11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

138. mál, mæðiveiki

Páll Zóphóníasson:

Það eru bara tvö atriði, sem ég þarf að svara. Annað er það, að mér skildist á hv. þm. Dal., að hann telja, að girðingin á milli Kollafjarðar og Ísafjarðar gæti komið síðar, ef nauðsynlegt þætti. Ég er alveg á móti þessu. Í þessu sambandi vil ég segja frá því, að við girtum í fyrravor fyrir Snæfellsnes. Ég maldaði í móinn og sagði, að við þyrftum að fara utar með girðinguna, veikin gæti verið komin lengra út á Nesið. Veikin hefir komið upp þar. Ég veit, að það er hægt að setja upp girðingu til að verja eitthvað af fé, sem er þar fyrir utan, en það er vitað, að fjársamgöngur hafa verið fram allt Snæfellsnes, allt til Ólafsvíkur, svo það mætti fara alllangt fram á nesið til að vera fyrir utan veikina. Það, sem ég vil segja, er það, að nú er ástæða til að reisa línuna frá Kollafirði til Ísafjarðar, áður en ástæða er til að ætla, að veikin sé komin yfir það svæði, en ekki að gera það þegar fleiri og færri kindur eru búnar að fara þar yfir. Það er þess vegna misskilningur, að vilja ekki byrja strax á girðingunni, og mun ég verða með brtt. hv. 11. og 10. landsk., um að láta hana koma inn í 5. gr.

Viðvíkjandi fjárskiptunum vil ég segja það, að þegar hv. 6. landsk. er að tala um þá deilu, sem stendur milli dýralæknanna og rannsóknarstofu háskólans, vil ég fyrst og fremst benda á það, að 2 dýralæknar eru rannsóknarstofunni sammála, og það eru þeir, sem mest hafa fengizt við að rannsaka veikina. Hinir eru á annari skoðun, og þeim virðist hv. þm. vinveittari.

Hv. þm. talaði um, að veikin gæti komið upp hvar sem vera skyldi á landinu og jafnvel í mínu kjördæmi. Því í ósköpunum vill hv. þm. þá vera að girða og við hafa aðrar varnir til heftingar útbreiðslu veikinnar, fyrst hún getur alstaðar komið þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir?

Annað hvort er að halda sér við það, að þetta sé sérstök veiki, sem eingöngu sé á þessu vissa svæði, og ekki annarsstaðar, eða þá að segja, að þetta sé gömul, landlæg veiki, og vera þá ekki með neinar varnir. Undir öllum kringumstæðum verðum við að vera sjálfum okkur samkvæmir.

Vildi ég benda hv. þm. á, að ef maður hefir sagt a, þá verður maður líka að segja b.