu nær kröfum verkamanna og í ýmsu fjær en frv., sem hv. 3. þm. Reykv. tók afstöðu til á umræddum fundi, og með þeim orðum, sem ég hefi hermt upp á hann, sem hann hefir ekki mótmælt og ekki verða skilin í öðru sambandi en því, sem ég hefi skýrt hér frá: „Haldið þið virkilega, að Framsfl. gangi að þessu frv.?“ Svo ótrúlega aðgengilegt fannst honum frv. vera fyrir Alþfl. Hvaða athugasemdir hv. þm. kann að hafa skrifað á eitthvert frumvarpsuppkast í svefnhúsi sínu á eintali við sálu sína, sennilega einhverntíma löngu síðar, þá meira eða minna haldinn orðinn af hinum kommúnistiska anda, og kallar skjallega sönnun um afstöðu sína, kemur ekki ágreiningi okkar minnstu vitund við. Það er opinbert, að hann hefir snúizt í málinu, og þarf engra dularfullra skriflegra gagna að leita um það, því siður sem sá snúningur er að fullu skýrður með hinni pólitísku afstöðu hans nú til Alþfl. annarsvegar og kommfl. hinsvegar. Yólitiskur loddaraleikur er ekki merkilegri fyrir það, þó að hann sé krotaður upp á blað.

Ég tek að mörgu leyti til mín og viðurkenni ljúflega ummæli hv. 3. þm. Reykv. um hlédrægni mína fyrr og síðar í hinni pólitísku baráttu fyrir Alþfl.. og það með, að ég megi fyrir það naumast til fl. teljast. Það skýrist ef til vill að einhverju leyti af því, að ég hefi, ólíkt hv. 3. þm. Reykv.. ekki keppt til neinnar forystu, en kosið að mega vera sem allra óbreyttastur liðsmaður, og það þótt mest á skorta, að ég hefi ekki að öllu leyti fengið því ráðið. Það hefir þannig atvikast svo, að ég hefi verið bæjarfulltrúi fl. í tug ára. Aftur tókst mér að draga mig í hlé sem þm. Alþfl. í hans allra öruggasta kjördæmi, en að vísu til að víkja sæti fyrir einum hinum harðduglegasta þm. fl., sem hann nú má allra sízt án vera. En þó lenti það á mér, svo undarlegt sem það má virðast, að vinna fyrir Alþfl. ekki aðeins hans fyrsta sveitakjördæmi, heldur kjördæmi, sem talið var — og var til þess tíma — eitt allra öruggasta sjálfstæðikjördæmi landsins, að ég ætla helzt til jafns við Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það er fjarri mér, að ég jafni mér við hv. 3. þm. Reykv. um dugnað, og allra sízt um fyrirgang í pólitík. En hver veit nema hlutskipti hans væri nú annað og betra en það er, ef hann, í stað þess að láta hrapa utan af sér fyIgið kosningu eftir kosningu hér í Reykjavík, til lítillar uppörvunar öðrum landshlutum, hefði sett þar í stað sinn annan mann, boðið sig í vonleysu fram í Gullbringu- og Kjósarsýslu og unnið kjördæmið. Vissulega væri þá hans hlutskipti annað, og þegar fyrir það, að þá væri hann allt annar maður en hann er. Og ef hann hefði ekki mér fremur verið í Alþfl., hefði a. m. k. ekki þurft að bjarga Alþfl. með því að reka hann úr honum.

Mér blöskrar ekki stór orð um fylgisleysi Alþfl. frá þeim. sem kljúfa sig út úr honum og þykjast þá jafnan einir hafa umboð til að tala máli alls verkalýðs. Hefi ég af slíku skvaldri nokkra reynslu. Ég minnist þess á Ísafirði 1930, er nokkrir menn yfirgáfu flokkinn þar í nafni kommúnismans og tóku að tala um okkur bæjarfulltrúana og aðra trúnaðarmenn Alþfl. og verkalýðssamtakanna, að sinn leyti eins og hv. 3. þm. Reykv. talar nú um stjórn Alþýðusambandsins og okkur þm., bæjarfulltrúa flokksins í Reykjavík og nær alla trúnaðarmenn hans fyrr og síðar, sem fjandmenn verkalýðsins. Verkalýðurinn vildi þetta og hitt, eitthvað allt annað en við, sem vorum svikarar við verkalýðinn og verkalýðsböðlar. Þessir piltar náðu af okkur blaðinu Skutli og héldu fram þessum kenningum, að mig minnir í heilt ár, án þess að við fengjum rönd við reist, en þess á milli birtu þeir starf kommúnismans eftir Bukharin, höfuðkennimann hins rússneska kommúnisma — sem síðan hefir að vísu játað á sig fyrir hinum rússneska rannsóknarrétti að hafa verið þá, og raunar alltaf, höfuðsvikari sósalismans, njósnari og landráðamaður, og loks ráðbani sjálfs Lenins — að ógleymdum ýtarlegum frásögnum af uppreisninni í Kína, blað eltir blað og mánuð eftir mánuð. Verkamennirnir á Ísafirði voru hættir að vita, hvað gerðist í bænum fyrir fréttum frá Kína. Þar kom, að þá fór að langa til að vita, hvað væri um að vera úti í Krók og niðri í Norðurtanga. Til þess þurftu þeir að koma öllu í samt lag, og það gerðu þeir svikalaust við fyrsta tækifæri. Svo vildi það til, að skömmu siðar buðum við okkur báðir fram í Norður-Ísafjarðarsýslu, ég og Kína-ritstjórinn, sem kallaður var. Kosningin fór svo, að ég. höfuðverkalýðssvikarinn, náði kjördæminn, en ritstjórinn, bezti og vandaðasti piltur, sem kunni stafróf kommúnismans betur en faðirvorið, vissi allt um uppreisnina í Kína og hafði talað máli verkalýðsins í 2 ár, fékk — segi og skrifa — 3 atkv. Það var aliur verkalýðurinn í Norður-Ísafjarðarsýslu þá, og hefir þó farið stórum fækkandi síðan. Á þessu lærðist mér að „verkalýður“ kommúnistanna og þeirra sálufélaga, sem þeir hýða andstæðinga sína með í tíma og ótíma, og vita alltaf upp á hár, hvað vill í hverju einstöku tilfelli, á ekkert skylt við mennina á eyrinni, á sjónum eða í sveitinni. Það er hugtak — abstraktion –sem svarar til heilags anda hinna trúuðu. Þetta heitir síðan kínatímabilið í sögu verkalýðsbaráttunnar á Ísafirði og Vestfjörðum. Ég spái Alþfl. í Reykjavík og landinn yfirleitt öðru Kínatímabili fyrir tilverknað hv. 3. þm. Reykv.

Hv. 3. þm. Reykv. lýsti því hátíðlega yfir hér í gærkveldi, að hann væri ekki kommúnisti, og myndi aldrei verða kommúnisti. Hann lætur sér ekki skiljast, að þar með eru örlög hans innsigluð. Spyrjið þið hv. 1. landsk., BrB, og félaga hans hér, sem stjórna Kommfl., hvort þeir séu ekki kommúnistar, og muni ekki alltaf verða kommúnistar. Þeir svara því hiklaust játandi, og standa áreiðanlega við það. Þeir hata sósíaldemokrata og sósialdemokratiska flokka, eins og jafnaðarmannaflokkana á Norðurlöndum, — hata þá eins og pestina. Rekja þeir til þeirra allt illt og spá Norðurlöndum tortímingu fyrir þeirra tilverknað. Höfum við heyrt þær ræður hér á hv. Alþingi, að þegar þeir vilja svívirða núverandi forseta Alþýðusambands Íslands, Stefán Jóh. Stefánsson, blikna öll skammaryrði, sem þeir lengi hafa þó lotið að: hægri foringi, verkalýðssvikari, sósíalfasisti — svartara skal það vera — og hann er réttnefndur fulltrúi sósíaldemokratanna sænsku. Með þessum mönnum — undir forustu þessara manna — ætlar hv. 3. þm. Reykv. að byggja upp verkalýðsflokk, er ekki sé kommúnisfiskur, og þá sósíaldemókratiskur, og hann hyggst að gabba þá þannig, að þeir leiðréttist og lagfærist með því einu, að heitið sósíaldemókratiskur flokkur sé að hálfu leyti þýtt á íslenzku, og sé hinn fyrirhugaði sameinaði flokkur kallaður sósíalistiskur lýðræðisflokkur.

Kröfugöngur í Reykjavik eru yfirleitt ekki lærdómsríkar, og skal játað, að þar er kommúnistanna sterkasti leikur. Kröfuganga samfylkingarinnar á sunnudaginn, sem öllum ber saman um, að sízt hafi verið fjölmennari en síðastl. ár, sýndi nokkurnveginn greinilega, hvor var líklegri til að verða hins munnbiti, flokkur kommúnísta eða flokkur hv. 3. þm. Reykv., ef flokk skyldi kalla, lítill halakleppur aftan í fylkingu kommúnista, sem fór geyst fyrir og lét mikið yfir sér. Bar hátt við loft skildi áletraða: Lifi kommúnistaflokkur Íslands (sem þrátt fyrir samfylkingarskrafið á eftir því ekki alveg að fara að leggjast niður) og: Lifi alþjóðasamband kommúnista (sem kommúnistarnir sjálfir segja, að stjórnað hafi verið frá öndverðu og fram til síðustu tíma af flugumönnum kapitalismans, landráðamönnum, njósnurum og morðingjum). Minna hefir farið fyrir spjaldi, ef til hefir verið, með nafni alþjóðasambands jafnaðarmanna, sem allir bræðraflokkar okkar á Norðurlöndum teljast til, og norski alþýðuflokkurinn er alveg nýlega genginn í eftir dýrkeypta reynslu af alþjóðasambandi kommúnista, sem hér á lengi að lifa.

Mér er sagt, að lítið barn hafi dregið spjaldkríli, þar sem móta sást fyrir nafni Alþýðuflokksins, og mun enginn fullorðinn hafa fengizt til að halda slíku á lofti, í því selskapi, ekki einu sinni hv. 3. þm. Reykv. sjálfur, sem sæmzt hefði verið að bera stórt spjald áletrað: Deyi Alþýðuflokkurinn — sem er það eina, sem fyrir bandamönnum hans, kommúnistunum, vakír, mænandi eftir aukningu sins eigin flokla á kostnað Alþfl. og umráðum yfir verkalýðssamtökunum í landinu, hafandi hv. 3. þm. Reykv. að ginningarfifli, ráðnir í að kasta honum sjálfum frá sér með hæðiyrðum, að lokinni þiónustu.

Alþýðuflokksmenn og konur á Íslandi. Við látum ekki Alþýðuflokkinn deyja! Hjálpumst að því að láta Kínatímabil það, sem hv. 3. þm. Reykv. er að leiða yfir Alþýðuflokkinn og verkalýðssamtökin í landinu, verða sem allra stytzt!