11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

134. mál, sýslumannabústaðir

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessari þáltill., en ætla ekki að lengja umr. um hana. Það veldur ríkissjóði nokkrum kostnaði og ekki sýnt, hvenær hægt verður að ráðast í að byggja þessa bústaði, en það er áreiðanlega þarft mál. Sýslumenn skipta um sýslur og eiga þá erfitt með að selja bústaði, ef þeir hafa eignazt þá. Í samanburði við presta og lækna eiga sýslumenn einnig rétt til slikra fríðinda, eða a. m. k. ekkert óeðlilegt við að veita þeim þau. Um till. mun ekki verða mikill ágreiningur meðal framsóknarmanna, enda hefir oft verið minnzt á þetta í flokknum.

Þó að ég vilji ekki fara að lenda hér í neinum eldhúsumr., vil ég svara hv. 6. landsk. fáum orðum. Það hefir ekki verið tekin upp nein ný regla um það í minni stjórnartíð að slá ekki upp embættum, heldur haldið áfram venju, sem lengi hafði áður gilt. Og það er því erfiðara að hverfa frá eldri venjum sem þær hafa haldizt lengur. Það hefir verið tekið tillit til þess, jafnhliða því, að sá, er sýsluna fékk, væri starfinn vaxinn, að hann fylgdi í stjórnmálaskoðunum sama flokki og ráðh. Þetta hafði verið svo föst venja áður en ég tók við ráðherrastarfi, að auðgert er að finna fjölda embætta, sem veitt voru með hliðsjón af stjórnmálaskoðunum. Hvernig er það, ef litið er á veiting embættanna á þeim tíma í Borgarnesi, Dölum, Ísafirði, Strandasýslu, Blönduósi, Sauðárkróki, Húsavík. austfjörðum — tveir sýslumenn —, Vík, Rangárvallasýslu og loks Árnessýslu? Niðurstaðan er ótvíræð. Af þessu geta menn séð, hvernig raðað var af fyrirrennurum mínum í sætin kringum landið. Það er öllum ljóst, hvernig þetta raskaði öllu pólitísku jafnvægi í landinu, og þó að það sé alls ekki regla til fyrirmyndar, varð ekki stefnt nær jafnvægi með öðru eftir að ég tók við starfi en að halda venjunni.

Fyrirrennari minn veitti t. d. þrjú slík embætti: á Akureyri, Blönduósi og Ísafirði. Tveim þeirra embætta var aldrei slegið upp. Ég er ekki að segja, að þeir, sem embættin fengu, væru ekki góðir starfsmenn, þó að ég minni á það, að ef embættunum hefði verið slegið upp, hefði ekki komið til mála að veita t. d. Blönduós þeim manni, sem veitt var; hann hafði enga reynslu fengið í því að fara með embætti, nema lítilsháttar sem aðstoðarmaður á Akureyri. Á Ísafirði var settur maður, sem aldrei hafði komið nálægt sýslumannsstarfi.

Það má segja, að ein syndin bjóði annari heim í þessu efni, en því verður varla haldið fram, að nú sé lengra gengið en áður en ég tók við starfi, heldur öllu skemmra.

Ég skal láta útrætt um málið, nema alveg sérstakt tilefni gefist.