11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Jakob Möller:

Náttúrlega getur það ekki dulizt nokkrum manni, að skynsamlegast sé, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, að taka lánið í einu lagi og þar af leiðandi allt erlendis. vegna þess að ef láninu er skipt, þá verður nokkur hluti lánsins verr settur, því að til tryggingar þeim hluta lánsins, sem ekki væri með ríkisábyrgð, yrði ekki hægt að setja 1. veðrétt, heldur 2. veðrétt, sá hluti lánsins yrði að líkindum veittur til skemmri tíma. Af þessu leiðir, að kjörin á þessum hluta lánsins yrðu þeim mun verri, e. t. v. svo miklu verri, að það hækkaði raunverulega vexti af láninu.

Ég hefi heyrt og hefi góðar heimildir fyrir því, að á láni, þar sem það var sett að skilyrði, að Akureyri útvegaði 20% af stofnkostnaði, hafi kjörin orðið þau, að raunverulegir vextir séu 51/2%, og ég get ímyndað mér, að þetta stafi af því, að kjörin á síðari hl. lánsins séu svo miklu lakari, að það hafi orðið til þess að hækka vextina.

Mér skilst, að hæstv. atvmrh. rugli tvennu saman, þegar hann er að bera þetta saman við það, að fyrirtæki og einstaklingar verði að leggja fram af eigin fé. Það er ekki það, sem verið er að gera kröfu um. Það er ekki verið að gera kröfu um, að Reykjavík leggi fram af eigin fé. Stofnkostnað hitaveitunnar verður að taka að láni allan saman, og það, hvort þessi hluti lánsins fengist innan lands, sem er óvíst, breytir engu í þessu efni, en gerir það öruggt. að kjörin myndu verða þeim mun verri. Það er því bersýnilegt, að það er öllum þeim. sem eiga að njóta hitaveitunnar, til skaða að takmarka ábyrgðina á þennan hátt.

Hæstv. ráðh. hafa staðhæft, að það myndi ekki verða til að tefja framgang málsins, þó að lánið yrði tekið í tvennu lagi. Mér þykir þeir fullyrða nokkuð mikið. Hvernig myndi fara. þegar búið væri að samþ. þessa ábyrgðarheimild hér á Alþ.? Þá væri vitanlega hægt að fara til lánveitandans til þess að biðja hann um lán. Hann sér, að stofnkostnaðurinn er svo og svo mikill, og að það er beðið um 80% af kostnaðinum. Hann spyr að sjálfsögðu: Hvar hafið þið þessi 20%, sem á vantar? Svarið verður náttúrlega: Við verðum að fá þau að láni annarsstaðar. Þá segir hann: Það þýðir ekkert að leggja út í þetta, nema tryggt sé, að allt lánið fáist.

Þetta þýðir því, að framkvæmdum yrði að fresta, þangað til búið væri að bjóða út lánið hér innanlands.

Ég hygg, að um Akureyrarlánið hafi þetta farið þannig, að fyrsta veðréttarlánið með ríkisábyrgðinni hafi ekki verið veitt, fyrr en trygging var fengin fyrir því, að Akureyri gæti fengið 20%, sem á vantaði, og má mikið vera, ef það var ekki með aðstoð aðallánveitandans. að Akureyri fékk þetta lán. Svo að það er hvorttveggja, að þetta er ekki ólíklegt til að tefja fyrir málinn, og að það er nokkurnveginn víst, að það gerir lánskjörin verri.

Nú stendur svo á, að ríkissjóður þarf sjálfur að taka gjaldeyrislán, og er gert ráð fyrir að taka 12 millj. kr. að láni. Ef þetta þykir óþarflega mikill gjaldeyrir, þá er hægurinn á að hafa gjaldeyrinn þeim mun minni. Hver getur þá tilgangurinn verið? Minni áhætta ríkissjóðs í sambandi við lánið? Ég hygg satt að segja, að áhætta ríkissjóðs sé ákaflega lítil í sambandi við þetta lán, en ef þessi takmörkun yrði til þess að gera lánskjörin lakari, þá yrði hún ekki til þess að auka öryggi ríkissjóðs.

Ég get ekki fundið neina skynsamlega ástæðu fyrir því að veita ekki fulla ríkisábyrgð fyrir láninu, og það eina, sem ég get fundið, er það, að hæstv. fjmrh. hefir tekið upp þessa reglu, og ég get skilið, að honum finnist lakara að verða að hverfa frá henni í þessu sambandi. En ég vil benda á, að þau lán. sem ríkissjóður hefir veitt ábyrgð fyrir, eru að töluvert miklu leyti frábrugðin því láni, sem hér er um að ræða, því að ekkert af þeim lánum, sem ríkisábyrgð hefir verið veitt fyrir, gefur eins mikinn vinning í erlendum viðskiptum eins og þetta lán. Og það er vissulega fullkomin ástæða til að gera greinarmun á því, þegar um það er að ræða, hvort veita eigi fulla eða takmarkaða ábyrgð, til hvers eigi að nota lánið, og ég staðhæfi, að á því sé mikill munur, að veita ábyrgð fyrir láni til hitaveifu, eða hvers annars sem um væri að ræða. Ég vænti því fastlega, að meiri hl. þessarar hv. d. komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé rétt að leggja þessar tálmanir í veg málsins með því að takmarka ábyrgðina við vissan hluta lánsins.