12.05.1938
Efri deild: 77. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Magnús Jónsson:

Ég hefi enn ekki neina ástæðu til að tefja fyrir málinu og vil ekki slá hér til annars tóns en hefir verið í þessum stilltu umr. En ég vil segja, út af því, sem hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni í sambandi við þetta fyrirtæki, að hvað sem menn segja um þau fyrirtæki, sem Reykjavík hefir með höndum, svo sem það, að rafmagn sé hér of dýrt, o. þ. h., þá hafa þau verið rekin kaupmannslega nokkuð vel og verið borguð niður, þannig að engin áhætta fylgir þeim fyrirtækjum eins og þau hafa verið rekin. Og það er ekki vafi á því, ef ekki breytist allt stórkostlega, að hér er um tryggt fyrirtæki að ræða frá því sjónarmiði, að reka það án allrar áhættu. Ég vil því ekki fallast á, að það geti ekki verið rétt að veita 100% ríkisábyrgð.

Við skulum nú segja, að Reykjavík þurfi ekki á 100% ábyrgð að halda og að hitaveitan kæmist upp án þess. En geta þá ekki verið aðrar ástæður til þess, að það sé rétt að fá lánið allt í erlendum gjaldeyri, án sérstaks tillits til hagsmuna Reykjavíkurbæjar, heldur með tilliti til þess að gera lántökuna hentuga fyrir þjóðina í heild? En að Reykjavíkurbær sýni trú sína á fyrirtækið með því, að skilið sé eftir þetta af láninu, 10–20%, sem ríkið gengi ekki í ábyrgð fyrir, þá held ég, að sú trú sé ekki mikil hjá þeirri trú, sem þarf til þess að ráðast í fyrirtækið yfirleitt, því að það er náttúrlega Reykjavíkurbær, sem verður að bera ábyrgð á rekstri þessa fyrirtækis. Og ef lánveitandinn vill lána fé til fyrirtækisins, þótt ábyrgð ríkisins sé veitt fyrir 100% þess, þá treystir lánveitandinn því, að það geti borið sig. En áhættuprósentur eru hafðar, ef ekki er trú á fyrirtækið án þess.

Það er vitanlega leiðinlegt að geta ekki sinnt öðrum fyrirtækjum, sem hæstv. fjmrh. nefndi, með ríkisábyrgðum, sem landsfólkið hefir mikla þörf fyrir, að framkvæmdar séu, t. d. eins og því, að leiða rafmagn frá Soginu um mikinn hluta landsins. En það er ómögulegt að komast í kringum það, að það er enginn fjárhagslega tryggur grundvöllur fyrir hendi undir þær framkvæmdir. (Forsrh.: Það er fjárhagslega tryggur grundvöllur fyrir mörgum leiðslunum). Jæja, þá er sjálfsagt að ráðast í þau fyrirtæki eins fljótt og unnt er. Það er oft, þegar tveir menn fara í banka til að reyna að fá lán til fyrirtækja sinna, þá þykir annað fyrirtækið tryggara og lán er veitt til þess, en hinn maðurinn fær ekkert lán, og getur þá réttlætistilfinning þess, sem ekkert fær, særzt af því. En það er svo fjarri því, að þetta fyrirtæki spilli á nokkurn hátt fyrir því, að rafmagn verði leitt frá Soginu, heldur þvert á móti. Með því kolaverði, sem nú er, skilst mér, að það verði nú að kaupa kol fyrir hátt á aðra millj. kr., á móti því, sem þessi hitaveita á að geta orkað að hita upp hér í bænum. Það er því stórkostlegur gjaldeyrissparnaður í því fólginn, að sleppa með vexti og afborganir af þessu byrjunarláni til þess að virkja þetta lill litra magn af heitu vatni, sem nú er fyrir hendi til að virkja, þar sem virkjunin myndi spara svo mikil kolakaup og þar með gjaldeyri.

Ætla ég svo ekki að tefja málið með lengri ræðu.