11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að blanda mér í deilurnar um þær brtt., sem hér liggja fyrir. En það er eitt atriði, sem mig langar til að skjóta til hv. landbn. Ég ætlaði að gera það við 2. umr., en það atvikaðist svo, að málið fór framhjá mér þá. Það, sem ég vildi minnast á, er í sambandi við brtt. frá n., sem samþ. var sem viðbót við 7. gr., um það, að fyrir skuli liggja frá trúnaðarmönnum Búnaðarfélags Íslands yfirlýsing um það, að hús, sem reist verði samkvæmt þessum l., verði reist á hentugum stöðum, miðað við ræktun, vatnsból, síma, vegi og fleira. Mér sýnist þetta mjög athyglisvert atriði, og vil ég skjóta því til landbn., hvort hún muni ekki vilja athuga möguleikana á því að ganga dálítið lengra í þessa átt en gert er með þessari till. Ég er ekki frá því, að ástæða sé til að athuga, hvort jafnvel sé ekki kominn tími til þess að heimila einskonar byggingarsamþykktir fyrir sveitirnar eða a. m. k. sumar sveitir.

Þegar býli voru reist hér á landi, þá hefir hver maður valið sér stað eftir útsýni, vatnsbóli og öðru slíku, og þannig, að það gerði engum öðrum til, hvar hann reisti sinn bæ. Það var svo lítið, sem var sameiginlegt, því að þá voru ekki einusinni vegir. Nú er þetta að breytast, og þá sérstaklega í þéttbýlum sveitum, svo að það fer ekki að verða mjög langt bilið milli þéttbyggðra sveita og kauptúna um það, hversu mikil almenningsnauðsyn og hagur það er, að búin séu reist á hentugum stöðum, t. d. hvað snertir vegina, eins og frsm. n. gat um. Ég tala nú ekki um, ef rafveitur kæmu, því að þá getur það skorið úr um það, hvort rafveitan borgar sig, hvort það þarf að fara með leiðslurnar um endalausa króka eða hvort hægt er að leggja þær þannig sem hentugast er til að koma rafstraumnum um sveitina, án mjög mikils kostnaðar.

Mér er það ljóst, að hér er um mál að ræða, sem verður að fara mjög alvarlega i, því að það mætti gera meiri skaða heldur en gagn, ef einhver skipulagsofsi hlypi í þetta mál, svo að menn væru að meira eða minna leyti ósjálfráðir um það, hvar menn byggðu, eða stofnað væri til stórkostlegs kostnaðar í tilfærslu býla. Það er ekki það, sem ég á við, heldur hitt, hvort ekki muni vera kominn tími til að athuga þetta á einhvern hátt.

Ég treysti mér nú ekki til að bera fram brtt. við þetta mál, en mér hefir dottið í hug að skjóta því til landbn., hvort hún vilji ekki íhuga þetta mál og ef til vill beina því til stj., að leita eftir ráðum trúnaðarmanna sinna í Búnaðarfélagi Íslands um það, hvort ekki myndi vera hægt í sambandi við byggingar- og landnámssjóð að gera drög að heimildarlögum fyrir fjölbyggðar sveitir til þess að koma upp hjá sér einföldum byggingarsamþykktum í þessa átt. Ég sé vel örðugleikana á þessu. Maður getur hugsað sér býli, sem liggur á óhentugum stað fyrir heildina, og sá, sem á það, hefir kannske ekkert á móti því að flytja það. En það er kannske búið að leggja svo mikil verðmæti í býlið, að eigandinn verður að skoða mjög huga sinn um það, hvort það borgi sig að flytja það. Það má t. d. benda á það, að þó byggt sé nýtt íbúðarhús, þá er þyrping af öðrum húsum á staðnum.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en mig langar til að skjóta því til landbn., hvort hún vilji ekki íhuga möguleikana á því að koma af stað athugun á þessu máli.