11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (2403)

39. mál, efnahagsreikningar

*Thor Thors:

Hv. þm. N.-Þ. var mjög kampakátur yfir því, að ég sagði í minni síðustu ræðu. að slíkar pólitískar árásir, sem vænta mætti út af birtingu efnahagsreikninga, hefðu lítil áhrif; þar með átti ég vitanlega við lítil pólitísk áhrif, og að þær mundu ekki svo mjög verða til þess að skipta mönnum í pólitíska flokka. Þó er ekki fyrir það að synja, að þær geti haft pólitísk áhrif, og hafa stundum haft, einkum ef mjög freklega er gengið í árásunum á einstök fyrirtæki, eins og t. d. Alþfl. fékk að reyna við alþingiskosningarnar síðustu. En enda þótt slíkar árásir hafi ekki mikil pólitísk áhrif, þá geta þær haft mikil fjárhagsleg áhrif á þá, sem fyrir þeim verða, og geta e. t. v. lamað athafnaþrek þeirra. Þær geta líka haft áhrif innan þess flokks, sem ber þær fram, á þann veg, að þeim, sem fyrir þeim verða, verði vegna árásanna erfiðara að eiga nauðsynleg viðskipti við þá menn, sem þann flokk skipa, er ábyrgðina ber á árásunum. Og mjög mikil áhrif geta þessar árásir haft á efnahag manna, þegar þær eru, eins og stundum er gert, bornar fram á erlendum vettvangi; t. d. hvað snertir h/f Kveldúlf, þá hafa sumar lubbalegustu árásargreinarnar, sem birtar hafa verið í íslenzkum blöðum, verið þýddar á erlend tungumál, og þeim síðan útbýtt meðal viðskiptavina fyrirtækisins á Spáni og Englandi. Undir slíkum kringumstæðum geta þessar árásir haft mjög skaðvænleg áhrif, eins og reynslan hefir þegar sýnt.

Annars hefði hv. þm. N.- Þ. frekar átt að leitast við að gefa upplýsingar um eitt veigamikið atriði í þessu sambandi, sem sé það, hvar slík ákvæði sem þessi, er hér á að lögfesta, gildi í heiminum. En hann hefir ekki getað tilgreint eitt einasta land. Það hefði þó mátt ætlast til, að hann hefði notað tímann, sem liðið hefir milli umr., og reynt að kynna sér einhver ákvæði svipuð þessum erlendis. Að vísu getur verið, að hann hafi gert það, en þetta sýnir bara, að hvergi í hinum siðaða heimi gilda önnur eins ákvæði og þessi, sem hér er farið fram á að lögfesta.

Ég þarf ekki að svara hv. 5. landsk. annari eins staðhæfingu og þeirri, að gegnum birtingu efnahagsreikninga einu sinni á ári geti almenningur haft eftirlit með rekstri viðkomandi fyrirtækja. Hverskonar eftirlit er það? Þó að birtar séu einu sinni á ári nokkrar tölur um hag fyrirtækjanna, fær almenningur ekki minnstu hugmynd um rekstur þeirra í einstökum atriðum. Þetta er því mælt algerlega út í loftið, eins og svo margt annað, er kemur frá kommúnistunum hér á Alþ. og annarsstaðar.

Ef hv. þm. er það aðaláhugamál með flutningi þessa frv., að hömlur séu framvegis settar gegn óvarlegum lánveitingum, þá er miklu opnari leið að koma því inn í ákvæði bankalaganna. Hér er starfandi mþn. í bankamálum, og það er eðlilegt, að þetta viðfangsefni sé tekið til meðferðar í þeirri n. og þannig gengið frá bankalögunum, að settar séu ákveðnar hömlur fyrir því, hvað langt megi ganga í lánveitingum til einstakra fyrirtækja. Það mundi hafa raunverulega þýðingu, en ekki slík ákvæði, sem í þessu frv. felast.