02.03.1938
Efri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2895)

14. mál, mjólkurverð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Um fyrsta lið þessarar till., áskorun til ríkisstj. um að hlutast til um, að verð á neyzlumjólk í Rvík og Hafnarfirði verði aftur lækkað niður í sama verð og mjólkin var seld fyrir áður en hún hækkaði í verði nú í febrúar, er það að segja, að það er ekki hægt að framkvæma hann nema með lagabreyt., því að það er sérstök n., sem ákveður það mál, en ekki ríkisstj., og yrði því að flytja vald hennar í hendur ríkisstj. En það er ekki hægt að breyta landslögum með þál.

Um það, að láta fara fram rannsókn á, hvernig tiltækilegt mundi að lækka framleiðslukostnað mjólkur í umhverfi Rvíkur, vil ég segja það, að mjög væri ákjósanlegt, að hægt væri að lækka framleiðslukostnaðinn hér, en hinn hái framleiðslukostnaður stafar af því, að mikið af jörðum hér nærlendis er veðsett fyrir mjög háar upphæðir, og allt of háar veðskuldir hvíla á jörðunum. Það hvíla á þeim frá gamalli tíð allt upp í 90 þús. kr. á hinum stærstu jörðum, og það er ekki auðveit að laga það.

Þriðji liðurinn er um að láta fara fram athugun á því, hvaða leiðir mundu heppilegastar til að auka mjólkurneyzlu hér í Rvík. Þál. um það er ég ekki móffallinn, en það er kunnara en frá þurfi að segja, hvað það er, sem hefir haldið niðri mjólkurneyzlunni hér. Það hefir verið eins og að höggva í stein fyrir mjólkursölunefnd að auglýsa, vegna þess óvilja, sem Rvíkingar hafa sýnt mjólkurskipulaginu.

Hvað snertir þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég taka það fram, að það getur ekki haft neina þýðingu að vísa henni til ríkisstj., þar sem hún er í andstöðu við landslög. Ég álít, að eðlilegast væri að vísa þessu til n., og geri ég ráð fyrir, að landbn. væri færust til þess að athuga, hvort hér er ekki farið með rétt mál, og til þess að bera þessa þáltill. saman við mjólkurlögin.

Um mjólkurskipulagið í heild vil ég ekki fara að ræða að verulegu leyti að þessu sinni. Það hefir svo oft verið gert áður. En ég get ekki komizt hjá því að svara einstökum atriðum, sem reyndar voru aðalinnihaldið í ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem sé því, að þetta skipulag, sem hér hefir verið sett, grundvallist á pólitískum tilgangi og sé hlutdrægt. Ég vil taka það fram, að samskonar skipulagi og hér er um að ræða, þar sem ætlazt er til þess, að verðmunurinn á mjólkurframleiðslunni fjær og nær Reykjavík fari eingöngu eftir því, hvað flutningskostnaður mjólkurinnar er mikill, hefir verið komið á í Noregi og á Englandi og er talið hafa gefizt mjög vel. Og þetta skipulag, sem hér hefir verið komið á, er beinlinis tekið upp samkv. þessum fyrirmyndum. Það er vitanlegt, að ýmsir af þeim, sem fjær búa Reykjavík, hafa aðstöðu til þess mestan hluta ársins að koma vöru sinni jafngóðri á markaðinn og þeir, sem nær búa. Og það má benda á, að innan Mjólkurfélags Reykjavíkur, þar sem hærra verðlagið gilti, búa bændur, sem eru öllu fjær Reykjavík heldur en helmingur þeirra bænda, sem búsettir eru í Borgarfirði og fyrir austan fjall. Á ég þar aðallega við mjólkurflutninga ofan úr Hvalfirði. Í þessu er ekkert réttlæti. Að láta flutningskostnaðinn ráða, það er það réttlátasta fyrirkomulag á þessum málum, og er engin ástæða til þess að væna menn um pólitíska hlutdrægni fyrir slíkt.

Þá er það hækkunin á mjólkinni. Hún er nú aftur komin upp í það verð, sem hún var í áður en mjólkurskipulagið komst á. Ég minnist þess, að þegar mjólkurverðið var lækkað um þessa 2 aura, var það viðkvæðið, að þessi lækkun væri einskisvirði, það munaði ekkert um hana. En þegar mjólkin er nú hækkuð upp í það verð, sem hún var í áður, eftir að stórhækkun hefir orðið á ýmsu, sem að framleiðslu hennar lýtur, þá ætlar allt um koli að keyra. Þetta sýnir mönnum bezt þá velvild, sem mjólkurskipulagið á við að búa. Það var ekki verið að halda því fram þá, þegar mjólkin lækkaði, að neytendur ættu að kaupa meiri mjólk. Það var sagt, að það munaði ekkert um þessa lækkun. En nú er því haldið hér fram, m. a. af hv. flm. þessarar till., að ef mjólkurverðið lækki, muni neyzlan aukast og að lækkunin sé þess vegna í alla staði ákjósanleg. En hvers vegna er ekki þessi regla látin gilda um vinnu yfirleitt? Hvað er það annað en vinnulaun bænda, sem hér er um að ræða? Væri ekki rétt að athuga það, hvort kaupið sé ekki svo hátt hjá verkalýðnum, að heppilegt væri að lækka það, með tilliti til aukinnar vinnu? Í raun og veru er þetta, sem hér er verið að flytja fram gegn bændunum, alveg hliðstætt við það, að slík till. væri flutt gegn kaupgjaldi yfirleitt. Og nú, þegar hægt er að sýna fram á, að allt hefir hækkað í verði á síðustu árum og kostnaðurinn við dreifingu mjólkurinnar hefir m. a. aukizt, vegna kauphækkunar fólksins, sem að dreifingunni starfar, þá eiga bændurnir að vera þeir einu, sem ekki mega hækka sitt kaup. Bændurnir eru þeir einu, sem því er beint til, að þeir eigi að sitja með sama kaup og sömu kjör og áður, vegna þess að þeir eru sú eina stétt, sem var svo sanngjörn, þegar lækkunin átti sér stað 1934 á almennum lífsnauðsynjum, að lækka einnig sitt kaup.

Það hefir verið talað um, að þetta skipulag sé viðsjárvert vegna þess, að með því að halda uppi verðjöfnunargjaldi hljóti framleiðslan að aukast. Meðan þetta skipulag hafi hinsvegar ekki verið komið á, hafi framleiðslan hlotið að ganga saman, eftir því sem verðlagið lækkaði. En þess er ekki gætt, að vitanlega hlýtur hemillinn að vera sá sami þrátt fyrir þetta. Spurningin snýst um það eitt, hvort bændurnir, sem búa af einhverri tilviljun vestanfjalls, eigi einir að hafa neyzlumjólkurmarkaðinn, þótt aðrir geti á sama hátt notið hans. Þeir, sem búa utan þessa svæðis, eiga síðan að vinna úr sinni vöru, og lækkunin á að koma þar niður og þar á framleiðslan að ganga saman. Það sjá allir, að ef framleiðslan eykst, hlýtur verðlagið að lækka hjá öllum jafnt, eins og verðjöfnunargjaldinu er nú fyrir komið. Hér gildir því sami hemill og áður, en munurinn er sá, að hann kemur nú miklu réttlátar niður.

Þá hefir verið stefnt að því með núverandi skipulagi, að reyna að gera framleiðsluna þannig úr garði, að verðjöfnunargjaldið geti aukizt, án þess að það sé tekið af neyzlumjólkinni. Má benda á þurrmjólkurvinnslu og fóðurbætisskatt, sem hlýtur að verða tekinn á næstunni, til þess að fyrirbyggja offramleiðslu.

Það má minna á, að samkv. því frv., sem Bændafl. og Sjálfstfl. fluttu varðandi þessi mál, átti alls enginn hemill að vera. Það átti að borga úr ríkissjóði, það sem á vantaði, og svo var hægt að framleiða takmarkalaust.

Mjólkurskipulagið hefir átt við ýmsa erfiðleika að stríða. Því verður ekki neitað. Aðalannmarkinn er sá, að það hvíla orðið svo miklar skuldir á jörðunum í Mosfellssveit, að framleiðslan verður óeðlilega dýr. Þess vegna verður að halda uppi óeðlilega háu mjólkurverði fyrir þá bændur, sem hér eiga hlut að máli, ef þessi framleiðsla á að geta staðizt.

Þau orð hafa verið látin falla, að það geti farið svo, að það verði að afnema þetta skipulag, sem komið hefir verið á í mjólkursölumálunum. Ég hefi ekki mikla trú á því, hverjir svo sem hér stjórnuðu, að þeir myndu sjá sér fært að afnema skipulagið. Þetta er vitanlega aðeins spá, sem mér þykir þó líklegt, að muni eiga eftir að rætast, því þetta er það eina réttláta skipulag á þessu sviði, sem menn hafa fundið. Og hvað kostar að afnema skipulagið? Það er bezt fyrir þá, sem eru þess sinnis, að fara upp á Akranes og spyrja bændurna þar, hvað það kostar að hafa ekkert skipulag. Það þarf enginn að halda, að þetta skipulag sé eitthvað, sem menn óski sérstaklega eftir að hafa. Það er sprottið af nauðsyn. Þegar Engiendingar tóku það upp, var það gert í þeim tilgangi, að fyrirbyggja það, að bændur flosnuðu upp af jörðum sínum. Og eins var það í Noregi.

Um það atriði, að auka mjólkurneyzluna hér í Reykjavík, er allt gott að segja. Og það getur vel komið til athugunar, án þess að ég hafi borið mig hér saman við þá menn, sem fara mest með þetta skipulag, að mjólkurverðið lækki um vissa auratölu í stað hverrar tiltekinnar aukningar á mjólkurneyzlunni. Ef neytendur vilja sýna þann áhuga fyrir þessu í verki og hér hefir komið fram, og ef það er rétt, að auka megi neyzluna um 1–2 þús. lítra, þá er það vel þess vert, að það sé athugað í sambandi við mjólkurverðlagsnefnd, hvort mjólkin geti ekki lækkað jafnóðum og neyzlan eykst. En við erum það vantrúaðir á viljann í þessum efnum, að við viljum fá að sjá hann í verkinu jafnframt því sem lækkunin fer fram.