11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (2786)

49. mál, milliþinganefnd í skattamálum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og sjá má af nál. fjvn. á þskj. 354, þá hefir hún tekið þessa þáltill. til athugunar og mælt með því, að hún verði samþ. Við fyrri umr. till. var gerð grein fyrir efni hennar og ástæðunum fyrir því, að hún var fram borin, og sé ég ekki ástæðu til að hafa það aftur upp hér. Ég skal aðeins rifja upp tvö meginatriðin. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, þá er sérstaklega tollalöggjöfin orðin það flókin, að ýmsir eiga erfitt með að átta sig á, hvaða tollar hvíla á hinum einstöku vöruflokkum. Af þessum ástæðum m. a. er þörf á að setja þetta í fastbundnara kerfi en nú á sér stað.

Hitt meginatriðið er það, að orðið hefir stórkostleg breyt. á atvinnuháttum þjóðarinnar síðan grundvöllur tollalöggjafarinnar var lagður, og það hefir ekki verið tekið á seinustu árum nægilegt tillit til þeirra breytinga. Það er því nauðsynlegt einnig frá þessu sjónarmiði að taka þetta mál til rækilegrar athugunar.

Það hefir nú sýnt sig, að þessi athugun getur tæplega farið fram á þinginu sjálfu, og þess vegna er það, að allir fjárveitinganm. hafa talið eðlilegast, að Alþ. setti mþn. til að rannsaka og athuga þessi mál.

Brtt. liggur hér fyrir við þessa þáltill. á þskj. 76, þar sem farið er fram á það, að í stað þess að mþn. sé skipuð af 3 stærstu flokkum þingsins, eins og till. gerir ráð fyrir, þá verði hún skipuð af öllum flokkum þingsins. Fjvn. hefir ekki séð ástæðu til að breyta till. á þennan hátt. Þó t. d. 2 þm. kalli sig „Bændaflokk“ og 3 kommúnistar séu í þinginu, þá hafa þessir svokölluðu „flokkar“ alls engin áhrif á löggjöfina. Telur n. því, að það valdi aðeins vafningum, að þeir fari að eiga fulltrúa í þessari nefnd, enda ekki sanngjarnt eða ástæða til, að flokkar, sem engin skilyrði hafa til þess að koma manni frá sér í n. við hlutfallskosningu í þinginu, jafnvel þó það sé allmiklu fjölmennari nefnd, að þeir hafi fulltrúa í slíkri nefnd.

Hitt er svo annað mál, að ég gæti vel hugsað mér, að fjölgað væri mönnum í n., en ég skal taka það fram, að það, sem ég segi um það, er sagt frá eigin brjósti, en ekki fyrir hönd n., því það hefir ekki verið sérstaklega um það rætt í fjvn. Þá teldi ég miklu heppilegra, ef fjölgað væri mönnum í n., að það væri gert á þann hátt, að í hana væri bætt mönnum, sem vegna starfs síns hafa sérstaka þekkingu á þessum málum. Ég á hálfpartinn von á, að slík till. kunni að koma fram, og get ég tekið fram, að ég myndi vera slíkri till. fylgjandi. Ef ætti að hafa fleiri en 3 menn kjörna í n., þá teldi ég sjálfsagt að kjósa þá með hlutfallskosningu í Sþ., en ekki að miða við flokka, eins og brtt. á þskj. 76 gerir ráð fyrir.