04.05.1938
Efri deild: 61. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

99. mál, iðnaðarnám

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Eins og frv. þetta var upphaflega borið fram hér á Alþ., var það bein árás á iðnaðarmannasamtökin. Að vísu hefir það lagazt dálítið í meðferðinni í hv. Nd., en þó er það afleitt eins og það er enn, þrátt fyrir lagfæringarnar. Þær skemmdir á l. um iðnaðarnám, sem í frv. felast, eru aðallega þessar: Í fyrsta lagi, að réttindi iðnráðs eru afnumin í veigamestu málunum og í stað þess settir iðnaðarfulltrúar, sem eru skipaðir af atvmrh. eftir tilnefningu iðnn. Alþ. og þar með raunverulega kosnir af iðnn. Alþ., þ. e. a. s. þeir verða fulltrúar stjórnmálaflokka, sem valdir eru af pólitísku handahófi og mikil hætta er á að skorti bæði þekkingu og velvilja í garð iðnaðarmanna. Hér er verið að fara inn á hættulega braut, sem sé að færa meðferð þessara mála úr höndum fulltrúa þeirrar stéttar, sem hlut á að máli og hljóta að hafa mestan áhuga fyrir og þekkingu á málinu. Þetta er hættuleg braut. Og því skyldi ekki mega gera ráð fyrir,

að brátt verði þessum aðferðum beitt gegn öðrum stéttum en iðnaðarmönnum? Þetta er fyrsta atriðið.

Í öðru lagi eru sveinafélögin svipt með þessu frv. því valdi, sem þau hafa samkv. núgildandi l., til að hafa eftirlit með námssamningum og hlutfallinu milli sveina og nema í iðninni og eftirlit með samningum milli félaga í iðninni. Það, sem er einna athyglisverðast í frv., fyrir utan allt þetta, er hroðvirknisbragurinn á öllu frv. og hve vanhugsað það er, eins og von er til, þegar menn með nauða litla þekkingu á þessum málum hlaupa til og raska heilu kerfi, sem nýbúið er að stofna. Ég vil nefna sem dæmi úr 1. gr. frv., að þegar um skriflegan námssamning er að ræða, skal hlutaðeigandi lögreglustjóri rita á samninginn vottorð sitt um, að hann sé samkvæmt fyrirmælum laga þessara, og ennfremur skulu iðnaðarfulltrúar rita á hann vottorð sitt um, að hann fullnægi þeim skilyrðum, er þeir hafa komið sér saman um að setja um slíka samninga. Þetta þýðir, að námssamningur er ekki tekinn gildur, og hlutaðeigandi mönnum þýðir ekkert að gera samning, ef þeir uppfylla ekki þau skilyrði, sem iðnaðarfulltrúarnir setja, alveg eftir sínum geðþótta. Það er fram úr skarandi vanhugsað af flm. þessa frv. að ætlast til, að annað eins og þetta verði sett í l.

Hugsunin með þessu frv. er sú, að mér skilst, að afstýra því, að sveinafélögin í iðnaðinum geti takmarkað nemendafjöldann meira en góðu hófi gegnir. Ég býst nú við, að þeir hv. þm., sem að þessu standa, hafi alls ekki gert sér það ljóst, hvílíkt þjóðþrifastarf sveinafélögin hafa unnið með því að hafa eftirlit með þessum málum. Án eftirlits sveinafélaganna með þessum málum myndu nemendurnir vera notaðir takmarkalaust sem ódýrt vinnuafl, en gætu hinsvegar sáralítið lært af þeirri iðn, sem þeir eiga að vera að læra, af því að allt of fáir sveinar væru til að kenna þeim. Þegar um það er að ræða að takmarka nemendafjöldann í iðnunum, þá er að fara eftir þeirri reglu, að tryggja verður það, að hlutfallið milli sveina og nemenda sé þannig, að nemendunum sé í raun og veru tryggð kennsla í iðninni, en að ekki sé hægt að nota þá sem ódýrt vinnuafl án þess að kenna þeim iðnina, eins og tíðkazt hefir í iðnaðinum hér á landi í stórum stíl, áður en sveinafélögunum auðnaðist að kippa þessu í lag með sínu eftirliti. Ef þessari reglu er fylgt um takmörkun nemenda, þá liggur það í augum uppi, hvílíkt þjóðþrifastarf sveinafélögin eru að vinna með þessu eftirlífi, og því á að tryggja þeim þennan rétt með l.

Við þessa reglu hafa sveinafélögin í iðnaðinum yfirleitt reynt að halda sér, og svo lengi. sem sveinafélögin halda sér við þessa reglu, misbeita þau ekki því valdi, sem þau nú hafa samkv. núgildandi iðnaðarlöggjöf. Það er áreiðanlega auðvelt að komast að samkomulagi við sveinafélögin, sem útiloka alla misbeitingu á þessu valdi þeirra; á því er ekki nokkur vafi. Ég veit, að þeir flokkar, sem hafa mest fylgi meðal iðnaðarmanna, en það eru verkalýðsflokkarnir, kommfl. og Alþfl., vilja skilyrðislaust beita sér fyrir því, að þessu valdi sé á engan hátt misbeitt. Og ég veit, að sveinafélögunum hefir verið og verður það meira og meira ljóst, að þessari reglu beri að fylgja, og þeirri reglu munum við fylgja í framtíðinni.

En ef Alþ. væri það kappsmál að vilja útiloka allt handahóf í þessum málum, þá ætti að fara allt aðrar leiðir en hér hafa verið farnar, þá ætti að setja l. um hámarkstölu nema í hlutfalli við sveina svo að trygging fengist fyrir því, að nemendunum væri kennd iðnin, og jafnframt l. um lágmarkskaup iðnnema, sem tryggði það, að ekki væri hægt að nota nemendurna sem féþúfu fyrir meistara í stað þess að kenna þeim. Ef slík l. væru samþ., þá væru náttúrlega þessi afskipti sveinafélaganna ekki nauðsynleg, nema til eftirlits með því, að l. væru haldin.

Frv. þetta er að mínum dómi, þrátt fyrir þær lagfæringar, sem á því hafa verið gerðar, svo mikið vansmiði, að ég vildi helzt, að hv. dm. sæju sóma sinn og Alþ. í því, að láta það daga uppi, en til hv. iðnn. vildi ég beina þeirri áskorun, að taka það a. m. k. til alveg sérstaklega rækilegrar meðferðar.

Ég mun svo bíða eftir álíti n. og þeim till., sem frá henni kunna að koma, áður en ég ber fram brtt. við þetta frv.