09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Emil Jónsson:

Það er aðeins eitt atriði, sem mig langar til að minnast örlítið á, af því að hæstv. fjmrh. gaf mér tilefni til þess. Hann sagði, að ef þetta frv. yrði samþ., þá yrði sú ábyrgðarheimild, sem þar er veitt, að vera bundin við það, að sú virkjun yrði framkvæmd, sem gert er ráð fyrir í grg. frv., en þó ekki fram tekin í lánsheimildinni, sem sé að virkjunin sé bundin við Reyki í Mosfellssveit. (Fjmrh.: Ég sagði, að það yrði að koma fram ákveðið, hvort hún ætti að vera þar eða ekki 1. Ráðh. sagði, að ef ekki kæmu fram ákveðin mótmæli, þá yrði að skoða það þannig, að virkjunin væri bundin við þennan eina stað.

Ég skal nú ekki deila um það, hvort þetta sé svo vel rannsakað og undirbúið, að það sé fært á þessu stigi málsins að slá því föstu. Ég vil aðeins á það benda, að þeir staðir aðrir, sem koma til álita, hafa ekkert verið rannsakaðir. Ég álít, þegar um verk er að ræða, sem kostar hvorki meira né minna en 7 millj., sem ríkissjóður á að ganga í ábyrgð fyrir, þá verði að litast um og athuga, hvort ekki geti verið möguleikar á að gera þetta á annan hátt en þennan eina. Ég álit þetta sjálfsagt, ef hægt er að gera athugun á þessu á það stuttum tíma, að það dragi ekki málið á langinn. Ég hefi þá skoðun og ég hefi lýst henni áður, að þeir möguleikar séu fyrir hendi, að það beri ekki að ganga framhjá þeim. Ég vil benda á það í sambandi við þetta mál, að áður en hafizt var handa um Sogsvirkjunina, þá var gerð athugun á flestum eða öllum þeim möguleikum, sem gátu komið til greina. Það var gerð athugun á því að stífla upp við Þingvallavatn, það var athugað að gera jarðgöng gegnum hliðina, og í þriðja lagi að stífla vatnið neðar. Allt þetta lá fyrir rannsakað, svo að það var hægt að velja og meta, hvað hagkvæmast væri. Eftir að þetta var þrautrannsakað, þá var tekin ákvörðun um það, á hvaða stað skyldi lagt í virkjunina. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu. Ég tel að um of flausturslega sé frá málinu gengið, ef það er afgr. á þeim grundvelli, að aðeins um einn möguleika sé að ræða, og ekkert tillit tekið til hinna. Að athuga þá möguleika. sem kynnu að vera á öðrum stöðum, er að mínu viti ekki það vandamikið, að það þyrfti að verða til þess, að málið dragist úr hömlu, ef út í það væri farið. Veit hv. 4. þm. Reykv. ekki um bor, sem ríkisstj. á og vel mætti nota við þessar rannsóknir, engu síður þótt þessi vinna yrði framkvæmd fyrir Rvíkurbæ. Ég veit ekki, hvort þessi leið er fær eða ekki. Eins og ég hefi áður sagt um undirbúning þessa máls, eru nú liðin 12 ár, síðan því var fyrst hreyft og bent á. að þarna væru möguleikar, og er slæmt, að þeir skuli ekki hafa verið rannsakaðir. Ég get ekki fylgt þessu hitaveitumáli, ef allar framkvæmdir verða einskorðaðar við Reyki.