10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (2780)

49. mál, milliþinganefnd í skattamálum

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Þessi till. er borin fram eftir ósk hæstv. fjmrh. Hún er um það, að skipuð verði þriggja manna mþn. samkv. tilnefningu frá þrem stærstu flokkum þingsins til að endurskoða tolla- og skattalöggjöf landsins og jafnframt að athuga innheimtu skatta og tolla og tollgæzlu. Gildandi lög um skatta og tolla eru nú mjög mörg og flóknari og erfiðari í framkvæmdinni en æskilegt væri, sérstaklega tollalöggjöfin. Miklar breyt. hafa orðið á viðskiptum landsmanna við önnur lönd á undanförnum árum, sem hafa gert óhjákvæmilegt að breyta skatta- og tollalöggjöfinni. Má þar til nefna minnkandi innflutning á ýmsum vörum, sem áður gáfu miklar tolltekjur, og hafa því tolltekjur ríkissjóðs minnkað mjög mikið. Í öðru lagi hefir risið upp töluverður iðnaður hér á landi á síðustu árum, sem ekki var hér til áður. Þess vegna er nú full þörf á því að taka tollalöggjöfina til endurskoðunar með tilliti til þeirrar nýju atvinnugreinar. Undanfarin ár hafa oft verið gerðar breyt. á ýmsum lögum um þetta efni. Í mörgum tilfellum hefir verið til þess ætlazt, að breytingarnar yrðu í gildi aðeins um stundarsakir, en oft hefir farið svo, að breyt. hafa verið framlengdar frá ári til árs, vegna þess að viðskiptin við útlönd hafa ekki fallið aftur í gamla farvegi. Það má því öllum vera ljóst, að þörf er á að endurskoða þessi lagafyrirmæli og vinna að því, að sett verði heildarlög um skatta og tolla, og gera ákvæðin sem réttlátust, miðað við núverandi ástand í viðskipta- og atvinnulífi þjóðarinnar. Einnig verður að gæta þess, að framkvæmd laganna verði svo auðveld sem mögulegt er. Í sambandi við þetta er einnig rétt, að n. athugi fyrirkomulagið á tollgæzlunni, að hve miklu leyti kynni að vera þörf á að breyta henni og færa hana í hagfelldara horf. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. geti orðið sammála um nauðsyn þessa máls, svo að till. nái samþykki þingsins. En þar sem það mun hafa í för með sér nokkur útgjöld fyrir ríkissjóð, ef till. verður samþ., legg ég til, að henni verði vísað til fjvn. til athugunar að umr. lokinni.