23.02.1938
Sameinað þing: 4. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

1. mál, fjárlög 1939

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af sjálfu frv. og þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti, vil ég segja það eitt, að afstaða Alþfl. til frv. mun að sjálfsögðu koma fram við till. þær, sem hann mun gera í hv. fjvn. og við síðari umr. hér á þingi. Ég geri einnig ráð fyrir, að þegar síðari umr. fara fram, þá verði séð, hvort samkomulag kemst á milli Alþfl. og Framsfl. um áframhaldandi samvinnu, og þeir sem eru óþolinmóðir eftir að fá að vita um þetta, verða að sætta sig við að bíða, því að um þetta eru engir samningar til enn, en ég geri ráð fyrir, að séð verði út um það við siðari umr.

Þó eru tvö atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég get ekki látið hjá líða að drepa á.

Annað er það, að hann sagði, að nú væri ekki nema tvennt til að því er snertir framlög til vegamála, annaðhvort að hækka benzínskattinn eða að færa aftur í tölu sýsluvega eitthvað af þjóðvegunum. Í því sambandi vil ég taka það fram, að Alþfl. mun ekki eins og nú er ástatt geta fallizt á, að benzínskatturinn sé hækkaður. Ég tel, að endurskoða þurfi skattalöggjöfina í heild. Og að því er snertir framlagið til fiskimálanefndar, 135 þús. kr., þá taldi hann, að þingið hefði ekki gert ráðstafanir til að mæta þessu. Þetta er ekki rétt, því að í eldri l. er heimild til lántöku í þessu skyni, 1 millj kr., sem hefir ekki verið notuð nema um 8–900 þús. kr.

Um fjárlfrv. í heild vil ég segja, að ég tel þar í meginatriðunum stefnt í rétta átt. Langmestur hluti útgjaldanna er þar, eins og í núgildandi fjárl. ætlaður til þess að halda uppi verklegum framkvæmdum í landinu, sem miðar að því að skapa verðmæti í landinu og bæta þar með afkomu atvinnuveganna, og jafnframt er miðað að því að draga úr atvinnuleysi í landinu, sumpart með beinum stuðningi til atvinnuveganna, sérstaklega þeirra, sem við mikla örðugleika hafa átt að stríða, og til þess að hindra, að þeir stöðvist og það fólk, sem atvinnu hefir haft við þá, verði að leita í aðra staði. Ég tel, að þessi meginsvipur fjárl. sé í samræmi við það, sem ég álít rétt, þó að ég telji að sjálfsögðu rétt að athuga, hvort ekki sé hægt að ganga lengra. Séstaklega vil ég þar benda á, að nauðsynlegt væri að hafa meira fé til umráða til byggingar verkamannabústaða, bæði til að auka atvinnu og eins til að bæta úr því óþolandi húsnæðisástandi, sem verkalýðurinn á við að búa. Á sama hátt get ég tekið undir það, sem hv. 1. landsk. sagði, að ég tel, að nauðsyn beri til að athuga, hvort ekki sé hægt að smíða báta hér innanlands til endurnýjunar vélbátaflotanum.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeirri tiltölulega glöggu skýrslu, sem hæstv. fjmrh. gaf hér um stofnun nýrra fyrirtækja síðustu 15–17 árin. Ég tel mikilsvert, að þessi skýrsla hefir fengizt. Hún sýnir glögglega viðleitni þriggja síðustu ára og gefur skýringu á mörgum þeim örðugleikum, sem við eigum við að búa.

Hv. 4. landsk. og hv. 1. landsk. gerðu sér mjög tíðrætt um þá atburði, sem gerzt hafa í Alþfl. nýlega. Á ég þar við brottvikningu hv. 3. þm. Reykv. úr Alþfl. Hv. 4. landsk. þm. taldi, að ástæðan til þess, að sambandsstjórnin taldi sig neydda til að gera þessar ráðstafanir, hefði verið sú, að Framsfl. hefði sett það fram sem skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamvinnu. Þessu mótmæli ég og upplýsi, að þetta eru tilhæfulaus ósannindi. Engar slíkar kröfur hafa komið fram af hendi Framsfl., enda hefði þeim fullkomlega verið vísað á bug af Alþfl., þótt fram hefðu komið, enda veit ég ekki betur en að hv. 3. þm. Reykv. hafi á undanförnum árum verið einn af þeim, sem hafa gengið frá samningum við Framsfl. og ekki verið þar neinn ásteitingarsteinn. Ég hirði ekki að greina frá því hér, hvaða ástæður til þess liggja, en mun gera það á öðrum vettvangi. En í sambandi við spádóma hv. 4. landsk. og hv. 1. landsk. get ég ekki stillt mig um að minna á hið fornkveðna, að „svo mæla börn sem vilja“. Hv. 4. landsk. fullyrðir, að með hv. 3. þm. Reykv. fylgi allt kjósendalið Alþfl. og muni það sýna sig á næsta sambandsþingi. Þar muni hann verða kosinn forseti flokksins, en þeir, sem nú eru þm. hans, hrökklast þar út. Svo mæla börn sem vilja. En að því er þennan hv. þm. snertir, þá er þetta vel skiljanlegt. Það er eins og mig minni, að það hafi skeð fyrir ekki svo löngu síðan, að nokkur hluti klofnaði úr Framsfl. Og þá fullyrtu þeir, sem frá klofnuðu, að allir kjósendur landsins væru með sér. Það vantaði ekki hávaðann, það vantaði ekki spádómana, að þeir réðu öllu, en hinir væru gersamlega fylgislausir. Það er því eðlilegt, að hann fyllist nú samúð með klofningsmönnum eins og þessum. Raunin hefir samt orðið sú um þessar miklu vonir og stóru spár, að þær rættust þannig, að gengi Bændafl. er nú ekki meira en það, að þeir bíða utan gátta ennþá eftir því, hvort Sjálfstfl. vilji taka við þeim. Ég skal ekki spá, hver niðurstaðan verður af þeim klofningi, sem nú er því miður í Alþfl., það mun tíminn leiða í ljós. En ég get vel skilið, að íhaldsmenn og þeir, sem sækja fast að komast í þeirra félagsskap, séu glaðir og hlakki yfir þessum tíðindum, eins og hv. 4. landsk. sagði, að línurnar mundu skýrast stjórnarfarslega, ef Alþfl. yrði að engu og risi upp hálfkommúnistískur flokkur. Ég get vel trúað, að þetta sé ósk hans, og svo mæli börn sem vilja.

Ræðu hv. 1. þm. Reykv. sé ég í raun og veru ekki mikla ástæðu til að svara að öðru leyti en því, að hann vildi telja, að allt starf fiskimálanefndar væri óþarft og til ills. Hann vildi bera fram því máli til sönnunar, að saltfisksmarkaðurinn í Suðurlöndum hafi unnizt fyrir atbeina einstakra manna, án þess að ríkið hefði nokkuð unnið þar að. Nokkuð er til í því. En hvernig stendur á því, að þessir ágætu menn halda ekki áfram að vinna þessa markaði enn þá? Hvað veldur? Ástæðan er sú, að tímarnir eru svo ólíkir, að það er á engan hátt saman berandi. Við verðum að viðurkenna, að nú væri með öllu óhugsandi, bæði fyrir saltfisksútflytjendur og aðra, að vinna markaði á sama hátt og þá. Nú eru margskonar hömlur á viðskiptum, sem gera slíkt ómögulegt, fyrir utan borgarastyrjaldar og gjaldeyrisskort í hlutaðeigandi löndum. Þess vegna er ókleift að halda markaðnum við, hvað þá að auka hann. Þetta ætla ég, að hver nokkurnveginn meðalgreindur maður hljóti að skilja. Á síðasta ári hefði enginn mannlegur máttur megnað að selja frá Íslandi til Spánar eins mikið fiskmagn og þangað var selt, áður en markaðurinn þar fór að þrengjast. Og enginn hefði heldur getað haldið sama markaði á Ítalíu og áður né komizt hjá skilyrðum stjórnarinnar þar um jafnaðarkaup. Þess vegna var brýn og óhjákvæmileg nauðsyn að brjóta nýjar leiðir, og þar sem ekki var hægt að gera slíkt án stuðnings frá því opinbera, beitti fiskimálanefnd sér fyrir þessu með mikilli rögg. Og árangurinn hefir orðið sá, að á árinu 1931 eru fluttar út úr landinu nýjar framleiðsluvörur fyrir 31/2 millj. kr., langmest sjávarútvegsvörur, en árið 1933 voru þessar vörur fluttar út fyrir aðelns 107 þús. kr. Ég játa, að þessi upphæð er ekki ákaflega há, ef miðað er við saltfiskssöluna áður, en hér er um markað að ræða, sem erfitt er að vinna upp. Einnig hefir orðið stórmikil aukning á síldveiði og síldariðnaði í landinu. Þetta er ástæðan til þess, að hægt hefir verið að ná þeim greiðslujöfnuði, sem raun hefir á orðið.

Mér heyrðist á hv. 4. landsk., að hann væri hissa á, hvað sjávarútvegurinn ætti við erfiðan hag að búa, og vildi hann kenna skeytingarleysi og óvild núverandi ríkisstj. um. Ég verð að segja, að mig furðar, að nokkur maður skuli leyfa sér að bera slíkt fram. Hvernig ætli búskapurinn hefði gengið hjá honum heima í Fagraskógi, ef tvær ær af hverjum þremur hefðu orðið lamblausar og til viðbótar hefðu verið þurrar tvær kýr af hverjum þremur, sem hann átti? Hvernig myndi sá búskapur hafa komið til með að líta út? Hefði það kannske verið óvilja stjórnarvaldanna að kenna, þó að þröngt hefði orðið fyrir dyrum hjá þessum manni? Ég segi nei og aftur nei. Annars er það alveg sama, hvernig háttv. stjórnarandstæðingar hrópa, því verður aldrei með rökum neitað, að stjórnarflokkarnir hafi gert það, sem þeim frekast var unnt til þess að styrkja atvinnuvegina. Þannig var t. d. á síðasta þingi ekki veitt minna en 1–1,2 millj. til styrktar sjávarútveginum einum. Aðalskoðanamunurinn á milli okkar hv. 1. þm. Reykv. liggur í því, að hann telur, að slá eigi niður kaupgetu fólksins, en ég tel, að þvert á móti eigi að efla hana eftir föngum, m.a. til stuðnings atvinnuvegunum, því að fólk, sem enga kaupgetu hefir, getur ekki keypt framleiðslu framleiðendanna.

Hvað snertir ræðu hv. 1. landsk., þá verð ég að segja það, að hún var að mörgu leyti lítt eða óskiljanleg. Hann sagði meðal annars, að taka ætti fé hjá þeim, sem rækju taprekstur með aðstoð bankanna. Ég held, að það myndi reynast erfitt að ná miklu hjá þeim mönnum. Þá var það, hvort hann vildi, að stjórnin héldi áfram að vinna sem vinstri stjórn eða ekki. Það, sem helzt virtist hægt að fá út úr orðum hans var, að hann vildi hafa vinstri stjórn, sem stjórnaði eftir hans vilja og hans nótum. En hv. þm. veit það ofurvel, að slíka stjórn er ekki hægt að mynda.

Þá fór hv. þm. allmörgum orðum um Alþfl. og forystumenn hans og kallaði m. a. forseta Sþ. klofningsmann, en rök fyrir því gat hann að sjálfsögðu ekki fært, sem ekki var heldur von, því að honum er eins vel kunnugt um það eins og mér, hvernig gangur þessara mála hefir verið á undanförnum mánuðum. Hann getur ekki þrætt fyrir það, hv. þm., að á síðasta Alþýðusambandsþingi voru kommúnistum boðin mjög aðgengileg sameiningartilboð, en þau strönduðu m. a. á því, að þar mátti ekki standa, að hinn sameinaði flokkur vildi vinna á grundvelli „lýðræðis og þingræðis“. Hefði það ekki vakað fyrir kommúnistum, að þeir ætluðu sér að vinna á öðrum grundvelli, þá hefðu þeir eflaust gengið að sameiningartilboðinu vegna þessa ákvæðis. Hitt ákvæðið, sem aðallega strandaði á, var, að þessi hv. þm. heimtaði, að í samningunum stæði, að flokkurinn skyldi alltaf verja allt, sem stjórnin í Rússlandi gerði, hvað svo sem það væri, hvort sem það væru aftökur manna án dóms og laga eða annað. Þessi tvö atriði, sem ég nú hefi nefnt, voru meginatriðin, sem samningarnir strönduðu á, en auk þeirra voru svo ýms smærri atriði. Þrátt fyrir þetta kemur þessi maður svo fram hér og hrópar til fólksins, að hann sé hinn eini og sanni vinur alþýðunnar, sem vilji vinna að því að sameina hana í einn flokk. Hann, sem er sá mesti óhappamaður, sem alþýðan hefir átt, bæði hvað snertir þetta sameiningarmál hennar og fjölda mörg önnur, — því, sem hv. þm. sagði um frv. til vinnulaga, læt ég ósvarað nú, enda var flest, sem hann sagði um það mál, fjarstæða ein, — já svo mikil fjarstæða, að ég finn ástæðu til þess að vara þá hv. alþýðuflokksmenn úti um land, sem á mál mitt hlýða nú, við því, að taka hátíðlega það, sem þm. sagði. — Þá sagði hv. þm. ennfremur, að krafa um kauplækkun myndi sennilega koma fram mjög bráðlega, ef ekki beinlínis, þá dulbúin í gengislækkun. Ég skal viðurkenna, að það munu vera uppi raddir um þetta, en eins og nú standa sakir, mun ekkert um þetta þurfa að óttast, hinsvegar þykir mér sennilegt, að ef samvinna núverandi stjórnarflokka slitnaði, þá myndi eitthvað slíkt verða ofan á.

Ég get svo látið máli mínu lokið í þetta sinn.