08.04.1938
Neðri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Thor Thors:

Þetta frv., sem útbýtt var hér í d. fyrir 2 dögum, kemur engum þm. á óvart, þar sem það eru jafnvel mánuðir síðan tilkynnt var, að slíkt frv. yrði borið fram af hendi stjórnarfl.

Við sjálfstæðismenn höfum á undanförnum 4 þingum flutt frv. um vinnulöggjöf. Það frv. hefir fengið daufar undirtektir í þinginu, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, enda þótt Framsfl. hafi jafnan staðhæft, að þeir hefðu mikinn áhuga fyrir setningu vinnulöggjafar. Það ber í raun og veru að fagna því, að Framsfl. hefir nú loks staðið við þessi ummæli sín og borið fram þann vísi til vinnulöggjafar, sem hér liggur fyrir. Ég tel þetta frv. vera spor í rétta átt og að þar sé gengið að nokkru til móts við þá nauðsyn, sem okkur er á því, eins og öðrum siðuðum þjóðfélögum, að skipa þessum mikilsverðu og örlagaþrungnu málum með lögum. Ég geri ráð fyrir að eiga kost á að taka einstök atriði frv. til meðferðar í allshn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, og mun að þessu sinni ekki gera elnstök atriði frv. að umræðuefni. Frv. er í 4 köflum, og ætla ég að fara nokkrum orðum um hvern einstakan kafla, og þá jafnframt að gera nokkurn samanburð á till. okkar sjálfstæðismanna og þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Fyrsti kafli frv. er um réttindi stéttarfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda. Í þeim kafla er að minni hyggju mjög lítið um nýmæli. Það er sagt í 1. gr., að menn eigi rétt til að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd. Það var óþarft að taka slíkt fram í þessari löggjöf, því að samkvæmt stjórnarskránni eiga menn rétt á að stofna hvaða félagsskap sem er í löglegum tilgangi. Hér er ekki um nein ný réttindi að ræða, heldur upptekningu á allsherjarreglu, sem gildir í stjórnarskrá landsins.

Þá eru nokkur atriði, sem eiga að teljast til réttinda verkalýðsins, m. a. það, að verkamenn megi skipa trúnaðarmenn á vinnustöðvum. Þetta er ekki heldur nýmæli; þetta er mjög viða, og hefir verið tíðkað um langt skeið.

Ég sé annars, að n. hefir gert nokkrar breyt. á þessum kafla frá hennar upphaflegu till. 9. gr. er felld niður úr fyrsta frv. n., en sú gr. fjallaði um það, að félagsdómur gæti ógilt gerða samninga þessara aðilja. M. ö. o., félagsdómur var í vissum tilfellum látinn hafa það hlutverk, að skipta sér af hagsmunaágreiningi aðilja. Ég taldi mjög óheppilegt, að n. skyldi ætlast til þess, því að það á að vera grundvaliaratriði vinnulöggjafar, að hagsmunaágreiningurinn sé hjá aðiljunum sjálfum, en ekki ríkisvaldinn. Ég tel því til bóta, að þessi gr. hefir verið felld niður.

Um 2. kafla frv., um verkföll og verkbönn, vil ég segja, að ég tel hann til mikilla bóta, frá því sem verið hefir, enda er þar gengið inn á aðalatriðin í till. okkar sjálfstæðismanna, sem eru það, að vinnustöðvun sé ekki hægt að skella á gersamlega fyrirvaralaust.

3. kaflinn, um sáttatilraunir í vinnudeilum, er að miklu leyti sama efnis og till. okkar. Þó vantar eitt mjög mikilvægt atriði í þennan kafla. Það vantar með öllu heimild fyrir sáttasemjara til þess að fresta vinnustöðvun. Slíka heimild hefir sáttasemjari í Danmörku og Noregi; hann hefir þar beinlínis skyldu til að banna vinnustöðvun um nokkra hríð, meðan hann er að freista að koma sáttum á. Þetta atriði er ekki í frv., sem hv. þm. N.-Þ. flytur, og tel ég það mjög mikinn galla á frv., því að sá frestur á vinnustöðvun, sem sáttasemjari hefir í nágrannalöndunum, hefir oft reynzt nægilegur til þess að koma á sáttum, áður en til vinnustöðvunar hefir komið.

Um 4. kafla, um félagsdóm, er það að segja, að sá kafli er að efni til nærri sá sami og var í till. okkar sjálfstæðismanna um vinnudómstól Íslands. Það er breytt um nafn, en verksvið dómsins og tilhögun er nákvæmlega eins og við sjálfstæðismenn höfum ætlazt til. Efnisniðurröðun þessa kafla er ekki eins skipuleg eins og æskilegt væri, og tel ég af þeim ástæðum nauðsyn á að breyta þar nokkuð til.

Ég vil sem sagt láta í ljós ánægju mína yfir, að stjfl. hafa stigið þetta spor. Því er ekki að neita, að frv. er ábótavant, að sumu leyti mjög ábótavant, en hér er um spor í rétta átt að ræða og nauðsyn þess viðurkennd, að við, eins og aðrar siðaðar þjóðir, höfum löggjöf á þessu sviði.