11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af orðum hv. þm. Borgf. vil ég skýra frá því, sem farið hefir fram í viðtölum milli ríkisstj. og SÍF. Stj. SÍF hefir óskað. að eitthvað yrði gert til stuðnings útveginum, og m. a. hefir þetta mál blandazt þar inn í. Varð að samkomulagi að afgr. það eins og það liggur nú fyrir hér. En að því er snertir mál sjávarútvegsins í heild, þá mun ríkisstj. taka það til athugunar fyrir næsta þing. Í n. þeirri. sem falið verður að athuga þetta, verður að athuga rekstraraðstæður, verðlag og annað slíkt, er útgerðin verður að hlíta. Mun stj. fylgjast með því, að þetta verði allt vel athugað.

Út af þeirri fyrirspurn hv. frsm., hvernig skilja bæri þetta frv., hvaða fyrirtæki sveitar- og bæjarstj. væri heimilt að undanskilja útsvarsgreiðslu, skal ég taka það fram, að þeim er ekki heimilt að undanskilja önnur fyrirtæki útsvarsgreiðslu en þau, sem eingöngu reka útgerð. Þau fyrirtæki, sem jafnframt reka t. d. verzlun, koma því ekki inn undir þessa heimild.

En að því er snertir ákvæði þessara l. um útsvars- og skattgreiðslu, er ekki alveg ljóst, við hvað átt er með orðinu „útgerðarfyrirtæki“, og mun því þetta atriði verða skýrt nánar í reglugerð. Ef menn kynnu að verða óánægðir með þau ákvæði, sem sett verða, verður að taka það til meðferðar síðar á Alþingi.