09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sveinbjörn Högnason:

Ég skal ekki mikið lengja umræður á þessu stigi málsins, en áður en það fer til n., tel ég nokkurs virði að fá upplýsingar um sérstök atriði í sambandi við þetta mál, sem hv. 4. þm. Reykv. virðist vera orðinn ósammála sjálfum sér um, frá því sem hann var fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þess vegna vil ég beina örfáum fyrirspurnum til hv. 4. þm. Reykv., borgarstjórans ? Reykjavík.

Í blaði Sjálfstfl., Morgunblaðinu, segir um þetta lán 9. des. f. á. með leyfi hæstv. forseta: „Það eru ekki nema tæp 3 ár síðan erlendir fjármálamenn kváðu upp dóm um fjármálastjórn núverandi ríkisstjórnar og þeirra flokka, sem hana styðja. Sá dómur var á þann veg, að allir lánsmöguleikar ríkisins erlendis voru lokaðir við nef fjármálaráðherra Íslands, og við það situr enn þann dag í dag.

En Reykjavíkurbær á nú kost á milljónaláni erlendis, án minnstu íhlutunar ríkisins. Enga ríkisábyrgð þarf með láninu til hitaveitunnar. Það er traust hinna erlendu fjármálamanna á fjárstjórn bæjarins og því fyrirtæki, er lánið gengur til, sem veldur því, að Reykjavíkurbær fær þessi kostakjör á láninu til hitaveitunnar“.

Þetta skrifaði aðalmálgagn Sjálfstfl. hér í Reykjavík fyrir nokkrum mánuðum síðan. M. ö. o. var, að þess áliti. enginn möguleiki fyrir ríkið sjálft til að fá nokkurt lán erlendis, en Reykjavíkurbær átti kost á því fyrir sína góðu fjármálastjórn, eftir því sem hann óskaði. Nú vil ég spyrja hv. 4. þm. Reykv., eftir að hann er búinn að kynna sér þessa hluti erlendis, hvort það sé virkilega tilfellið, að það, sem haldið var fram í Morgunblaðinu 9. des., hafi reynzt algert öfugmæli, þannig að lánsmöguleikar séu fyrir hendi fyrir ríkið, en ekki fyrir Reykjavíkurbæ, — hvort það sé komið í ljós, að ríkinu sé opnir möguleikar til þess að fá lán. en eftir að hv. 4. þm. Reykv. hefir haft á hendi fjármálastjórn Reykjavíkur undanfarið hafi hann komizt að raun um, að lánsmöguleikarnir fyrir Reykjavíkurbæ séu lokaðir?

Ég tel það því réttara, að hv. flm. gefi upplýsingar um það misræmi, sem er á milli fullyrðinga Morgunblaðsins 9. des. og þess, sem nú er komið á daginn í þessu máli, sem hann virðist, um leið og hann flytur þetta mál fyrir þingið, gera tilraun til þess í grg. frv., að halda sér dauðahaldi í það, sem blað Sjálfstfl. í Reykjavík hélt fram 9. des., og vil ég spyrja hv. þm., hvað það þýðir. Þessi orð eru í byrjun grg. og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir að fram er komið frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að taka lán, á þskj. 344, þykir líklegt að tæplega verði hjá því komizt, að ábyrgðar ríkissjóðs verði um sinn krafizt fyrir lánum hingað til opinberra fyrirtækja, sem eiga að standa skil á vöxtum og afborgunum á erlendu fé“. Á að skilja þetta þannig, að hv. flm. áliti, að þessi lántökuheimild um að fá gjaldeyri erlendis torveldi nú lánsmöguleika fyrir Reykjavíkurbæ? Á að skilja þetta svo, að þar sem ríkið ætlar að taka lán. ekki aðeins til þess að standa skil á sínum skuldum, heldur einnig bæjarfélaga, þá sé það til þess að torvelda það, að aðrir geti fengið lán?

Frá mínu sjónarmiði, sem er ekki sérfræðingur í fjármálum og hefi ekki farið til erlendra fjármálamanna til lánsútvegana, horfir þetta þannig við, að það sé auðveldara fyrir bæjarfélög og fyrirtæki að fá lán erlendis, þegar komið er frv., sem er yfirlýsing um það, að frekar en að vanskil verði hjá ríkinu á greiðslum skulda, sem stofnað hefir verið til vegna opinberra framkvæmda, eigi að taka gjaldeyrislán til þess að geta staðið undir skuldunum, bæði vegna þeirra lána, sem ríkið hefir tekið, og þeirra lána, sem bæjarfélög eða aðrir hafa tekið til opinberra framkvæmda. Þess vegna vil ég, eins og ég gat um áðan, spyrja hv. 4. þm. Reykv. um, hvað þessi fyrsta málsgr. í grg. frv. eigi að þýða.

Það er von, að Reykjavíkurbúar biði með óþreyju eftir þessu fyrirtæki, eins og hv. flm. tók fram. Mig undrar það ekki. Það var svo lengi búið að lofa þessu, ekki sízt fyrir atbeina hv. flm., að það er ekki óeðlilegt, að þeir séu orðnir óþreyjufullir, sem trúðu því bezt, að hægt væri að gera þetta án nokkurrar aðstoðar og án þess að leita samvinnu við nokkurn annan. Ég vil spyrja hv. þm., hvað hafi valdið því, að nú þarf allt í einu á þeirri samvinnu að halda, og allir borgarar ríkisins eru beðnir um að standa í ábyrgð fyrir þessu láni til Reykjavíkurbæjar, sem eftir yfirlýsingu hv. flm. og blaðs Sjálfstfl. á að vera öllum fremri og slyngari í sinni fjármálastjórn.

Það er ekki nema eðlilegt, að menn, hvar sem er á landinu, biði með óþreyju eftir því, að þeim séu sköpuð stórkostlega bætt lífsskilyrði. Og í þessu sambandi má geta þess, að frá einum flokksbróður þessa hv. þm., hv. 10. landsk., kom brtt. við fjárl. um það, að ríkisstj. útvegi lán til þess að flytja rafmagn frá Sogsstöðinni til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar. Mér skildist að fólkið á þessu svæði eigi rétt á því, og að það geti verið stríðsundirbúningur og sparnaður á gjaldeyri, að þetta fólk geti fengið rafmagn, ekki sízt þegar ríkið er ekki alls fyrir löngu búið að ganga í ábyrgð fyrir 7 millj. kr. láni til rafvirkjunar fyrir Reykjavíkurbæ, sem hefir með því veitt sér mjög mikil þægindi, og rafmagnið frá Soginu er ekki notað nema að sáralitlu leyti, eins og kom bezt í ljós, þegar Sogslínan bilaði í vetur, því að þá varð Elliðaárstöðin ein að sjá fyrir rafmagnsþörf bæjarins. Mér virðist þurfa að athuga, hvort ekki er hægt að nota Sogsrafmagnið meira, og eins, í sambandi við till. hv. 10. landsk., sem gengur í svipaða átt og till. frá mörgum öðrum hv. þm., hvort ekki sé rétt að taka tillit til óska annara landsmanna en Reykvíkinga í þessum efnum, þegar landsmenn taka hvað eftir annað á sig ábyrgð fyrir milljónalánum til höfuðstaðarins eins.

Ég vil skjóta þessu fram, sem ég hefi hér sagt, vegna þess að málið mun eiga að fara til fjhn., og ég fyrir mitt leyti tel nokkru máli skipta, að hægt sé að fá skýr og ákveðin svör við þessu, sem séu laus við þá áreitni og það mont, sem komið hefir fram í sambandi við þessa lántöku hjá sjálfstæðismönnum.