09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Við 2. umr. var hreyft nokkrum aths. við þetta mál, þ. á. m. að þessi l. mundu geta komið illa við á einum stað á landinu, Patreksfirði. Af því að fyrirtækið, sem gerir þar út, er svo mikill liður í öllu atvinnulífi þar, er mjög erfitt fyrir sveitarfél. að vera skyldugt til að fella niður útsvar á því. Þó að reynt væri að rekja í sundur starfsgreinar þessa fyrirtækis, mundi reynast mjög erfitt í framkvæmdinni að gera svo skarpa skiptingu sem þyrfti. N. vildi taka tillit til þessa og ber því fram brtt. á þskj. 486, um að 2. gr. frv. orðist svo: „Bæjarstjórnum og sveitarstjórnum er heimilt að undanþiggja sömu fyrirtæki útsvari á sama tíma“, eða í 5 næstu ár. Á hinn bóginn getur það komið fyrir, að fyrirtæki, sem ræki þarna útgerð, færi að óttast að þeirri útgerð yrði íþyngt í sköttum fram yfir það, sem væri á öðrum stöðum, og væri því hætta á, að það flyttist af staðnum. Ég hygg því, að nauðsynlegt sé að setja eitthvert ákvæði til viðbótar, sem tryggi þau fyrirtæki, sem um væri að ræða, gegn óhóflegri álagningu. En það er orðið erfitt um rekstur mála síðustu daga þingsins, og n. hefir því ekki getað náð saman um till. í þessa átt, en ég hygg þó, að meiri hl. n. muni vera hlynntur slíkri till., og e. t. v. öll n. Ég ber hana því fram skrifl., og er hún þess efnis, að sé heimildin ekki notuð, þá skuli það útsvar ekki mega fara fram úr því, sem fyrirtækið greiðir nú á þessu ári, svo að þeir staðir, sem hlut eiga að máli, séu ekki sviptir því, sem þeir nú hafa, en batni í ári, fá fyrirtækin samt þann hluta af sínum arði til þess að leggja í fyrirtækið, sem er fram yfir það útsvar, sem þau bera á þessu ári.

N. athugaði þær till., sem fram eru komnar, og hefir hún ekki getað fallizt á þær. — Ég vil svo ekki tefja málið. Ég hefi sett upp till., sem ég vonaði, að væri búið að prenta, en hún er ekki komin frá prentsmiðjunni ennþá. Hún er við brtt. á þskj. 486 og er á þá leið, að við hana bætist: Verði heimild þessi ekki notuð, má þó ekki leggja hærra útsvar á þau en sömu fyrirtæki báru árið 1938.

Þetta atriði er, að því er ég hygg, ópraktískt fyrir aðra en Patreksfirðinga. Ég býst við, að það komi ekki til mála hvað Reykjavík snertir, og Hafnfirðingar hafa enga ástæðu til þess að nota sér ekki heimildina. Það er aðeins þessi eini staður, sem getur, ef hann vill, haldið því útsvari á þessu fyrirtæki, sem því nú er gert að greiða.

Ég neyðist til að afhenda hæstv. forseta þessa brtt. skriflega og óska eftir öllum nauðsynlegum afbrigðum. Eg hefi, þótt meiri hl. n. sé henni meðmæltur, borið hana fram í mínu nafni einu, vegna þess að ég hefi ekki átt kost á að koma á fundi í n.