29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (2908)

14. mál, mjólkurverð

Magnús Jónsson:

Það er gott ráð til þess að láta umr. fjara út að fresta þeim hvað eftir annað. Og af því að svo er umliðið síðan málið var fyrir síðast, mun ég sleppa flestu því, sem ég hafði skrifað. Ég hefi svo lítið gaman af að tala fyrir Þingtíðindin, að ég tel ummæli hv. andstæðinga minna fyrnd og of fjarlæg nú, þó að ég viti, að þessum ræðuhöldum í málinu verði öllum raðað saman við prentunina. En eina fyrirspurn verð ég að gera til hæstv. forsrh. um bráðabirgðaákvæði mjólkurlaganna frá síðasta ári. Þegar rætt var um þær viðtæku breyt., sem þá voru gerðar á lögunum, voru í báðum þingdeildum bornar fram brtt., m. a. um að fella niður bráðabirgðaákvæði l., svo að stjórn þessara mála geti strax komizt í hendur framleiðenda. Hæstv. forsrh. lýsti þá yfir því, að ef hið nýja fyrirkomulag yrði samþ., mætti fljótlega afnema bráðabirgðaákvæði laganna. Hversu fljótt má vænta þess, að það loforð komi til framkvæmda?

Annars skal ég ekki fara út í ræðu hæstv. forsrh. En hann taldi það gróflega óeðlilegt, að fjallahringurinn hérna kringum Reykjavík ætti að takmarka svæði neyzlumjólkurframleiðslunnar. En það er nú einmitt fjallahringurinn, sem veldur því, hve erfitt er að koma mjólk í bæinn svo tryggt sé á öllum tímum árs.

Hv. 1. þm. N.-M. beindi einhverju til mín, en ég var þá staddur í forsetastóli og kann þá ekki við að vera að skrifa mikið af ágreiningi og líta á mig sem aðilja í deilumáli. Hann sagði, að ég hefði sagt, að mjólkin þyrfti að hækka, og líka, að hún þyrfti að lækka til neytenda, og taldi, að ég hefði haldið hér eina mikla „haltu-mér-slepptu-mér“ ræðu. Það má kannske segja sem svo. Ég held því fram, að mjólkurverðið þurfi að vera svo hátt, að framleiðslan beri sig. Með þeim álögum, sem búið er demba á framleiðendur hér í nærsveitum, nú síðast ótakmörkuðu verðjöfnunargjaldi, getur hún ekki staðizt. Því þarf að hækka verð til bænda. — Ég er líka sammála hv. 11. landsk. um það, að útsöluverð þarf að lækka, til þess að neyzlan geti vaxið. En til þess þarf ekki að lækka verðið til þeirra, sem framleiða neyzlumjólkina, heldur létta af henni verðjöfnunargjaldinu ótakmarkaða, sem veldur því, hve lítið þeir bera úr býtum.

Neyzlan verður að aukast, það er „alfa og ómega“ í þessu máli. Mjólkursölun. þarf þar að gera skyldu sína. Það þarf að prédika fyrir fólkinu, hvaða ágætis vara mjólkin er, og það þarf að leita allra bragða, gera mjólkurafurðirnar sem allra fjölbreyttastar og útgengilegastar. Það getur vel verið, að hv. 1. þm. N.-M. og hv. 11. landsk. þyki ég slá úr og í, og ég skal ekkert fara út í þessar „haltu-mér-slepptu-mér“ ásakanir þeirra. Það mun vera sannast, að ræða mín hafi ekki verið svo blinduð af neinu einsýnisofstæki, að von væri, að þeim líkaði.

Síðustu orðum hv. 11. landsk. vildi ég svara að nokkru. Ræða hans var ákaflega fróðleg og full af tölum, og að því leyti þingleg, hvað sem hann vildi svo sanna með því öllu. En í ræðulokin var eins og hann færðist í annan ham og minnti, að hann væri kominn á pólitískan fund. Það situr nú hálfilla á manni úr Alþfl. að tala um sveitarflutninga þingmanna, eins og hv. þm. lét sér sæma, þegar flokkur hans lét sér ekki fyrir brjósti brenna að þvæla forseta sínum ýmist vestur eða norður í land við kosningar og síðast á svo tæpt vað, að það munaði ekki nema örfáum atkv., að hann félli. Þá er það ekkert til að fárast yfir, þó að þm. færi sig úr einu kjördæmi, þar sem hann hefir verið kosinn, og í annað nágrannakjördæmi.

Umræður um þetta mál hafa nú þegar orðið nógar um meginatriði þess, og skal ég fyrir mitt leyti láta órætt um hin minni.