02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég veit ekki, hvað gengur að höfðinu á hv. þm. G.-K., að hann skuli ekki geta skilið svo einfalt mál og það, að þegar frv. hefir legið frammi, sem er samið af Vinnuveitendafélaginu og flutt af flm. þess, þá er hægt að taka afstöðu til þess af hálfu verkaýðsfélaganna. En það hefir ekkert frv. komið fram af hálfu verkalýðsfélaganna. Það hefir komið fram frv. frá mþn., en í henni voru menn frá Framsfl. og Alþfl., en verkalýðsfélögin hafa ekki sagt álit sitt um það. og á þeim stutta tíma, sem um er að ræða, er ekki von til, að þau geti gert það.

Það er hægt að velja milli þessara tveggja frv., en það er ekki þar með sagt, að verkalýðsfélögin vilji hafa annað þeirra. Það er hægt að velja milli þess að vera hálshöggvinn eða vera meiddur, en það er ekki þesskonar val, sem verkalýðsfélögin vilja. Það er ekki hægt að setja vinnulöggjöf öðruvísi en að verkalýðurinn, sem á að búa við hana, telji hana viðunandi fyrir sig.

Það eru mörg atriði, sem eru nauðsynleg fyrir verkalýðsfélögin, sem frv. fer alls ekki inn á. Það eru önnur atriði, sem eru orðuð óskýrt. Það eru enn atriði, sem eru skaðleg fyrir verkalýðinn og þannig löguð, að hann mun ekki samþ. þau, ef hann er spurður.