31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

Ráðherraskipti

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Frá hv. 3. þm. Reykv. kom sú fyrirspurn til mín, hvort ekki muni verða gerðir neinir málefnasamningar milli flokkanna nú á þessu þingi. Eins og ég vænti, að þessir hv. þm. hafi heyrt, þá er það sérstaklega tekið fram í þeirri yfirlýsingu, sem ég gaf, að vegna þess, hve skammt var á milli þinga, eru mörg hinna stærri mála í undirbúningi ýmist í n. eða gert ráð fyrir, með þeim till., sem hér liggja fyrir Alþ., að þau verði sett í n. til undirbúnings og athugunar. Svar við þessari fyrirspurn liggur því beinlínis í yfirlýsingunni, sem ég hefi gefið.

Um það, hvaða vinnulöggjöf muni verða samþ., þá munu flokkarnir koma sér saman í höfuðdráttum um það frv., sem milliþn. í þessum málum hefir samið, með einhverjum breyt., sem þurfa þykir og fram kunna að koma undir meðferð málsins á þingi.

Þá er það fyrirspurnin frá hv. þm. G.- K. Þessum hv. þm. þykir það óvarfærni af mér, að ég skuli ekki hafa samið um, hvernig á að framfylgja gerðardóminum.

Ég skal viðurkenna, að ég mun allra síðastur manna verða til þess að hætta að treysta því, að verkalýðurinn í þessu landi hlýði þeim lögum, sem sett eru, hvað sem þeim „agitationum“ kann að líða, sem meir hafa komið úr annari átt en frá Alþfl.. þótt hann alls ekki hafi skrifað sem gætilegast um þetta mál. Nú ætti ég samkv. þessari ályktun, vegna þess að í hita dagsins hafa fallið einhver mótmæli í Sjómannafélagi Reykjavíkur, að gera ráðstöfun til þess að semja við einhvern annan flokk um að draga saman lið, sem nægjanlegt væri til að framkvæmt þessi lög, ef þeim yrði sýndur mótþrói. Ég býst ekki við. að það sé nokkur maður hér á hv. Alþingi. og heldur ekki nokkur, sem hér heyrir mál mitt, sem myndi telja það hyggilega vinnuaðferð. Og a. m. k. er svo mikið vist, að ég vil heldur láta það koma fyrir, að ég hafi of lengi treyst löghlýðni verkalýðsins í þessu landi, heldur en að komi fyrir það gagnstæða, að vegna þess, að ég hafi ekki treyst honum nægilega vel og byrjað á því að draga saman lið, þá hefði verkalýðurinn e. t. v. getað leiðzt út í óheppilegar ógöngur. Þetta er mitt sjónarmið, og ég vil heldur þola að hafa sýnt of mikið traust heldur en of lítið. Eins og ég sagði áðan, hefi ég ekki tekið þau mótmæli, sem komu fram í Sjómannafélagi Reykjavíkur, sem neinn óeðlilegan hlut í hita dagsins. Og ég get vel skilið tilfinningar sjómanna og verkamanna, þó að ég álíti, að þeirra tilfinningar séu ekki réttar, þegar litið er rólega á þetta mál. Og ég get vel skilið þá stétt, þar sem búið er að slá föstu og því trúað, að ekki þyrfti í neinum kringumstæðum að skerða þeirra rétt, og þyki hart þegar það er gert í fyrsta skipti, og þeir hafi ekki athugað, hve mikil nauðsyn það var að brjóta þessa reglu í þetta skipti, eins og svo víða hefir orðið að gera annarsstaðar. Ég get vel skilið þessar tilfinningar, og þess vegna er það, að mótmælin, sem hv. þm. minntist á, eru í raun og veru ekki stórt atriði. Mótmælunum út af fyrir sig geri ég ekkert úr, vegna þess að oft er mótmælt lögum frá Alþingi. Jarðræktarlögunum var mótmælt þegar þau voru afgr. hér á þingi, þótt það síðan hafi sýnt sig þegar málið fór að skýrast, að meiri hl. bændastéttarinnar var þeim fylgjandi. Mótmælin gegn gerðardóminum eru vitanlega jafnframt af þeim rótum runnin, að þeir telja sig ekki, þótt það sé meira orðaleikur, fylgja gerðardómnum. jafnvel þó að þeir séu eftir sama taxta skráðir á togarana og gerðardómurinn ákveður. Einasti verulegi liðurinn í mótmælunum er, að þeir telja sig ekki á þann hátt bundinn við gerðardóminn, að þeir hafi ekki leyfi til að koma í veg fyrir skráningu á togara. Það er ekki heldur lögbrot eins og mótmælin eru orðuð. Það er vitað mál, að lögin voru afgr. hér á Alþingi þannig, að það liggur engin refsing við því, þótt sjómenn vilji ekki skrá sig á togara. Slíkt datt engum í hug. Og ef það er ætlun þessarar samþykkfar að hafa á löglegan hátt, eins og hver annar borgari, frelsi til að hafa áhrif á sína félagsmenn til að vilja ekki fara, þá er ekkert vald í þessu landi, sem getur afstýrt því. Það er ekki hægt að ætla neinum manni að skrá sig á togara. þannig, að ef hann ekki vildi fara, væri hann látinn á togara til að vinna. Ef þetta er tilætlunin með samþykktinni, að koma í veg fyrir þetta á þennan hátt, þá þarf það ekki að vera lögbrot; það er þannig orðað. Það liggur ekki meira í þessari samþykkt eins og hún er orðuð. og það er ekki leyfilegt að leggja annan skilning í hana, þegar þess þarf ekki. Og þannig skil ég samþykktina þangað til annað reynist. Hvað ég muni gera, ef annað reynist heldur en það, sem ég trúi á, fer ég ekki að gefa neinar skýrslur um hér á Alþingi. Ég býst ekki við, að það þyki sérstaklega heppilegt fyrir lausn þessa máls, ef yfirleitt væri farið að bollaleggja um það, hvernig þessari valdastreitu mætti ljúka, ef til hennar ætti að koma, sem ég vona, að aldrei komi. Og ég er fullviss með sjálfum mér, að til slíks kemur aldrei — þótt það sé nú kannske oftrú. Ef farið væri að ræða það og svara því, þá álít ég það ekki til blessunar fyrir þetta mál, sem ég álít umfram allt, að eigi að leysa með góðu. Þess vegna býst ég ekki við að fara að ræða um það nú, enda er aldrei hægt fyrirfram að segja um, hvernig eigi að snúa sér í slíku máli, fyrr en maður er kominn í þá aðstöðu, sem kringumstæðurnar í það og það skiptið hafa sett mann i. Þá verður maður að taka ákvörðun um hlutinn. En það er þýðingarlítið að vera á opinberum vettvangi að tala um það fyrirfram, hvernig eigi að taka ákvarðanir um hin vandasömustu mál.