02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

34. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti! Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 37, um breyt. á l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, miðar að því að draga nokkuð úr þeim kröfum, sem verið hafa í l. um fjölda yfirmanna á skipum. Ég vil benda á, að í grg. frv. er gerður samanburður á tölu stýrimanna og vélstjóra samkv. núgildandi l. og frv. þessu. Þar er það sérstaklega tilgreint, að samkv. l. er þess nú krafizt, að fiskiskip, sem eru yfir 300 rúmlestir, hafi tvo stýrimenn, en í frv. er gert ráð fyrir, að þess sé þá fyrst krafizt, þegar skip er 500 rúmlestir eða meira.

Að því er snertir tölu yfirmanna við vél, þá er þess nú krafizt, að eimskip, sem hefir 500 hestafla vél eða þar yfir, hafi 3 vélstjóra, en samkv. þessu frv. er lagt til, að vélstjórar séu þá tveir, þar til um skip er að ræða sem eru 1200 hestöfl, en ef skip er jafnframt farþegaskip, þá er gert ráð fyrir aðstoðarvélstjóra.

Þá er í frv. ákvæði um, að fiskiskip og bátar upp að 30 rúmlestir, sem leggja afla sinn daglega á land, skuli undanþegin ákvæði um stýrimann, en um þetta hafa komið fram óskir frá mörgum bátaútgerðarmönnum. Ennfremur er gert ráð fyrir því, að fiskiskip og bátar, sem koma daglega að landi með afla sinn og ern nú skyldir til þess að hafa undirvélstjóra, skuli aðeins hafa aðstoðarmann við vélina. Þá er í grg. frv. getið nokkuð um þau ákvæði um þessi efni, sem eru í l. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og við samanburð sést, að þrátt fyrir það, þótt í þessu frv. sé nokkuð dregið úr þeim kröfum, sem nú eru um fjölda yfirmanna á skipum, þá er þó gert ráð fyrir fleiri réttindamönnum hér en lögboðið er hjá nágrannaþjóðunum. Á flokksþingi framsóknarmanna 1937 var gerð samþykkt um, að endurskoðuð yrðu l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum og þess gætt að íþyngja sjávarútveginum ekki um of með kröfum um mannahald, sem ekki er alveg bráðnauðsynlegt vegna öryggis sjófarenda, og jafnframt að þess yrði gætt að miða kröfur um mannahald og aðbúð á íslenzkum skipum við þær kröfur, sem nágrannaþjóðirnar gera að því er þeirra skip snertir, sem íslenzk flutninga og farþegaskip þurfa að keppa við. Frv. um þetta efni var flutt á fyrra þinginu 1937 af hv. þm. Barð., en varð ekki útrætt. Er það því lagt fyrir Alþ. á ný, og væntum við flm. þess, að málið geti fengið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Ég vil óska þess, að málinu verði, að lokinni

þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.