19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

99. mál, iðnaðarnám

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Svo sem vænta mætti, fann íhaldið lyktina af frv. þessu. Hv. þm. A.-Húnv. var ekki lengi að standa upp og lagði hann mikla áherzlu á að hraða þessu frv. í gegn með sem allra mestum krafti. Það er svo sem auðséð, hvað hann og hans flokkur ætla að reyna að gera til þess að skapa sem allra mest atvinnuleysi í iðnaði og lækka svo kaupið, því að þeir vita, að atvinnuleysið er lífsskilyrði fyrir auðvaldið og yfirstéttirnar. Og þeir vilja halda niðri kaupinu og skapa óheilbrigða samkeppni meðal verkamanna, og þess vegna eru þeir á móti því að takmarka aðganginn að iðngreinunum, svo að atvinnuleysið verði ekki tilfinnanlegt. Það þarf ekki að tala mörg orð um það, en það var skemmtilegt að fá þetta nú við fyrstu umr.

Þá minntist hv. flm. á í síðustu ræðu sinni, að ég hefði verið að tala um, hvort mér hefði þótt betra, að annar aðilinn hefði verið ánægður. Það var ágætt, að hv. 1. þm. Árn. skyldi koma inn á þetta, því að það er einmitt það, sem hann með öðrum var að framkvæma á Alþingi í sambandi við vinnulöggjöfina, — í sambandi við þá löggjöf, sem snertir verkamennina. Þá var þessi löggjöf pínd í gegn, þar sem aðeins annar aðilinn var ánægður, en hinn óánægður. Þar voru atvinnurekendur harðánægðir, en verkalýðurinn óánægður.

Við erum á móti slíkri lausn, þar sem báðir eru óánægðir. Við viljum, að báðir aðiljar séu ánægðir, en það er líka sú eina eðlilega lausn. Það vona ég, að hv. flm. sé mér sammála um. Er ég því hræddur um, að það sé fjarri lagi, að hann fari að leggja mér lífsreglurnar um afstöðuna til þessa máls. Svo kom hann inn á byggingar í sumar, og hvernig liti út með byggingariðnaðinn. Það var líka mjög heppilegt að koma nú inn á það. Ég vil biðja hv. þm. og hans flokksmenn að kynna sér, hvernig lítur út með byggingar í Reykjavik, og hvort standi á iðnfélögunum. Það er útlit fyrir, að ekkert verði byggt í sumar. Það er ekki út af vinnulöggjöfinni og slíku. Ég vil biðja Framsfl. að athuga sína afstöðu viðvíkjandi verkamannabústöðunum, sem hefði átt að byggja í sumar og er eitt af stærstu atvinnuatriðunum í sambandi við byggingar. Hv. flm. talaði heilmikið um umhyggju fyrir almenningi og að það megi ekki gleyma honum. En hvernig man þessi hv. þm. eftir almenningi í sambandi við húsnæðismálin? Það eru til lög um byggingarsjóð kaupstaða, og samkvæmt þeim lögum á að leggja helming af tekjum tóbakseinkasölunnar til þessa byggingarsjóðs. En það er afnumið með bráðabirgðalögum, „bandorminum“ illræmda, á hverju Alþingi. Og ég vildi mælast til þess við hv. flm., sem ber svona mikla umhyggju fyrir byggingum í Reykjavík, að hann myndi eftir þeim, þegar „bandormurinn“ kemur til atkvgr., og legði sitt lið til að fella ákvæði 3. gr. og sjá til, að hægt sé að byggja verkamannabústaði. Alþýðan hefir einmitt barizt fyrir því, að finna möguleika til að byggja þannig, að húsnæðið yrði ekki eins dýrt.

Hvernig er séð fyrir því, að fólkið fái að búa ódýrt? Er það iðnlöggjöfin, sem gerir það erfiðara? Nei, heldur er það Alþingi á síðustu 5–6 árum, sem hefir með sérstökum lögum afnumið lögin um verkamannabústaðina að nokkru. Ef þingflokkur Framsfl. vill hugsa um útlitið í Reykjavík, og þá húsnæðið og byggingar, þá ættu þeir fyrst og fremst að endurskoða gaumgæfilega afstöðu sína í þessu máli. Ef á að lækka húsaleiguna í Reykjavík, verður það aðeins gert með því að byggja ódýrt og við hæfi alþýðunnar, og það er það, sem með verkamannabústöðunum hefir verið stefat að. Það kemur alltaf út á það sama, það er ekki iðnlöggjöfin, sem dregur niður, heldur er það atvinnuleysisástandið og framkoma Alþingis og jafnvel sérstaklega Framsfl., eins og í sambandi við þetta mál.