26.02.1938
Neðri deild: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

24. mál, endurbygging á sveitabýlum

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og komst til landbn., en kom þaðan ekki aftur. Form. n. tjáði mér, að hún hefði tekið þetta atriði til athugunar og lofað að taka það sem bráðabirgðaákvæði upp í bálk þann, sem hún hafði þá með höndum um lán til landbúnaðar. Nú er mér hinsvegar tjáð, að það frv. hafi ekki komizt í gegn á síðasta þingi, en verði flutt aftur, og er mér sagt, að þetta bráðabirgðaákvæði sé fellt niður og er því flutt hér aftur sem sérstakt frv. Aðalinnihald frv. er ekki margbrotið, aðeins það, að þar til landsdrottnum ber skylda til skv. 12. og 13. gr. ábúðarlaganna nýju að hýsa jarðir, sem leiguliðar búa á, þá skuli leiguliðar jafnréttháir til að fá styrki til að endurhýsa hjá sér eins og sjálfseignarbændur, vegna þess að þeir hafa ekki í annað hús að venda þangað til ákvæði ábúðarl. nýju um byggingarskyldu landsdrottins koma til framkvæmda, og sú skylda, sem er í 11. og 12. gr. ábúðarl., mun ekki koma til framkvæmda fyrr en á árinu 1939. Hér er því um að ræða eitt ár, sem leiguliðar þeir, sem nauðsynlega þurfa að byggja, ættu að fá hjálp samkv. þessum nýju l. um framlög ríkisins til endurbyggingar 4 sveitabýlum, og ég er sannfærður um, að hv. landbn. lítur á þetta mál með svo mikilli sanngirni, að hún afgreiði frv. fljótlega í þetta sinn, því að það er enginn vafi á því, að hér er um að ræða þá bændur landsins, sem eru langverst settir, bændur, sem búa nú á leigujörðum, þar sem hús eru gersamlega óíbúðarhæf og landsdrottinn vill ekki byggja eða veita neinn styrk til þess, og það opinbera vill ekki heldur rétta hjálparhönd. Sjálfsábúðarbændur hafa venjulega eitthvað til þess að setja að veði, þar sem þeir eiga jarðirnar, til þess að geta byggt upp, en þessir leiguliðar, sem eru algerlega réttlausir á jörðum einstakra manna, hafa ekkert til þess að setja sem veð og eru því verr settir en sjálfsábúðarbændur, þar til að framkvæmd verður byggingarskylda landsdrottna samkv. nýju ábúðarlögunum. Ég vil þess vegna ekki að óreyndu trúa því, að hv. landbn. setjist aftur á þetta mál, því að ég veit, að þar eru menn, sem hafa góðan skilning á kjörum bænda, sem verst eru settir. Því vil ég leggja til, að málinu verði vísað til hv. landbn., þó að hún hafi að vísu athugað það á síðasta þingi, og vil ég óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari lokinni.