23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Aðeins örfá orð. Þessi 17. liður þessa frv. var settur inn í 1. í fyrra og fjallar um, að ekki skuli greiða á árinu 1939 vaxtastyrk til landbúnaðarlána, eins og áður hefir verið gert. Þetta var gert með það fyrir augum að verja því fé, sem með því sparaðist, til þess að greiða fyrir bændum, sem höfðu orðið fyrir tjóni af völdum mæðiveikinnar. Það var þaulathugað þá, hvað hægt væri að gera í þessu sambandi, og eftir þá athugun var að þessu horfið. Það eru sömu röksemdir fyrir þessu nú, nema að því leyti, að það þyrfti kannske að auka fremur þetta tillag til handa þessum bændum. Þarfir manna fyrir hjálp frá því opinbera eru miklu meiri á mæðiveikissvæðunum en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Þetta virðist því sanngjarnt, að hinir fái ekki þennan styrk, meðan svo stendur, til þess að hægt sé að létta undir með mönnum á þessu svæði. Enda mun afurðaverð hafa breytzt mikið siðan þessi vaxtastyrkur var ákveðinn. — Ég mun ekki treysta mér til að mæla með því, að þessi brtt. verði samþ.

Um brtt. á þskj. 277, um að fella niður 3. tölul. 1. gr. frv., verð ég að segja það, að ég er alveg á móti því, að þessi brtt. verði samþ. Það, sem þar er farið fram á, ef samþ. væri, mundi þýða það, að fjárl. mundu verða afgr. með verulegum halla, því að það er stór upphæð, sem mundi renna eftir þeirri leið til verkamannabústaða umfram það, sem ákveðið er í fjárl. Nú er í fjárl. hækkaður þessi styrkur frá því, sem verið hefir, upp í að mig minnir 180 þús. kr.; og það ætla ég, að sýni bezt vilja meiri hluta Alþ. til þess að sinna þessu nauðsynjamáli, að þingmeirihlutinn skuli nú, þrátt fyrir slæmt útlit á atvinnu- og fjárhagssviðinu, vilja hækka þetta framlag. Um meiri hækkun en þetta getur ekki verið að ræða, eins og sakir standa nú.

Ég sé ekki ástæðu til að tala um brtt. á þskj. 288. Ég hefi í sjálfu sér ekkert við hana að athuga og geri ráð fyrir, að hún verði samþ.