10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

47. mál, laun embætissmanna

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn. hefir athugað þetta mál að svo miklu leyti, sem hún gat á þeim stutta tíma, sem hún hafði til meðferðar og afgreiðslu málsins á fyrri fundinum í dag, og samþ. nál., sem sjálfsagt verður útbýtt hér síðar á fundinum, þótt ég hafi ekki séð það enn.

Eins og menn sjálfsagt hafa athugað, þá er stungið upp á því í þessu frv., í fyrsta lagi að heimila, að læknum, sem taka minnstu læknishéruðin, sem í eru færri en eitt þús. íbúar, verði frá upphafi greidd laun með fullri aldursuppbót. Á því hefir borið undanfarið, að illa gengi að fá lækna í þessi rýrustu læknishéruð, sem þykja lítið eftirsóknarverð. Á hinn bóginn hefir fólkið, sem þar býr, vitanlega eins mikla þörf fyrir að geta náð í lækni og aðrir landsmenn. Hv. flm. frv. hefir þótt þörf að bæta kjör þeirra manna, svo að menn fáist frekar til að gegna þessum embættum.

Í öðru lagi hafa flm. farið fram á, að svipað ákvæði væri sett fyrir prestana, að við veitingu prestakalla sé ráðh. heimilt að ákveða, að laun skuli þegar frá upphafi greiðast með fullri aldursuppbót.

Þá er einnig stungið upp á, að athugaðir séu í samráði við hlutaðeigandi söfnuði möguleikar fyrir samsteypu prestakalla, til að spara ríkissjóði álíka upphæð, sem um er að ræða í ákvæðum þessa frv. Er þannig ætlað að sjá fyrir, að útgjöld ríkissjóðs aukist ekkert í framtiðinni, hvort sem það tekst eða ekki. Ekki er þó hægt að neita því, að frv. þetta mun auka útgjöld ríkissjóðs dálítið, þótt gert sé ráð fyrir, að mest þessi gjöld fáist inn aftur með samsteypu prestakalla.

N. hefir reynt að leita sér sem ábyggilegastra upplýsinga um það, hvað ákvæði frv. mundu kosta mikla greiðslu úr ríkissjóði árlega. Og eftir þeim upplýsingum að dæma ætti það að vera um 4–5 þús. kr. að því er læknishéruðin snertir, en 20 þús. kr. að því er prestaköllin snertir. Og ef það næðist, sem ákveðið er í 2. gr., að athuga einnig samsteypu prestakalla og slík samsteypa svo eitthvað framkvæmd, þannig að ekki yrði útgjaldaauki á þessu sviði, þá ætti raunverulegur útgjaldaauki af þessu að verða um 4–5 þús. kr.

Nú er þess ennfremur að gæta, að á fyrri fundinum í dag var samþ. frv. hér í hv. d., sem bætir kjör hreppstjóra að allverulegum mun, og mundi það, ef að lögum yrði, baka ríkissjóði um það bil 14 þús. kr. útgjöld. Í þessum tveimur frv. er því að ræða um nálægt 40 þús. kr. aukin útgjöld, þótt gert sé ráð fyrir, að í framtíðinni geti unnizt helmingur af því. Það má náttúrlega segja, að á tímum eins og þessum sé það tæplega fært að auka þannig gjöld ríkissjóðs. Að hinu leytinu er svo á það að líta, hver nauðsyn á þessu er. Og þessi nauðsyn er þá fyrir hendi, eftir því sem n. hefir kynnt sér, þar eð menn fást beinlínis ekki í rýrustu læknishéruðin; og það gengur líka mjög illa að fá menn til að gegna ýmsum prestaköllum, t. d. þeim afskekktustu. Og þar sem þjóðfélagið hefir nú tekið það að sér að sjá landsfólkinu bæði dyrir læknishjálp og prestsþjónustu, þá lítur n. svo á, þrátt fyrir það, þótt hún hafi opin augu fyrir því, hvað þetta kostar, að ekki sé annað fært en að samþ. þetta frv. Fyrir utan það, að auðvitað er það sanngirnismál einnig að launa þessa menn, sem vitanlega hafa einna verst kjör allra opinberra starfsmanna í landinu, sérstaklega prestarnir, nokkru betur en gert er. Það er náttúrlega ekki hægt að neita því, að laun presta eru nú tæplega til að lifa á þeim, og er auðsjáanlega við það miðað, að prestar geti stundað ýmislegt annað og veitt sér þannig nokkrar tekjur. Og sízt er hægt að halda fram, að laun presta verði há, þó að þetta verði nú samþ. Enda er ekki um að ræða að hækka laun presta almennt, heldur að ungir prestar fái þegar full prestslaun. Ég orðlengi svo ekki frekar um þetta, en eins og menn sjá á nál. 530, sem áðan var útbýtt, er n. sammála um að mæla með því, að frv. verði samþykkt.