07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

28. mál, rekstrarlánafélög

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. Mest af þessari ræðu kom alls ekki þessu máli við, og ég gaf ekkert tilefni til þeirra ummæla, er hann lét falla. Ég hefi alls ekki á móti því, að útvegsmenn hafi félagsskap um þá hluti, sem frv. fjallar um, og ég sagði ekki orð um, að þeir ættu að snúa sér til samvinnufélaga þeirra, sem nú eru á hverjum stað, en ég held því fram, að þetta frv. sé með öllu óþarft fyrir útvegsmenn, því að þeir geti myndað félagsskap um þær framkvæmdir, sem hér um ræðir, án þess að nokkur ný l. séu sett. Ábyrgðinni geta þeir hagað eftir því, hvort þeir mynda samvinnufélög eða hlutafélög. Þeir geta alveg eins myndað hlutafélög til að hafa þessi mál með höndum, ef hv. 6. þm. Reykv. þykir það eitthvað betra.

Ég er þeirrar skoðunar, að við höfum nóg annað með tíma þingsins að gera en að fjalla um slíka hluti sem þetta.