03.05.1938
Efri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

39. mál, efnahagsreikningar

*Árni Jónsson:

Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar umr. var frestað síðast, og tel ég rétt að láta það ekki falla niður með öllu, þó að ég hinsvegar verði að ítreka það, að ég sakna þess mjög, að hæstv. atvmrh.. sem jafnframt er 1. flm. þessa frv., skuli ekki enn hafa haft tækifæri til að mæta í þessari d., þegar svo stendur á, að ég og hv. þm. Vestm. höfum borið fram ákveðna fyrirspurn og óskað eftir, að hann svaraði henni. Það stendur í grg, frv., að samskonar ákvæði og þessi, sem í frv. felast, séu til í l. erlendis, en í því áliti, sem stjórn Landsbankans hefir sent um frv., segir hún, að henni sé eigi kunnugt um nein slík ákvæði í löggjöf Norðurlanda. Þess vegna vil ég, áður en málið fer lengra, enn ítreka þessa fyrirspurn og vona, að hæstv. ráðh. láti ekki undir höfuð leggjast að svara henni, hvar ákvæði eins og þessi séu í l., en ef þessi ákvæði eru ekki til, þá verður hann að játa, að hann fari með rangt mál í grg., og biðja d. afsökunar á því, að hann hafi hreint og beint borið þetta mál fram undir fölskum forsendum. Mér skilst, að síðan hann kom í ráðherrasessinn, hafi hann haft það sér til afsökunar, að honum sé þetta mál nú óviðkomandi, af því að hann flutti það sem óbrotinn þm. Mér dettur í hug það, sem kveðið var hér á árunum:

„Óvinir þá í hann narta,

er honum skipt í þrenna parta;

einn skal hæst á hástól skarta,

hitt eru bara dónar tveir“.

Hæstv. ráðh. er að vísu ekki búinn að skipta sér nema í tvenna parta, en það er leiðinlegt, að hann skuli gera svo lítið úr hv. þm. V.- Húnv., að hann skuli ekki leggja honum neitt lið um þetta mál.

Þetta mál hefir farið hæstv. ráðh. leiðinlega úr hendi. Eins og menn vita, þá eru kommúnistar einu mennirnir, sem hafa lokið lofsorði á frv. Ástæðan til þess er sú, að hæstv. atvmrh., flm. frv., hefir látið það henda sig, að blanda saman einkarekstri og ríkisrekstri, einmitt á þann hátt, sem kommúnistar telja, að geti verið til að styðja þeirra stefnu, því að það er eðlilegt, að kommúnistar vilji ekki hafa hér neitt nema ríkisrekstur, og svo þegar farið er að blanda þessu tvennu saman, sjá þeir sér leik á borði til áróðurs í þessu efni.

Ég ætla svo að rifja upp, hvernig þetta mál bar að og hvernig Nd. skilaði því frá sér, því að satt að segja, af því að nú er orðið mjög áliðið þingtímans, og sérstaklega með tilliti til þess, hvað hv. þm. lætur sér lítið annt um þetta fóstur sitt — það er sýnilega ekkert ástfóstur —, þá tel ég ekki ákaflega miklar líkur til þess, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Og ef það nær ekki fram að ganga nú, þá hygg ég, að hv. þm. V.-Húnv. muni, hvort sem hann situr í ráðherrastóli eða ekki, hafa vitkazt það og þroskazt og fengið þá reynslu, að hann muni ekki láta sér detta í hug að flytja mál eins og þetta á næsta þingi.

Upphaflega var ákveðið, að birting þessara efnahagsreikninga væri miðuð við þau félög og einstaklinga, sem skulduðu 50 þús. kr. eða þar yfir. Meiri hl. allshn. breytti því í það horf, að miðað skyldi við 100 þús. kr., en svo kom einn flokksmaður hæstv. ráðh. með þá till., að hækka þetta upp í 150 þús. kr. Þetta kemur nokkuð einkennilega fyrir, þegar þess er gætt, að í grg. segir hv. flm., að frv. sé flutt eftir samþykkt, sem gerð hafi verið af flokksþingi Framsfl., og þegar þess ennfremur er gætt, að í umsögn S. Í. S. um frv. er talað um, að S. Í. S. sé með því, að frv. nái fram að ganga, en vill lækka upphæðina niður í 50000 kr. Bankarnir, Vinnuveitendafélagið og verzlunarráðið hafa aftur á móti eindregið lagt á móti frv., svo að ekki er hægt að sjá annað en að þetta sé alveg í lausu lofti. Hv. flm. er sýnilega ekki í samræmi við sinn eiginn flokk, ekki í samræmi við S. Í. S., og hann og aðrir, sem hafa greitt frv. atkv., eru algerlega í andstöðu við þau fyrirtæki, sem ég nefndi, sem þeir sjálfir hafa snúið sér til til að fá álit um frv. Þó virðist átakanlegast, að hv. flm. virðist kominn í andstöðu við hæstv. atvmrh., þ. e. a. s., hæstv. atvmrh. hefir alveg yfirgefið flm., hv. þm. V.-Húnv. Ég vil ennfremur upplýsa, að í Nd. kom fram í umr., að það eru ekki aðeins bankastjórarnir, sem standa að bréfi Landsbankans, heldur hafði það beinlínis verið borið undir bankaráðið. Þess vegna er það svo, að hv. flm. er einnig kominn í ágreining við bankaráðið, en í því bankaráði er formaður Jón Árnason, forstjóri S. Í. S., og auk þess er þar formaður Framsfl., JJ, hv. þm. S.- Þ.

Ég held, að sýnt hafi verið fram á það, að þetta getur á engan hátt orðið til að bæta fyrir atvinnurekendunum. Bankarnir hafa lýst því yfir, að þeir hafi enga þörf fyrir frv., telja það ekki til bóta, heldur þvert á móti til að auka vandræði. Ég veit þá satt að segja ekki, hverjum frv. á að koma til góða, nema kommúnistum, sem hafa sagt, að þeir mundu verða frv. fylgjandi, og ég er ekki í vafa um, að það, sem fyrir þeim vakir, er fyrst og fremst að geta fengið tilefni til tortryggni og æsingaskrifa út af skuldum einstakra manna, án tillits til þess, hvort þær skuldir eru réttilega tryggðar, þ. e. a. s. varlega lánað, einblínandi aðeins á skuldaupphæðina.

Ég verð að segja, að þegar á að fara að leggja lánveitingar bankanna undir dóm almennings, þá lýsi sér í þessari framkomu tortryggni á þeim mönnum, sem þjóðin hefir falið að fara með sparifé sitt. Væri sú tortryggni réttmæt, ætti það að koma fram í öðru formi, þá ætti að segja, að mennirnir væru ekki þeim vanda vaxnir að ávaxta fé þjóðarinnar, og því ætti að skipta um menn, en ekki, að Pétur og Páll og menn, sem ekki koma nálægt þessu, geti borið um, hvort þessi eða þessi lánveiting sé réttmæt eða ekki. Hv. 1. þm. Reykv. sýndi fram á, að þetta yrði óhjákvæmilega til þess, að mena vildu ekki eiga á hættu, að nafn þeirra stæði á þessari skrá, heldur sneru sér til einstakra manna og sættu verri lánskjörum, og afleiðingin yrði sú, að féð, í staðinn fyrir að fara til bankanna til ávöxtunar, lenti í bralli manna á milli. Mér finnst sannast að segja þessi tortryggni gegn bönkunum áréttast nokkuð af því, þegar sýnt er, að það álit, sem borið hefir verið undir ekki eingöngu framkvæmdarstjórn Landsbankans, heldur einnig bankaráðið sjálft, er að engu haft. En ef þetta yrði svo til þess að auka á tortryggni á bankanum, þá yrði það sýnilega til þess að draga úr þeirri viðleitni manna, að safna sparifé í bönkum landsins. Þannig gæti þetta orðið til þess, að ofan á þau yfirfærsluvandræði, sem nú eru fyrir hendi, bætist aukin vandræði af samþykkt þessa frv., og mér finnst sízt sitja á þeim manni, sem er atvmrh., að stuðla að því, að svo verði. Og ef þetta er rétt hjá mér, að þetta sé til þess — bæði framkoma hans með flutningi frv. og eins framkoma þeirra manna, sem hafa álit bankanna að engu, — að auka á tortryggni á bankann. þá finnst mér það koma úr hörðustu átt, að hæstv. atvmrh. sé í hópi þeirra manna, því að ég veit ekki betur en að þessi maður hafi fyrir ári síðan verið af bankans hálfu skikkaður til að hafa eftirlit með einu fyrirtæki, og tel ég, að hann hafi þar með verið í þjónustu bankans síðasta ár.

Það er sem sagt komið í mesta hnút og öngþveiti þetta mál, og eins og ég tók fram við fyrri hluta þessarar umr., þá er það „prinsipið“, sem ég er á móti, en ekki hitt, hvort miða skuli við 50 eða 150 þús. kr. Það finnst mér ekki skipta öllu máli. Og þá er „spursmálið“ þetta — og ég hefi gamað að vita, hvað hv. frsm. segir um það —, hvort ekki sé þá rétt að miða við lægri upphæð, ekki aðeins að fara niður í 50 þús., heldur mætti það jafnvel lækka nokkuð meira. Ef þetta á að vera gróðafyrirtæki, munu fleiri vilji kaupa þessa bók. Ég veit ekki, nema rétt gæti verið að fela menningarsjóði að gefa hana út eða þá ríkisútgáfu skólabóka því að eflaust verður þetta notað til áróðurs í hinum pólitísku skólum.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, ekki sízt vegna þess, að ég á sæti í þeirri n., sem ég geri ráð fyrir, að frv. verði vísað til, að lokinni umr.