02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Haraldur Guðmundsson:

Ég vil mæla með því, að þetta frv. verði samþ. Ég tel. að þau rök, sem færð eru fyrir því að meta ekki til skatttekna þau fríðindi, sem falin eru í fæði um borð í skipum, séu fullkomlega réttmæt. Það þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, að fyrir þann mann, sem hefir stórt heimili, munar það litlu, hvort einum manninum fleira eða færra borðar á heimilinu. Húsnæðið verður maðurinn þó að hafa hið sama, hvort sem hann er heima eða ekki. Hitt er rétt, að fyrir einhleypinga getur þetta munað nokkru. Ég tel það hinsvegar eðlilegt, sem hv. frsm. benti á að þeim mönnum, sem hafa verulegar tekjur, er þetta engan veginn tilfinnanlegt, og væri því eðlilegra, að frv. væri breytt í það horf, að undanþágan nái ekki til þeirra. Með því er líka séð fyrir því, að tekjumissir ríkissjóðs af samþykkt þessa frv. yrði ekki nema sáralítill, því laun almennra skipverja eru svo lág, að sá skattauki, sem kemur af þessum 700 kr., er sáralítill. Það er fyrst þegar launin fara að hækka, að það fer að muna verulegu um þetta.

Ég vil taka undir það með hv. flm., að hv. þdm. greiði frv. atkv. til 3. umr., og svo verði athugað milli umr., hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um hámark, sem þessi undanþága sé miðuð við.