07.05.1938
Efri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég þarf ekki miklu að svara þeim aths., sem komu fram hjá hv. 3. landsk. gagnvart minni afstöðu til þessa máls. Samt sem áður virðist mér rétt að benda á það, að því fleiri menn, sem eru í stjórn sem varamenn eða aðalmenn við svona fyrirtæki eins og síldarverksmiðjurnar eru, þá dreifist alltaf ábyrgðartilfinningin. En þar geta komið fyrir hlutir, sem þurfa að vera þannig gerðir, að sem fæstir standi undir ábyrgðinni af þeim, bæði sölur og annað. Ég vil á engan hátt veikja stjórn síldarverksmiðjanna, hv. þm. má ekki skilja mig þannig. Ég vil líka benda á, að við sjálfstæðismenn höfum ekki á neinn hátt beitt okkur fyrir því. Þessi dæmi, sem ég nefndi voru úr Vestmannaeyjum, en ég átti ekki við síldarútvegsnefndina, eins og hv. þm. hélt, enda eru nm. í þeirri nefnd alls ekki búsettir allir á sama stað.

Það er náttúrlega hverju orði sannara, að það geta allir dáið, orðið veikir eða forfallazt á einhvern hátt, og þá einnig þeir stjórnarnefndarmenn, sem hér um ræðir. En samkvæmt l. er þinginu ætlað að kjósa nm., og þess vegna koma þau forföll, sem ég nefndi, ekki að neinni sök þann tíma, sem þing situr. Ég vil í því sambandi benda hv. þm. á, að dæmi eru þess, að ráðh., honum allskyldur í skoðunum, hefir sýnt það, að honum hefir ekki orðið skotaskuld úr því að búa til stjórn við síldarverksmiðjur ríkisins utan við setu Alþ. Ég vil ekki taka við neinum ásökunum um það, að ég vilji veikja þessa stofnun eða sýna ábyrgðarleysi gagnvart henni, sízt af öllu frá þeim flokki, sem staðið hefir að stjórn síldarverksmiðja ríkisins, þegar tveir flokksbræður hv. 3. landsk. voru látnir dagana eftir þingslitin segja sig úr verksmiðjustjórninni, og það var svo notað til að senda heim aðra menn úr stjórninni, sem ekki voru alþýðuflokksmenn, og skipa aðra í þeirra stað. Þetta dæmi er þess eðlis, að það er vont fyrir þá, sem standa að því verki, að saka mig eða aðra menn, sem voru þessu óviðkomandi, um ábyrgðarleysi í garð ríkisverksmiðjanna.

Það dæmi, sem hv. þm. S.-Þ. nefndi um skoðun fyrrv. atvmrh. á löglegum afskiptum varamanna, sýnir það, að ef slík skoðun væri fyrir hendi hjá ráðh., sem hefði yfirstjórn síldarverksmiðjanna, þá gæti úr því orðið ákaflega kyndugur viðskiptamórall. Nú er það vitað, að þessar verksmiðjur fást ekki við að útnefna menn í stjórnir sjúkrasamlaga, heldur að framleiða vöru og selja hana. Við skulum hugsa okkur, að verksmiðjustjórnarfundur, þar sem mættir væru einn eða tveir varamenn, ákvæði, að selja stórt magn af síldarolíu eða fiskimjöli, en svo kæmi það í ljós, að salan væri óheppileg, þá væri eftir þeim hugsanagangi, sem ríkti hjá fyrrv. atvmrh. um gildi varamanna ef til vill hægt að segja, að þessi sala væri ólögleg. Hvaða afleiðingar slíkur mórall hjá ráðh. gæti haft á aðstöðu verksmiðjanna, þarf ekki að lýsa. Það yrði ákaflega leið aðstaða.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál. Ég hafði ekki hugsað mér að gera úr þessu neitt kappsmál eða hitamál, eins og sýnir sig á því, að ég hefi ekki sett fram neitt sérstakt nál., heldur talið nægilegt að segja, að ég væri málinu ekki fylgjandi. Þetta er ekki stórt mál í sjálfu sér, þótt það geti verið mjög mikið stórmál í „prinsippinu“, hvort þingið stefnir að því að dreifa ábyrgðinni á því, sem fram fer í ríkisverksmiðjunum eða ekki.