30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2634)

120. mál, útvarpsráð

*Eiríkur Einarsson:

Ég vil með fáum orðum hvorugt gera, taka til umr. starf útvarpsins eins og rætt er um það meðal þjóðarinnar eða hitt, að gagnrýna þær breyt., sem um er að ræða í því frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil aðeins geta þess um brtt. á þskj. 389 og 402, að ég tel þær báðar heldur snúa málinu til sanngjarnara og betra horfs, og mun ég því eins og málið liggur fyrir ljá þeim atkv. mitt.

En það, sem varð til þess, að ég stóð hér upp úr mínu sæti, er, að mig furðar það nokkuð, úr því á annað borð er verið hér á Alþ. að hreyfa við útvarpslögunm, þá skuli sú lagabreyt. einungis lúta að þessu fyrirkomulagsformi um skipun útvarpsráðsins, sem frv. og brtt. fjalla um. Ég sagði að vísu, að ég áliti, að hér væri stefnt í rétta átt, sérstaklega að því er brtt. snerti, og gæti ég því vel við þær unað. Og þá kem ég að því, sem ég álít, að hér á bak við skipti sérstaklega máli. Ég álít réttast, að útvarpsnotendur úti um landsbyggðina yfirleitt ráði meira en minna um yfirstjórn útvarpsins. Ég álít það betra en að Alþingi hafi ákörðunarrétt um, hverjir skuli stjórna þessum málum. Það er af þeirri ástæðu, að ef á að byggja út úr útvarpinu allri pólitískri og hagsmunalegri togstreitu, til þess að vera ekkert myrkur í máli, því að það er bezt að nefna hlutina sínum réttu nöfnum, þá hygg ég, að útvarpsnotendum sé svo sárt um stofnunina, að þeir verði varkárari í að skipa í þessi embætti og sjái betur um. að það verði gert ópólitískt heldur en alþm. mundi nokkurn tíma takast. Ég held sem sé, að hin almenna aukna íhlutun útvarpsnotenda ætti að vera nokkurt spor í áttina til tryggingar í þessu efni, að þeim sé betur trúandi til að skipa í þessi sæti án flokkslegrar togstreitu en nokkurn tíma Alþingi sjálfu. Ég held því, ef þingi væri ekki komið svo langt, að nauðsynlegt hefði verið að koma með brtt. í víðtækara formi en hér er gert.

Þegar maður athugar, hvað útvarpið er orðin kostnaðarsöm og mikil stofnun, þá hlýtur maður undireins jafnframt því að meta það mikils, að starfinu sé þannig með gaumgæfni háttað, að almenningi í landinu geti komið að sem mestum menningarnotum.

Það er ómögulegt að neita því, þegar útvarpstæki eru komin á jafnmörg heimili um breiðar byggðir landsins til sjávar og sveita og raun hefir á orðið, og athugað, hvað mikið menn hlusta á það, sem þaðan kemur, að þetta hefir rutt burt öðru, sem menn nutu áður í frístundum sínum, svo að þeir verða nú nauðugir — viljugir að una við það, sem útvarpið lætur til eyrnanna berast. Þó að það væri ekkert annað en þetta, þá væri það eitt nóg til að sýna, hvað mikið gildir, að útvarpið flytji sem mest og raunar eingöngu það, sem fólki er menningar- og fræðsluauki að. Ég álít t. d. til samanburðar við þetta, að allt of lítið sé gert að því, — allt of mikill svefnhöfgi yfir þeim, sem slíkum málum eiga að ráða, og íhlutun um það, hvað bókaútgáfa er styrkt hér á landi. Ég tel brýna nauðsyn bera til þess, að á nálægum tímum hefjist Alþingi handa með að láta gefa út mjög ódýra og handhæga útgáfu af öllum beztu bókmenntum Íslendinga, sem sé svo dreift út yfir landsbyggðina. Þessi málefni hafa sætt algerðu skeytingarleysi. Það þarf fyrst og fremst að gefa út Íslendingasögurnar og beztu fræðibækur um erlend og innlend málefni í ódýrri útgáfu, sem mundi þá komast inn á svo að segja hvert einasta heimili. Ég tel, að fólki væri andleg heilsubót að fá til sín slíkar bókmenntir.

Alveg sama er að segja með útvarpið. Fólkið fær nóg af þeim pólitísku málgögnum frá öllum flokkum, sem ræða þær skoðanir, sem efst eru á baugi í hvert skipti. Þar skortir ekki fræðsluna, þar er hún í algleymingi, og þar sem blöðunum er nú hleypt inn á heimilin svo mjög sem raun ber vitni, þá er miklu síður nauðsyn fyrir útvarpið að vera á verði um þau pólitísku mál, og því meir gæti það gefið sig að þeim ágætu bókmenntum, sem héldu andlegu lífi í þjóð vorri um margar aldir. Útvarpinu er skylt að hlaupa þarna í skarðið og koma með eitthvað gott og menntandi í staðinn fyrir þann lestur bóka, sem það hefir útrýmt.

Því er oft haldið fram, og þeir eru ekki svo fáir, sem hafa þá skoðun, að útvarpinu sé skylt að láta alla hafa eitthvað, eins og það er orðað. Þeir, sem vilja heyra fornsögurnar, fái að heyra eitthvað úr þeim, og þeir, sem vilja söng og músík, fái það þeir, sem vilja heyra um þjóðfélagsmálin, fái einnig nokkuð, þeir, sem unna leiklist, fái einnig sinn skerf og þeir, sem vilja, þegar klukkan er orðin margt á kvöldin. heyra jazzmúsík, hljóti einnig nokkurn skammt. Ég álít, að þessi aldreifing á starfi útvarpsins eigi ekki rétt á sér, og ef þessu heldur áfram, hygg ég, að það geti ekki endað nema á einn veg, nefnilega þann, að útvarpið verði smám saman menningarlegt viðundur.

Þó að útvarpslögunum verði ekki hreyft á þessu þingi í þá átt, sem ég hefi lítilsháttar minnzt á, þá vona ég, að á næstu þingum verði reglum útvarpsins breytt, ekki með neinni krítik á neinn mann, sem þarna á hlut að máli, öðru nær, heldur verði miðað að því að tryggja almenningi betur en hægt er með þeim reglum, sem nú gilda, að sú mikla og stórfellda stofnun, sem útvarpið er orðið, verði sannarleg menningarstofnun, sem verkar þannig á æskulýðinn jafnóðum og hann vex upp, að hann hneigist að því, sem menningarlegt er og fagurt, án allrar hlutdrægni og laust við allar sérkreddur til hægri og vinstri í þjóðlífi okkar, svo að við mætum þar heilbrigðum mönnum og víðsýnum Íslendingum, eins og þeir beztu meðal þjóðar vorrar hafa alltaf verið.