01.04.1938
Neðri deild: 38. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Jakob Möller:

Það er fullkominn misskilningur hjá hv. þm. N.- Þ., að mín afstaða sé að nokkru leyti breytt frá 2. umr. Ég gat þess aðeins, að það, sem farið væri fram á í brtt. hv. flm. till., væri annað og minna heldur en farið var fram á við byggingarnefndina, og þess vegna væri líklegra, að hún féllist á það. Þetta er ekki að breyta um afstöðu. En hinsvegar eru það hv. flm., sem breytt hafa um afstöðu með brtt. sinni, því að þar játa þeir í raun og veru, að þeir hafi farið of langt í fyrra skiptið. Ég sagði við þetta tækifæri ekki neitt um það og kom ekki til hugar að gefa neitt fyrirheit um, að ég mundi ljá málinu fylgi mitt, ef byggingarnefnd gæti ekki fallizt á það, sem farið er fram á í síðari till. hv. flm., en hinsvegar, ef byggingarnefnd féllist á það, þá væri náttúrlega öðru máli að gegna, en því er ekki til að dreifa. Óhæfan, sem hér er framin, liggur í því, að taka ráðin af réttum stjórnarvöldum, sem um þessi mál hafa fjallað.

Um það atriði, að leyft hafi verið að byggja úr timbri í þéttbýlustu hverfum bæjarins, eins og hv. þm. vék að, vil ég segja það, að ég hygg, að það sé nokkuð byggt á misskilningi. Það var leyft að gera breytingar innan húss aðallega. og t. d. að því er snertir aðra bygginguna, sem hv. þm. nefndi sem dæmi. Hressingarskálann, þá veit ég ekki til þess, að sú bygging hafi verið stækkuð um einn mm. eða hennar útliti í aðalatriðum breytt nokkurn hlut, hvað þá heldur að hún hafi í nokkrum verulegum atriðum verið aukin eða byggð upp. Formsatriðið var það eina, sem breyting var gerð á, en um það atriði er allt öðru máli að gegna. — Það væri of langt að fara út í það að elta uppi einstök dæmi. Hv. þm. nefndi sem annað dæmi bygginguna við Hafnarstræti, en þar kemur það líka til greina, að jafnframt því sem þar var ekki um nýbyggingu að ræða, heldur gamla byggingu, sem að vísu var byggt ofan á, voru samtímis rifin burt mörg timburmannvirki, sem þar voru í kring, og þannig var tvímælalaust mjög dregið úr brunahættu á þeim stað. Svo að þetta dæmi er heldur ekki á neinn hátt sambærilegt. En jafnvel þótt svo væri, þá breytti það engu um það, hvaða óhæfu er verið að framkvæma í þessu tilfelli, því að í þeim tilfellum. sem hv. þm. nefndi sem dæmi, eru það hin réttu stjórnarvöld, sem fara með þessi mál, en hér er hinsvegar um það að ræða að taka fram fyrir hendurnar á þeim. Það gerir allan muninn.