10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

138. mál, mæðiveiki

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Eg skal fyllilega kannast við, að ég hefi hafið ádeilur hér, en ég vil biðja hv. þm. að minnast þess, um hvað deilan snýst. Ég vil, að við vitum, við hvað við erum að glíma, hvaða sjúkdómur er hér á ferð. Ég stend alveg á öndverðum meiði við þá vísindamenn í landinu, sem um málið hafa fjallað. Meina ég þá aðallega rannsóknarstofu háskólans. Þeir halda því fram, að hér sé um nýjan sjúkdóm að ræða, en svo neita þeir í öðru orðinu því, sem þeir játa í hinu. Á því er svo allt byggt. Á svo veikum grundvelli er allt byggt, enda eru allar þeirra rannsóknir eins og spilaborg, sem hrynur, ef við hana er komið. En það þarf ekki íslenzka vísindamenn, sem ekkert vita, til þess að rannsaka það, að þessi veiki er „Jagziekti“. Það staðhæfi ég. Ég er sannfærður um, að þessi lungnapest er sami sjúkdómurinn og þekktur er um allan heim og nefnist á fagmáli „Hæmorrhagisk septicæmi“, og ég þori að taka á mig ábyrgðina á því, að kasta burt allri spilaborginni, öllum girðingunum, því að þær eru gagnslausar og munu verða það til eilífðar. Þessi veiki hefir verið landlæg norðanlands a. m. k. þau 28 ár, sem ég hefi starfað sem dýralæknir. Er mér þetta mál nokkuð kunnugt, og þurfti ég ekki að vera nema hálfan mánuð norður í Húnavatnssýslu í fyrra til þess að sjá, hvers kyns var.

Það er ákaflega mismunandi, hvað fé er móttæklegt fyrir þessa veiki. Sumir stofnar eru lítt móttækilegir. Veikin kemur fyrir bæði í kindum og svínum, og er svo skyld í þeim að svín geta smitað kindur og kindur svín. Eru það einkanlega svínastofnar, sem hafa verið rannsakaðir.

Nú hoppa menn hér upp og segja, að komin sé tilkynning frá rannsóknarstofu háskólans um, að mýs hafi smitazt líka. Þetta er þekkt fyrir tugum ára, og er bakterían í sauðfé og músum einnig af sama stofni. En hvað þýðir að koma með svona vísindi fyrir ykkur? Þið trúið mér ekki. Þó heyrði ég mér til ánægju, að þeir tveir hv. þm., sem hér höfðu orðið síðast, töluðu um þetta með viti og sanngirni. Ég veit ekki, hvort þetta er mér að þakka, en ég verð að halda, að þeir hafi séð einhvern glampa af þeim kyndlum, sem ég talaði um, að ég ætlaði að bregða upp.

Hv. frsm. landbn., hv. þm. Mýr., var að tala um, að n. þætti rétt að halda áfram þeim tilraunum, sem fram hafa farið í Heggstaðanesi, til að fá úr því skorið, hvort land, hús eða hey smiti. Það er ákaflega gott að fá að vita þetta. Í Heggstaðanesi er allt smitað fyrirfram. Bakterían er sérstaklega bundin við ryk í jörð, myglu í heyjum og annað þess háttar. Það eru skiptar skoðanir um það í heiminum, hvort veikin sé smitandi, nema sýkillinn komist inn í líkama skepnunnar og magnist þar. Þetta er mjög veigamikið atriði í þessu máli og bendir til þess, að girðingarnar hafa litla þýðingu. Og ef mýs eru nú farnar að smitast af kindum er hætt við, að girðingarnar þurfi að vera nokkuð þéttar.

Hv. frsm. spurði, hvers vegna ég hefði ekki komið með neinar upplýsingar um, hvernig eigi að stöðva veikina. Að þessu hefir hann aldrei spurt mig fyrr, og hefi ég þó setið hér á tveimur þingum. Hv. frsm. landbn. hefir aldrei sýnt mér þá virðingu, að kalla mig á fund, þótt ekki hefði verið nema rétt fyrir kurteisissakir. Þetta er svarið við því. hvers vegna ég hefi aldrei látið ljós mitt skina fyrir honum eða þessari hv. landbn.

Hv. frsm. kom inn á fækkunina og þótti ég hafa farið þar allgeyst. En ég var bara að píska n. með sinni eigin svipu og las upp úr hennar eigin grg., enda þótt ég hafi vitað fyrirfram, að sú fækkun, sem slegið er fram í blöðunum, er meira og minna ýkt. Mæðiveikin sjálf drepur örfáar kindur, og nú er komið á daginn, að fjöldinn af fénu er farið að læknast, og er það ekkert annað en sönnun á mínum málstað.

Hv. þm. kannaðist við, að það hefði orðið mörg mistök hjá þessum svokölluðu vísindamönnum hér á landi. Það er gott, að hann kannast við þetta. En það er sama, hvaða vitleysu þeir gera, það á samt að byggja alla þessa spilaborg á þeim. Ég hefði ekki þurft að koma með nema eina af þessum vitleysum til þess að verða dauðadæmdur.

Hv. þm. sagði, að það væri hægt fyrir mig að deila á n., en ráða henni svo ekkert um það, hvernig hún skyldi haga framkvæmdum. Hún hefir ekki spurt mig ráða í einu né öðru. Ég verð þó að segja hæstv. forsrh. til hróss, að hann hefir boðið mér að fara utan og halda mínu máli fram þar, sem rétta aðilja væri að finna til þess að skera úr. Hefi ég hugsað mér að leggja málið fyrir erlenda háskóla, og vona ég, að hv. þm. líti öðrum augum á það á næsta þingi.

Ég hefi aldrei farið fram á að fá fé til minna rannsókna á þessu sviði, enda á það að vera þannig. Ef menn bera traust til sinna embættismanna, er það ríkisvaldsins að spyrja, hvort þeir vilji gera þetta og þetta. En að ég eigi að koma skriðandi og segja: Viljið þið leyfa mér að gera þetta eða hitt — það á ekki við mig. Ég er ekkert skriðdýr og held minni sannfæringu í þessu máli eins og öðrum.

Hv. 2. þm. Skagf. talaði mjög hógværlega um þetta mál, eins og ég átti von á af honum. Ég veit, að hann er lítt trúaður á þessar ráðstafanir, sem gerðar eru, þótt hann af öðrum ástæðum sé neyddur til að láta eitthvað af hendi rakna. Ég get skilið það sjónarmið. Menn eru hræddir við fólkið. Þeir vita ekki betur en þetta og byggja á röngum forsendum þeirra manna, sem gefa sig út fyrir spekinga hér á landi. Hv. þm. sagðist vera á móti niðurskurði, og virði ég það við hann. liðurskurðurinn er voðalegri en girðingarnar, en ber að sama brunni. Það hafa verið sett upp feiknin öll af girðingum, en alstaðar hefir veikin komið upp fyrir utan þær. Þess vegna segir n., að verði nú að setja upp nýjar girðingar og þær fara vitanlega eins. Á sama hátt myndi fara með niðurskurðinn. Veikin myndi koma upp fyrir utan þau svæði, þar sem skorið væri niður, og þannig mætti halda áfram þar til síðasta kindin væri farin. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Skagf. tók fram í samanburðinum á niðurskurðarbaráttunni hér á árunum, þegar fjárkláðinn geisaði. Þá skiptust menn í tvo flokka, sumir vildu niðurskurð, en aðrir voru fylgjandi lækningum, og var Jón Sigurðsson þar einna fremstur í flokki. Og hvernig lyktaði þeirri baráttu? Nú fer enginn maður að skera niður fé í stórum stíl vegna kláða. Sama má segja um þessa veiki, sem hér um ræðir, hvað útlönd snertir. Þar dettur engum í hug að grípa til niðurskurðar hennar vegna. Menn nota bólusetningu. Og það mundi ég gera, ef mér væri falið að gera nokkuð í þessu máli. Ég mundi kenna mönnum að varast sýkina. Ég geri ráð fyrir, ef ég fer utan á næstunni, muni ég koma heim með nokkur tilraunaefni, sem notuð eru í Danmörku og Þýzkalandi, og freista þess að fá að sprauta í nokkrar kindur.

Ég hefi ekki verið örlátur á mín vopn handa mótstöðumönnum mínum. Ég veit, að þeir hafa gengið svo langt að reyna að sverta okkur dýralæknana bæði með lognu og sönnu, þannig að við höfum hvorki verið álitnir alandi eða ferjandi á þessu landi.

Baráttuaðferð okkar dýralæknanna gegn lungnapestinni er í stuttu máli þessi: Í fyrsta lagi að láta menn vita, hvað er á ferðinni. Í öðru lagi, hvað beri að varast, og hvernig skepnurnar geti fengið veikina. Það er vitað um allan heim og byggt á rannsóknum frægra vísindamanna, að það er sérstök baktería, sem veikinni veldur, og að hún er einkanlega bundin við ryk og myglu í heyjum. Þess vegna hafa menn sótthreinsað húsin á einfaldan hátt, t. d. þvegið garðana með 3% sterku sódavatni og hellt því í gólfin til þess að binda rykið. Myglað hey er gott að bleyta, rétt eins og þegar um heyveika hesta er að ræða. Auk þessa er ýmislegt annað, sem veikir mótstöðuaflið hjá kindunum, eins og t. d. illt tíðarfar, hrakningar og annað slíkt. Þá eru fjárstofnarnir mjög misjafnlega móttækilegir fyrir veikina. Það er „disposition“ fyrir hana hjá sumum stofnum, en hinsvegar ekki hjá öðrum.

Ef ekki er hægt að fyrirbyggja veikina með þessu móti, sem nú hefir verið talið, geta menn fengið bóluefni og sprautað í kindurnar. Það gera menn venjulega erlendis fyrst, til þess að fyrirbyggja veikina, og eins þegar veikin er farin að drepa, þá er bóluefni notað, sterkara en hitt, til þess að lækna veikina. Mesta kúnstin er að kveða niður þann draug, sem búið er að vekja upp hér á landi, og losa fólk við þá hræðslu, sem gerir aðalóskundann í þessu máli.