28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

75. mál, rafveitur ríkisins

Pétur Ottesen:

Ég get vel fallizt á, að sú leið, sem hér er farin inn á um lausn á því að hagnýta rafmagnið til almenningsnota, sé heppileg. Þetta frv. er byggt upp á þeim grundvelli, að virkjuð verði stærri fallvötn og með þeim hætti leitt rafmagn um langa vegi út um byggðir landsins. Það er gert ráð fyrir, að þessu verði þannig fyrir komið, að fyrirtækið sem heild geti borið sig, þannig að öðrum sé ekki íþyngt meira en hinum, þrátt fyrir mismunandi aðstöðu. Það er ekki vafamál, að þessi leið er heppilegust undir þeim kringumstæðum, sem við eigum við að búa.

Í þessu frv. er ríkisstj. gefin heimild til að ráðast í þessar framkvæmdir, hvort heldur sú leiðin er farin, að stofna nýjar orkuveitur, eða að ganga í félagsskap með öðrum, sem þegar eru búnir að koma upp slíkum virkjunum. Og er það að sjálfsögðu miðað við, að Reykjavíkurbær hefir nú komið upp einni slíkri virkjun við Sogið, en þar er framleitt svo mikið rafmagn, að bærinn þarf ekki að nota það allt. Þess vegna er þetta miðað við það, að framkvæmdir ríkissjóðs geti orðið þannig, að sú orka, sem þarna er ónotuð, verði hagnýtt fyrir aðra en íbúa Reykjavíkur.

Ég vil í sambandi við þetta benda á þá framkvæmd, sem nú liggur fyrir og gerð hefir verið áætlun um, en það er að leiða rafmagn frá orkuverinu við Sogið til Akraness. Það liggur fyrir áætlun um það hjá iðnn., að þessi veita muni kosta samtals um 367 þús. kr., og eru þá með taldar leiðslur um þorpið. Nú vil ég benda á, að það er líka verið að ljúka við rannsókn á möguleikum til að afla Akranesi og jafnframt Borgarnesi rafmagns með þeim hætti að virkja Andakílsfossa. Það hefir verið ráðizt í að rannsaka þetta nú til þess að fá samanburð á kostnaði við virkjun Andakílsfossa og veitu frá Soginu. Innan nokkurra daga mun áætlun um kostnað við þessa virkjun liggja fyrir, og er þá hægt að gera þann samanburð, sem æskilegur er á þessum 2 möguleikum.

Nú skilst mér, að hvor þessara leiða, sem farin verður, þá falli það jafnt undir ákvæði þessa frv., því að í frv. er sem sé gert ráð fyrir því, að ríkið byggi orkuver og gerist þátttakandi í útfærslu rafmagnsins frá stöðvum, sem þegar hafa verið byggðar. Það er því vitanlega með tilliti til, hvað hagkvæmast þykir, hvor þessara leiða verður farin í hverju einstöku tilfelli.

Ég vil út af því, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh., um að ef til vill yrði nokkur dráttur á öllum framkvæmdum í þessu efni þrátt fyrir samþykkt þessa frv., benda á það, að hvað Akranes snertir, þá er sú stöð, sem hefir verið framleitt með rafmagn þar, orðin allt of lítil til þess að inna af hendi þá nauðsyn, sem fyrir hendi er um rafmagn til ljósa og iðnaðar. Það er því mjög aðkallandi nauðsyn að fá meiri raforku í þorpið, en með tilliti til þeirrar lausnar, sem hér liggur fyrir, hefir ekki enn verið ráðizt í að stækka þessa stöð.

Ég mun af þessum ástæðum nú þegar á þessu þingi leita fyrir mér um það, hvort ekki muni hægt að fá ákvörðun tekna um það að hefja framkvæmdir á því, að fá rafmagnið leitt til Akraness.

Ég vildi láta þetta koma fram hér við 1. umr. málsins, og mun ég svo halda áfram undirbúningi málsins og snúa mér í því efni til ríkisstj. og iðnn. Vænti ég góðs samstarfs af hálfu þessara aðilja.

Að lokum vil ég skjóta því til n., sem fær málið til meðferðar, að mér virðist vera ástæða til að skjóta því inn í frv., að þeir starfskraftar, sem ríkið hefir á að skipa, þ. e. vegamálastjóri og forstöðumaður rafmagnseftirlits ríkisins, verði látnir vinna að undirbúningi slíkra mála sem þessara. Um þetta er ekkert ákveðið í frv., en mér finnst sjálfsagt, að það verði tekið fram. Þessir menn hafa fengið allmikla æfingu í að leggja grundvöll að þessum málum, og mér finnst ekki nema eðlilegt, að það komi skýrt fram í frv., að þessir kraftar verði notaðir eftir föngum. Þetta gæti einnig verið trygging fyrir, að ekki yrði farið að leggja í óþarfa kostnað í sambandi við þessi mál. Ég býst við, að það geti verið nokkurt álitamál, hvort sá maður, sem faldar eru framkvæmdir rafveitumála í landinu, eða hinn, sem hefir á hendi vatnsvirkjunarframkvæmdir, skuli rétthærri vera til aðstoðar og fulltingis ríkisstj. í þessu efni. Mér skilst, að samkv. frv. eigi sá að gera það, sem forstöðu veitir rafveitumálum ríkisins, enda er það nú öllu meira, sem hvílir á herðum vatnsvirkjunarfræðingsins heldur en nokkurntíma rafveitustjóra. Ég veit, að hv. iðnn. mun taka þetta atriði líka til athugunar undir framhaldandi gangi þessa máls hér í þinginu.